Finna mikla samkennd og stuðning

Íris Ann Sigurðardóttir á og rekur bæði Coocoo´s Nest og …
Íris Ann Sigurðardóttir á og rekur bæði Coocoo´s Nest og Luna Florens út á Granda. mbl.is/Rebekka Rut Marínós

„Þetta eru skrítnir tímar,“ segir Íris Ann Sigurðardóttir, eigandi Coocoo's Nest og Luna Flórens úti á Granda, en eins og veitingamenn um heim allan hefur hún ekki farið varhluta af afleiðingum kórónuveirunnar sem nú hrellir heimsbyggðina.

„Við gripum strax til ráðstafana um leið og ljóst var hvað var að gerast. Bilið var aukið milli borða og öll borð eru sótthreinsuð eftir notkun. Við njótum þeirra forréttinda að vera með svo lítinn stað að það er svo auðvelt að eiga samtalið við viðskiptavinina og halda öllum upplýstum um hvað við erum að gera. Stór hluti okkar viðkiptavina er fastakúnnar og við höfum reynt að leggja upp með hugtakið samfélagsábyrgð. Þannig leggjum við það í hendur hvers og eins að sýna ábyrgð og koma ekki þegar þeir eru ekki hraustir, hvort sem er af völdum veirunnar eða einhvers annars. Og þetta hefur gengið vel en auðvitað er ekki komin reynsla á það eftir að samkomubannið var sett á.“

Íris segist finna mikinn meðbyr og stuðning í samfélaginu. „Mér finnst það svo magnað. Fólk er að hringja í okkur og senda skilaboð. Bjóða fram aðstoð og stuðning. Kaupa gjafabréf og annað sem það veit að mun hjálpa til. Það er svo dýrmætt fyrir lítil fyrirtæki að hafa eitthvert bakland.“

Viðskiptavinahópur Coocoo's Nest er að megninu til heimamenn en veitingamenn í miðbænum hafa talað um eyðimerkurstemningu í miðborginni þar sem fáir ferðamenn séu á ferli. Kallað hefur verið eftir aðstoð stjórnvalda og segist Íris ánægð með hvað það tal var tekið upp snemma af hálfu stjórnvalda. „Það var strax farið að ræða aðgerðir eins og að fella niður tryggingargjaldið og bjóða upp á frestanir og annað slíkt. Mér fannst það traustvekjandi að finna þennan stuðning frá stjórnvöldum og vona að það verði raunin þegar á reynir.“

Íris Ann og eiginmaður hennar, Lucas Keller, hafði lengi dreymt …
Íris Ann og eiginmaður hennar, Lucas Keller, hafði lengi dreymt um að opna eigin veitingastað. The Coocoo's Nest er einskonar Delí með ítölsku ívafi. Ómar Óskarsson
mbl.is