„Hætt að láta erfið tímabil hafa of mikil áhrif“

Elísabet Ronaldsdóttir er á leið til Ástralíu þar sem hún …
Elísabet Ronaldsdóttir er á leið til Ástralíu þar sem hún fer að vinna hjá Marvel við tökur á Shang-Chi. Ljósmynd/Ásta Kristjánsdóttir

„Það er mikil hvatning að fá viðurkenningu sem þessa og á þessum vettvangi. Sérstaklega fyrir konu sem eyðir mestum sínum tíma ein í myrku herbergi,“ segir Elísabet Ronaldsdóttir klippari sem hlaut á dögunum á hátíðinni Reykjavík Feminist Film Festival. Lilja Pálmadóttir, hrossabóndi og afhafnakona, tók við verðlaununum fyrir hennar hönd því Elísabet var farin til Ástralíu að vinna verkefni fyrir Marvel við tökur á myndinni Shang-Chi.

Hvers vegna tók Lilja við verðlaununum fyrir þína hönd?

„Lilja er kær vinkona og ég kynntist henni fyrst í gegnum vinnuna. Hef meira að segja búið með henni fyrir norðan í tengslum við verkefni. Þegar ég hafði samband og bað hana að taka við þessari viðurkenningu fyrir mína hönd tók hún vel í það og ég henni þakklát fyrir.“ 

Lilja Sigurlína Pálmadóttir og Stella Rín dóttir hennar.
Lilja Sigurlína Pálmadóttir og Stella Rín dóttir hennar.

Hvernig femínisti er þú?

„Þegar stórt er spurt. Ég er náttúrlega kona og móðir og því stendur það mér nærri að vera virkur þátttakandi í því að vinna að réttlátara samfélagi fyrir okkur öll. Ég er líka stoltur femínisti og tek ekki mark á fórnarlamba væðingu á þeim sem vilja jafnan aðgang fólks og réttlæti. Konur eru að ná langt, og alveg sérstaklega langt í kvikmyndagerð eins og verðlaun og viðurkenningar síðustu vikur sýna, en það er óþarfi að samfélagið sé statt og stöðugt að byggja þeim hindranir, sýnilegar og ósýnilegar. Það er okkur öllum í hag að líta í eigin barm og skoða hvað við getum sem einstaklingar gert til að breyta óréttlæti í garð allra sem ekki eru hvítir ófatlaðir karlmenn í kjörþyngd. Samfélagið allt tapar á því að útiloka,“ segir hún.

Elísabet segir að góðu gengi fylgi alltaf góð tilfinning.

„Það er í krafti aldurs og reynslu að ég er hætt að láta erfið tímabil hafa of mikil áhrif á þær góðu tilfinningar. Auðvitað gengur þetta allt upp og niður og hafa verið samdir margir frægir dægurlagasöngvar um það.“

Hvað drífur þig áfram?

„Það er enginn vafi að börnin eru minn drifkraftur í lífinu og barnabörnin. Ég myndi ekki nenna þessum ferðalögum og mikilli vinnu án þeirra. Ég er núna á leið til Ástralíu að vinna hjá Marvel við tökur á Shang-Chi. Það er spennandi verkefni og ég hef ekki komið til Sydney áður, hlakka mest til að heimsækja óperuhúsið í Sydney. Á æskuminningar um að hafa legið yfir ljósmyndum af því merka húsi.“

Hvernig verður 2020?

„2020 verður geggjað!“

mbl.is