Eftir Sigurbjörn Þorkelsson: „Kærleikurinn er ekki aðeins falleg orð heldur lætur hann verkin tala. Í honum er fólgin lausn, sigur og ólýsanlegur lækningamáttur.“
Sigurbjörn Þorkelsson
Sigurbjörn Þorkelsson
Kærleikurinn er ekki einhver þreyttur lagabókstafur eða steinrunnir stafir heldur síungt og ferskt hjartalag, hugarþel, athöfn og verk sem spyrja ekki um endurgjald eða hvernig standi á.

Kærleikurinn er ekki þrasgjarn. Hann veit ekki allt best og hann veður ekki yfir. Hann hlustar og sýnir skilning. Hann virðir, umvefur, uppörvar og hvetur.

Kærleikurinn spyr ekki um eigin hag og er ekki á eigin forsendum. Hann segir ekki þegar mér hentar, þegar ég vil eða nenni og þá þegar ég fæ sem mest út úr honum á móti.

Nei, kærleikurinn hlustar og sér. Hann opnar hjarta sitt fyrir neyð náungans, án þess að spyrja um rök eða ástæður.

Um leið og kærleikurinn er brottför frá sjálfhverfu leiðir hann til sjálfsmeðvitundar.

Kærleikurinn nær út yfir öll hagsmunasamtök og alla pólitík. Kærleikurinn er miskunnsamur. Ekki sjálfhverfur. Hann er umhyggja frá innstu hjartans rótum....