„Maður ætti alltaf að segja satt“

Harpa myndi forgrangsraða í þágu m.a. heilbrigðismála ef hún hefði …
Harpa myndi forgrangsraða í þágu m.a. heilbrigðismála ef hún hefði eitthvað með fjárlög að gera. mbl.is/Kristinn Magnússon

Harpa Hermannsdóttir, fjármálastjóri Alfreðs vinnumiðlunar og Stokk Software, segir áhugavert að starfa í litlum frumkvöðlafyrirtækjum. Hún hefur mikinn áhuga á fjármálum og hefur alla ævi verið góð í því. Ef hún stýrði landinu í viku myndi hún eyða vikunni í að fara yfir fjárlög ríkisins og endurraða í vel völdum málaflokkum, m.a. í þágu heilbrigðis- og menntakerfis í landinu.  

Hvernig er að starfa hjá vinnumiðluninni Alfreð?

„Það er virkilega gaman. Ég hef ekki unnið áður hjá fyrirtæki með svona fáa starfsmenn, en það er vel valinn maður í hverju starfi og við vinnum sem ein heild. Það breytir engu hvort þú ert forritari eða fjármálastjóri, allir sitja fundi saman og ræða þau mál sem koma upp sem jafningjar.“

Hvar varstu áður?

„Ég vann áður hjá WOW air sem deildarstjóri fjárstýringar, virkilega krefjandi og skemmtilegt starf. Ég var ásamt því að kenna fjármálakúrs í Háskóla Íslands fyrir þá sem voru að taka viðskiptafræði með vinnu.“

Nú sérðu um fjármál fyrirtækisins, hefurðu alltaf verið góð með peninga?

„Já ætli ég verði ekki að játa það. Ég var byrjuð í launaðri vinnu fyrir tíma alnetsins og hélt því utan um mín fjármál í klassískri færslubók þar sem ég skráði allt sem fór inn og út, hvort sem það var bara dagsdaglegt uppihald á meðan ég var í skóla eða vinkvennaferð til Benidorm þegar ég var 18 ára. Allt var samviskusamlega skráð niður og greint.“ 

Hvað getur þú sagt þeim sem leita sér að starfi í dag?

„Fyrsta skrefið er að sjálfsögðu að sækja sér Alfreð-appið og fylla út prófíl. Fleiri og fleiri fyrirtæki eru farin að nýta sér þjónustu Alfreðs þannig að hægt að er sækja um störf bara með einum smell í appinu ef allar nauðsynlegar upplýsingar eru komnar í prófílinn þinn. Ég mæli líka með að fólk stilli vaktina hjá sér vel, því þá fær það tilkynningar um leið og starf við þeirra hæfi er auglýst.“

Nú eru margir án atvinnu, er eitthvað eitt sem virkar betur en annað þegar mann langar í vinnu?

„Að gera sér grein fyrir hvað mann langar að gera og hvað maður getur. Svo er það auðvitað bara að vera óhræddur að sækja um spennandi störf. Ég myndi líka mæla með því við fólk sem er án atvinnu að sækja einhver námskeið til að auka á þekkingu sína og ekki síður bara til að komast út, hitta fólk og halda hausnum í góðu standi.“

Hvernig finnur fyrirtæki draumastarfsmanninn sinn?

„Að sjálfsögðu með að auglýsa hjá Alfreð, þar sem við erum með hátt í 100.000 notendur og því auðvelt að ná til breiðs hóps af fólki. Hjá okkur er hægt að skilgreina starfið vel og koma á framfæri hvaða eiginleikum tilvonandi starfsmaður þarf að búa yfir. Fyrirtæki sem auglýsa hjá Alfreð fá líka aðgang að fríu ráðningar- og úrvinnslukerfi þar sem þau fá frábæra yfirsýn yfir umsóknir og geta verið í beinum samskiptum við umsækjendur, boðið þeim í viðtöl og sent þakkarbréf með einum smelli.“ 

Vinnur þú mikið?

„Það hefur komið í törnum. Þegar ég var hjá WOW vann ég töluvert mikið, sérstaklega síðasta árið þar. Fartölvan var aldrei langt undan á kvöldin og um helgar og maður var algjörlega í þessu af hjarta og sál eins og flestir aðrir starfsmenn WOW, sama hvaða dagur eða tími sólarhrings var.

Á undan því hafði ég tekið tímabil þar sem ég var í 100% vinnu, 100% námi og kenndi í HÍ, allt á sama tíma. Það var alveg pínu geðveiki svona eftir á, en ég á góða að sem hjálpuðu mikið og svo komu rólegri tímar inn á milli þar sem maður kúplaði sig út og safnaði orku.

Í dag er meira jafnvægi á þessu hjá mér, ég er búin í öllu skólastússi í bili, klára mína vinnu á vinnutíma og á eðlilegan frítíma fyrir mig og fjölskylduna.“

Áttu fjölskyldu?

„Já heldur betur! Ég á sjálf 2 börn úr fyrra sambandi sem eru 12 og 16 ára, og svo var ég svo heppin að fá 4 börn í viðbót í fjölskylduna sem sambýlismaður minn á úr sínu fyrra sambandi. Það er því mikið fjör á okkar heimili aðra hverja viku, en eins og þeir sem eru góðir í meðaltalsreikningi ættu að sjá eru þetta nú bara 3 börn að meðaltali, svo við erum rétt yfir vísitölu-viðmiðunum yfir mánuðinn.“

Hvernig sinnir þú þér?

„Ég hef átt kort í líkamsræktarstöð samfleytt síðan 1992 og verið nokkuð góð í að nýta þau. Ég hef tekið mismunandi tímabil í gegnum árin, bæði hvað ég stunda og hversu dugleg ég er að mæta. Undanfarin ár hef ég helst verið að mæta í HIIT-tíma og svo hlaupa eða hjóla með, ásamt því að reyna að ná einum og einum hot yoga-tíma.

Ég verð alveg ómöguleg ef ég kemst ekki að hreyfa mig, bæði í líkamanum og líka bara í sálinni. Þetta er orðinn svo mikill partur af rútínunni að ég get ekki verið án þess lengi. Góður kvöldgöngutúr eða sundferð með vinkonu er líka nauðsynlegur partur af tilverunni.“ 

Harpa hefur alltaf haft mikinn áhuga á fjármálum.
Harpa hefur alltaf haft mikinn áhuga á fjármálum. mbl.is/Kristinn Magnússon

Áttu fyrirmyndir í lífinu?

„Ég hefði ekki komist langt ef ég ætti ekki þá foreldra sem ég á. Þau eru fyrirmyndarfólk í alla staði, góðhjörtuð, harðdugleg og skynsöm. Þau kvarta aldrei og segja vandamál vera til að leysa þau, og þannig hef ég reynt að haga mínu lífi líka.“

Hvað er besta ráðið sem þú hefur fengið?

„Einhvern tímann heyrði ég þá góðu setningu að maður ætti alltaf að segja satt, því þá þarftu ekki að muna hvað þú sagðir hverjum. Mjög einföld en góð regla.“

Ertu mikið fyrir fastar hefðir?

„Já ég get ekki neitað því. Það tekur mig alltaf smá tíma að venjast breytingum, en ég held ég sé samt orðin betri í því með árunum og lífsreynslunni sem ég hef gengið í gegnum. Það er víst ekkert í þessu lífi öruggt og breytingar geta oftar en ekki verið af hinu góða.“

Hvernig lýsir þú starfinu þínu fyrir öðrum?

„Það er nú ekki svo flókið í starfi mínu í dag, sé um fjármál fyrirtækisins frá A-Ö.“  

Hvaða námskeið breytti lífi þínu?

„Ég get nú ekki sagt að neitt námskeið tengt vinnu hafi breytt lífi mínu. Líklegast var það helst meðgöngu-yoga-námskeið sem ég tók á fyrri meðgöngu. Ég hafði aldrei farið í yoga áður og hef nýtt mér mikið öndun og hugleiðslu sem ég lærði þar.“

Er einhver bók sem hefur haft áhrif á þig?

„Ég las rosalega mikið sem barn og gæti þulið upp allan söguþráðinn úr Pollýönnu því ég las hana svo oft. Líklega hefur það nú mótað mig eitthvað, alla vega er ég yfirleitt frekar sólarmegin í lífinu og nenni ekki að staldra lengi við slæmu hlutina.

En ef ég tek nærtækara dæmi þá hlustaði ég á Becoming með Michelle Obama nýlega á hljóðbók og tók marga góða punkta með mér þaðan. Mér finnst hún ótrúlega flott kona með góða sýn á lífið.“

Ertu stöðugt að læra eitthvað nýtt eða reynirðu að setja athyglina á það sem þú ert nú þegar góð í?

„Mér finnst mjög gaman að læra eitthvað nýtt og takast á við krefjandi verkefni. Þessi lærdómur hefur samt oftar en ekki tengst því sem ég kann fyrir, svo ætli ég verði ekki að segja að ég sé að útvíkka þá þekkingu sem ég hef og byggja ofan á hana.“ 

Ef þú ættir alla þá peninga sem þú vildir, hvað værir þú að gera þá?

„Verandi Excel-hausinn og skynsemispésinn sem ég er þá ætla ég nú ekki að neita fyrir að ég myndi líklega byrja á því að setjast niður og reikna hvað ég myndi þurfa til að ég og mínir nánustu gætum haft það sæmilegt.

Restinni myndi ég koma í góð not annars staðar, og er af nógu að taka. Það hefur enginn gott af því að eiga meiri pening en hann þarf og ég yrði fljótlega leið á því að gera ekki neitt. Þegar ég var yngri ætlaði ég alltaf að verða kennari, svo ætli ég byði mig ekki fram í sjálfboðastarf sem kennari í skóla fyrir börn sem ættu annars ekki kost á menntun. Þá væri ég vonandi bæði að láta þeirra og mína drauma rætast, ásamt því að láta gott af mér leiða. Það er varla til betri staða en það.“

Ef þú stýrðir landinu í viku, hverju myndir þú breyta?

„Vika er nú ekki langur tími, en ætli ég myndi ekki eyða henni í að fara yfir fjárlög ríkisins og endurraða í vel völdum málaflokkum. Heilbrigðis- og menntakerfið yrði þar efst á blaði.“

mbl.is