Galette með eplum og möndlufyllingu

Ljósmynd/Guðrún Ýr Eðvaldsdóttir

Guðrún Ýr Eðvaldsdóttir heldur úti matarblogginu Döðlur & smjör og hér deilir hún með lesendum gómsætu galette með eplum og möndlufyllingu.

Guðrún gerði deigið í höndunum og var ekkert að flýta sér við það. „Ég nostraði við þegar ég flatti það út og raðaði eplunum á, smáklisja en mér finnst gott ef maður nær að baka eða elda á sínum hraða og ekkert stress eða pressa í kringum það.

En ég er alsæl með þessa böku og mæli svo sannarlega með henni, frábær sem eftirréttur en þá er hægt að gera hana fyrirfram jafnvel daginn áður, geyma inni í kæli og setja hana svo inn í ofn meðan borðað er og borin fram heit með ís. Ekkert síðri á sunnudagseftirmiðdegi með góðum kaffibolla. Njótið!“

Bökudeig

 • 160 g hveiti
 • 25 g sykur
 • 1 tsk. salt
 • 170 g smjör, kalt
 • 50 ml vatn, ískalt
 • 1 eggjahvíta (til penslunar)
 • 1-2 msk. sykur (perlusykur)

Aðferð:

 1. Hægt er að notast við matvinnsluvél eða gera deigið í höndunum. Setjið hveiti, sykur og salt á borðið, gott er að hafa diskamottu undir til að vernda borðið.
 2. Skerið smjörið í bita og blandið saman við hveitið í þremur skömmtum. Hægt er að nota hnífa til að saxa smjörið saman við hveitið eða sköfu, smá þolinmæðis vinna en svo þess virði.
 3. Mixið saman þangað til smjörið er orðið í mjög litlum bitum. Bætið þá vatninu saman við smávegis í einu þangað til deigið er formað, ekki of þurrt en ekki of blautt.
 4. Mótið kúlu og þrýstið henni aðeins niður, setjið í plast og inn í ísskáp.
 5. Leyfið deiginu að hvíla í minnst 2 klst. Hægt er að geyma deigið inni ísskáp eða í frysti ef það er gert fyrirfram.
 6. Ef deigið er gert í matvinnsluvél er hveiti, sykur og salt sett saman í og smjörið skorið niður og sett saman við í þremur skömmtum þangað til að það er orðið kornótt, alls ekki alveg samblandað því við viljum halda í litlu smjörblettina í deiginu, það er það sem gerir deigið stökkt eða flaky.
 7. Takið deigið úr matvinnsluvélinni og setjið á borð og hellið vatninu saman við og mótið þangað til það er ekki of þurrt en ekki of blautt. Framhald sjá að ofan.

Möndlufylling

 • 70 g marsípan
 • 2 msk. smjör, við stofuhita
 • 1 msk. hveiti
 • 2 msk. sykur
 • 1 eggjarauða
 • 1 tsk. vanilludropar
 • 1 tsk. möndludropar

Aðferð:

 1. Setjið öll hráefnin saman í matvinnsluvél og blandið vel saman.
 2. Samsetning
 3. Takið fjögur epli fram, skrælið og skerið í þunnar sneiðar.
 4. Takið deigið úr kæli, setjið dass af hveiti á borðið og takið deigið úr plastinu og á borðið. Byrjið að fletja deigið út með kökukefli með því að fletja alltaf í áttina frá ykkur og snúa deiginu um fjórðung jafnt og þétt. Svo deigið sé laust frá borðinu og jafn þykkt á alla kanta. Bætið hveiti undir ef þarf.
 5. Þegar deigið er útflatt leggið það yfir kökukeflið og færið yfir á bökunarpappír. Dreifið möndlufyllingunni yfir deigið og skiljið u.þ.b. 3 cm eftir frá kanti, til að brjóta inn.
 6. Leggið eplin ofan á eftir hentisemi og brjótið deigið inn á við. Setjið bökuna inn í kæli á meðan ofninn hitnar. Stillið ofn á 210°c. Þegar ofninn er orðinn heitur, takið bökuna úr kælinum, penslið kantana með eggjahvítu og sáldrið sykri yfir. Setjið inn í ofn og stillið á 20 mínútur. Eftir 20 mín. er hitinn lækkaður í 175°c og bakað í 25 mín í viðbót.
 7. Berið fram volga með rjóma eða vanilluís.

- - -

Fylgstu með Matarvefnum á Instagram og Facebook. Endalaus ævintýri, hugmyndir, skemmtilegir leikir og allt það heitasta heita...

Svo megið þið endilega tagga okkur á Instagram þegar þið eruð að elda eitthvað spennandi @matur.a.mbl

Ljósmynd/Guðrún Ýr Eðvaldsdóttir
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.890 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »