Veitingahúsaeigandi vildi líkjast Tiger King

Ljósmynd/Samsett

Hver vill ekki líta út eins og Joe Exotic? Fyrir þá sem eru ekki með það á hreinu hver sá maður er þá er þeim bent á að horfa á þáttaröðina Tiger King á Netflix en Joe Exotic er aðalpersóna þeirra þátta og er alveg hreint stórkostlegur. Eins og aðdáendur þáttanna þekkja þá er Tígrisdýrakóngurinn með mjög sérstaka og eiginlega alveg magnaða hárgreiðslu.

Veitingastaðaeigandinn, Jake Burgess, ákvað að nýta vinsældir kóngsins til að safna fé handa starfsfólki sínu en Burgess á fjóra veitingastaði og einn matarbíl sem allir hafa þurft að loka vegna kórónuverunnar. Burgess hóf söfnun á netinu með því að selja gjafakort en upphæðin rann öll til starfsmanna. Þátttakan var góð og ákvað Burgess þá að ef ákveðinn fjöldi horfði á söfnunina sem var sýnd beint á samfélagsmiðlum, skyldi hann fá sér klippinguna frægu.

Það gekk eftir og stóð Bugess við sitt. 

mbl.is