Í baráttunni við kórónaveiruna hafa tvívegis verið settar reglur um svokallað samkomubann. Fyrst var lagt bann við því að fleiri kæmu saman en hundrað en svo var bannið aukið og nú mega ekki koma saman fleiri en tuttugu. Í bæði skipti var tekið fram, þegar sagt var frá banninu, að það tæki gildi eftir svo og svo skamman tíma. Þarna hefði mátt ætla að öllum yrði augljóst að þörf væri á banninu strax, þótt formleg gildistaka gæti ekki orðið samstundis. En þá töldu einhverjir greinilega að ástæðulaust væri að fylgja banninu fyrr en það hefði formlega tekið gildi. Meira að segja lét atvinnuleikhús í borginni sig hafa það að efna til frumsýningar á stóru leikverki eftir að bannið hafði verið tilkynnt en ekki formlega tekið gildi. Hvernig getur fólki dottið í hug, eftir að bannið hefur verið kynnt, að í raun sé ekki þörf fyrir það fyrr en við formlega gildistöku? Halda menn að veiran lesi Stjórnartíðindi og smiti ekki af fullri alvöru fyrr en...