Átta hlutir sem þú ættir að þrífa heima hjá þér

Þessi mynd segir allt sem segja þarf. Það er gott …
Þessi mynd segir allt sem segja þarf. Það er gott að þrífa...

Til eru þeir staðir á heimilinu sem oft gleymast í hefðbundnum þrifum sem geta reynst nokkuð varasamir... svona bakteríulega séð.

Við erum að tala um staði sem blasa við og við notum daglega en geta í reynd safnað miklum skít og verið varhugaverðir.

Við tókum saman lista yfir þá hluti sem þú ættir að þrífa oftar ef þú gerir það ekki nú þegar.

1. Tannburstaglasið. Við skolum tannburstann okkar á hverjum degi eftir notkun en oftar en ekki gleymist að skola tannburstaglasið reglulega. Samkvæmt einni rannsókn reyndist tannburstaglas innihalda töluvert magn sýkla. Skolaðu glasið því reglulega með sápu.

2. Uppþvottavélin. Sú góða vél þvær vel en oft vilja safnast sýklar í kringum gúmmífóðringar og á önnur svæði. Gott ráð er að þvo vélina reglulega á hæsta hita með vægri klórblöndu.

3. Ljósarofar. Það gefur augaleið að við snertum ljósrofa oft á dag og eðlilega safnast þar saman sýklar. Ráðlagt er að nota örtrefjaklúta til að þrífa þá reglulega og jafnvel sótthreinsivökva af og til. Passið samt að bleyta þá ekki því vatn og rafmagn eiga afskaplega illa saman.

4. Farsíminn. Sama gildir um símann og ljósarofann. Við snertum símann oft á dag og gott betur. Hér er gott að nota örtrefjaklúta, sótthreinsandi hreingerningarklúta og muna svo að þvo hendurnar reglulega.

5. Baðleikföng. Mygla og skítur getur safnast fyrir í baðleikföngum, sérstaklega þeim sem hægt er að fylla með vatni. Þrífið leikföngin reglulega og skiptið út ef þurfa þykir.

6. Lampar og rofar á þeim. Hér gildir það sama og með ljósarofana.

7. Veskið þitt. Hvern hefði grunað? Kannski flesta þegar maður spáir í það. Strjúktu reglulega af veskinu með örtrefjaklút og sótthreinsandi hreingerningarklút.

8. Íþróttabúnaður. Hér eru jógamottur í sérlegu uppáhaldi þar sem í þær safnast sviti og þar af leiðandi raki. Best er að vera með sína eigin mottu og skola hana reglulega, helst með mildum sótthreinsandi vökva í úðabrúsa og mundu að láta hana þorna vel á milli notkunar.

mbl.is