Sölvi Fannar elti ástina til Bretlands og aðlagar sig aðstæðum

Sölvi Fannar Viðarsson og Nadi Fadina.
Sölvi Fannar Viðarsson og Nadi Fadina.

Einkaþjálfarinn og leikarinn Sölvi Fannar Viðarsson hefur verið með annan fótinn í Bretlandi síðustu fjögur ár. Hann elti ástina til Bretlands og segist vera að upplifa skrýtna tíma. Nú þegar er búið að fresta þremur kvikmyndaverkefnum sem hann átti að vera í vegna veirunnar. Til þess að snúa vörn í sókn hefur hann búið til nokkur líkamsræktarmyndbönd sem eiga án efa eftir að hjálpa einhverjum í baráttunni við hreyfingarleysið.  

„Ég hef verið með annan fótinn í Bretlandi undanfarin tæp 4 ár. Hef unnið bæði sem leikari og framleiðandi í kvikmyndageiranum sem og umboðsmaður Hafþórs Júlíusar Björnssonar sem hefur réttilega notið vinsælda á heimsvísu. Auk þess er ég að skrifa bækur, semja tónlist, ljóð og rækta sjálfan mig andlega og líkamlega á ýmsan hátt,“ segir Sölvi Fannar. 

Aðspurður hvernig sé að vera í Bretlandi segist hann alltaf hafa sterkustu taugarnar til Íslands.  

„Ég mun aldrei slíta lausar þær sterku rætur sem tengja mig við Ísland. Meðal annars eftir að hafa æft á sínum tíma með landsliðinu í fimleikum er ég nógu liðugur til þess að vera með annan fótinn erlendis en hinn heima enda fer ég reglulega heim til þess að ná góðri samveru með fjölskyldu og vinum og upplifa alvöru íslenska stemningu og veður. Til að mynda síðustu áramót sem var magnað. Á Englandi er einn stærsti kostirnir eru veðurfarið, sem er mun mildara en á Fróni. Það er einnig mun lægra matvöruverð hér en á Íslandi og vöruúrvalið fjölbreytt og gott. Til dæmis eru lífrænar vörur á svipuðu eða lægra verði og sams konar iðnaðarframleiðslumatvæli á Íslandi, sem auðveldar manni verulega að borða hollari mat. Síðast en alls ekki síst þá eru mun fleiri tækifæri varðandi kvikmyndir og ýmsa aðra starfsemi,“ segir hann. 

Hvers vegna fluttir þú út?

„Frá því ég fór í leiklistarnám þá hef ég reglulega farið á kvikmyndahátíðna í Cannes, oftast með vini mínum Pétri Sigurðssyni framleiðanda. Í Cannes kynntist ég fyrir tilviljun eitt sinn í veislu, sem haldin var fyrir framleiðendur, síberískri konu sem er búsett í Englandi og er bókstaflega með doktorsgráðu í kvikmyndagerðarlist. Við tilhugsunina um okkar fyrstu kynni koma upp í huga mér orð frænda míns Steins Steinarr heitins: „með jódyn allra jarða mér í blóði.“ Eftir það var ekki aftur snúið,“ segir hann. 

Þannig að þú ert búinn að finna ástina?

„Konan sem ég kynntist í Cannes og breytti lífi mínu er kölluð Nadi Fadina en heitir Nadezda sem þýðir von. Hún vinnur líka í kvikmyndaheiminum, var stofnfélagi alþjóðlegs fjármögnunarsjóðs fyrir kvikmyndir, hefur skrifað fræðibækur og -greinar, hefur kennt við virta háskóla í Englandi og heldur fyrirlestra víðs vegar um kvikmyndagerð. Doktorsritgerð hennar fjallaði um hvernig ímynd kvenpersóna hefur verið afskræmd frá sígildum verkum yfir í kvikmyndir og sjónvarpsþáttagerð. Nadi er þessa dagana að skrifa handrit að gaman-sjónvarpsþáttaröð sem við bjuggum til saman og heitir „KnighTime“ sem fjallar um stórkostleg ævintýri nokkurra skrautlegra vina á Íslandi. Það sem gerir þetta ólíkt öðru sjónvarpsefni er að byggt er jafnt á íslenskum þjóðsögum og nútíma og er efnið ætlað fyrir alþjóðlega áhorfendur. Við erum í startholunum með að finna samstarfsfólk á Íslandi. Þáttaröðin verður tekin upp á Íslandi enda er sögusviðið rammíslenskt og verður framleidd í samstarfi breskra og íslenskra aðila en meirihluti leikara verður íslenskur,“ segir hann. 

Sölvi Fannar var búinn að fá þrjú hlutverk sem leikari í alþjóðlegum kvikmyndaverkefnum en vegna kórónuveirunnar hefur þeim verið slegið á frest. 

„Sömuleiðis er ég að vinna sem framleiðandi, meðal annars í kvikmynd sem hefur sterkar tengingu við Ísland. Hún heitir „Gold on Ice“ og er um hóp Vestur-Íslendinga sem spiluðu í ísknattleiksliðinu „Fálkarnir“ (Winnipeg Falcons). Til þess að setja nafngiftina í samhengi þá var fálkinn skjaldarmerki Íslands á bilinu 1903-1919. Liðið var stofnað vegna þess að enginn Vestur-Íslendinganna fékk sökum fordóma að leika með þeim liðum sem fyrir voru í Winnipeg. Eftir mikla þrautseigju og fádæma íþróttamennsku þá urðu þeir fyrstir Kanadabúa til þess að vinna gullverðlaun á Ólympíuleikunum í Amsterdam árið 1920. Þjálfarinn og allir nema einn leikmenn liðsins voru íslenskir,“ segir hann. 

Árið 1984 lék Sölvi Fannar lítið hlutverk í Atómstöðinni. Síðan þá hefur leiklistarbakterían blundað í honum. 

„Að læra leiklist var draumur sem ég hafði leynt og ljóst borið í brjósti alla leiðina frá því ég fékk lítið hlutverk í Atómstöðinni árið 1984. Það hefur lengi verið mottó hjá mér að við verðum ekki bara að kenna heldur einnig læra af börnunum okkar. Þannig hef ég alltaf meðferðis lítinn miða sem eldri dóttir mín, Helena Fanney, gaf mér og á stendur einfaldlega „Haltu áfram“ og yngri dóttir mín, Hera Sóley, sagði svo nokkuð við mig sem á sínum tíma sem hafði svo mikil áhrif á mig að það loksins dreif mig í að láta þann draum minn rætast. Að fara í leiklistarnám sem reyndist góður tími með mestmegnis yndislegum kennurum og í skemmtilegum hóp samnemenda. Síðan þá hef ég sótt svokölluð „Masterclass“-námskeið sem snúast eingöngu um þá hluta leiklistar og -tækni sem höfða mest til mín. Það var reyndar ekkert grín að fara í nám þá því ég var í fullu starfi sem þjálfari og heilsuráðgjafi auk þess að vera á upptekinn í fyrirtækjaþjálfun. Meðan á leiklistarnámi mínu stóð fékk ég tækifæri til þess að taka þátt í „Game of Thrones“ sem síðan innsiglaði framhaldið,“ segir hann. 

„Að þjálfa fólk og veita heilsuráðgjöf var og er líf mitt og yndi. Þar kynntist ég og vann með fullt af fólki. Tilhugsunin ein um marga af þeim aðilum verma enn þann dag í dag hjartarætur. En eftir að hafa á margan hátt tekið þátt í að móta stefnu varðandi hvort tveggja á Íslandi, enda lít ég á heilsuráðgjöf sem eina af undirstöðum heilbrigðiskerfisins, varð ég að kljúfa hjarta mitt til þess að geta látið einnig aðra drauma mína rætast. Undanfarin ár hef ég þó haldið áfram að nema starfræna læknisfræði (functional medicine) sem höfðar sterkt til mín. Þar er fyrst og fremst gengið út frá þeim mikla líffræðilega fjölbreytileika sem einkennir okkur mannfólkið. Annars vegar næringarerfðarfræði (nutrigenomics) þar sem áherslan er á einstaklingsbundin viðbrögð við fæðu og hvernig hámarka má heilsu og vellíðan með því að velja þá fæðu sem hentar hverjum og einum best og hins vegar utangenaerfðafræði (epigenetics), hvernig við bregðumst öll á mismunandi hátt við umhverfi okkar, þ.m.t. tilfinningalega.“

Hvernig eru dagarnir hjá þér? 

„Sjálfur trúi ég því að allt í lífinu snúist um jafnvægi. En það getur reynst mjög erfitt að ná og hvað þá halda því jafnvægi. Til þess að láta allt ganga upp þarf ég að geta verið mjög sveigjanlegur. Þegar ég er að vinna í verkefnum með aðilum staðsettum á til dæmis vesturströnd Bandaríkjanna þá er ég oft að vinna langt fram eftir nóttu. Ef ekki þá er ég undanfarið vanalega sofnaður um tíuleytið á kvöldin og kominn af stað um sexleytið á morgnana. Þessar sveiflur geta reynst ansi erfiðar en þar koma reynsla og nám sterk inn til þess að ég geti lifað á þann hátt sem hentar mér best, andlega og líkamalega miðað við þessar aðstæður.“

Hvernig heldur þú þér í góðu formi?

„Áður en öllu var lokað fór ég í ræktina í kringum hádegi sex sinnum í viku og æfði af miklum krafti. Undanfarið fer ég út í skóg að æfa á morgnana flesta daga. Æfingarnar núna eru mun léttari enda er ég undir það búinn að ónæmiskerfi mitt þurfi allt eins að takast á við þetta nýja kórónuvírusafbrigði sem er svæsið. Mataræðinu stilli ég þannig upp að ég borða fleiri smærri máltíðir yfir daginn frekar en færri stærri. Streitustjórnun er líka ómetanleg, enda verðum við minna meðvituð um streitu þeim mun meiri sem hún er. Svefn er svo ein af meginstoðum heilsu og ítrekað vanmetinn. Sjálfur hef ég misst heilsuna þrisvar sinnum vegna ofálags, streitu og vanvirðingar gagnvart mikilvægi svefns og get heilshugar tekið undir að heilbrigð manneskja á sér ótal óskir en sú sjúka aðeins eina. En ég lít á það sem gul spjöld og hef ekki í hyggju að láta reka mig af velli með því að vinna mér inn fyrir því rauða. Eiginleiki okkar til þess að læra af ekki bara eigin reynslu heldar annarra er eitt sterkasta vopnið í vopnabúri lífsins.“

Hvað finnst þér skipta mestu máli þegar kemur að heilsunni þegar aldurinn hækkar?

„Líffræðilega þá náum við sama árangri hvort sem við erum unglingar eða gamalmenni. Hinn mikli, að því er virðist, munur er að mestu leyti hlutfallslegur. Eftir því sem við eldumst þá minnka meðal annars vöðva- og beinmassi líkamans, jafnvægisskyn versnar og fleira í þeim dúr. Það er hins vegar hægt að spyrna ansi lengi við fótunum. Tökum sem dæmi Kára Stefánsson. Hann er í betra formi sjötugur en stór hluti þjóðarinnar verður nokkru sinni. Staðreyndin er sú að þótt það sé ofur-einföldun þá getum við litið á líkamann sem líffræðilega vél en ólíkt öðrum „vélum“ þá viðheldur líkami okkar sér sjálfur. En það er í okkar verkahring að gefa honum tilefni til þess.“

Hvernig getur fólk notað þetta ástand sem nú ríkir til að efla sig andlega og líkamlega?

„Ólíkt mörgum öðrum þá sé ég þetta ástand fyrst og fremst sem tækifæri til endurskoðunar. Hvað getum við betrumbætt? Ef við lítum yfir heiminn núna þá sjáum við bara hvað mengun hefur minnkað mikið, eðlilega. Núna eru síkin í Feneyjum tær. En hvað getum við gert til þess okkar eigin andlegu og líkamlegu síki og jörðin sjálf haldist tærari? Þessu þarf hver og einn að svara fyrir sig. Í fyrirtækjaráðgjöf hef ég mælt með þvi að halda einungis standandi fundi. Það nennir enginn að standa til lengri tíma. Þannig komum við okkur strax að kjarna málsins og hugsum frekar í lausnum. Ef við myndum til dæmis söðla um og auka hlut fjarfunda um helming þá myndi það eitt og sér minnka kolefnisfótspor heimsins verulega. Ég er samt algjörlega ósammála þessari skilgreiningu í fjölmiðlum sem kallast „social distancing“ — ég meina, FÉLAGSLEG FJARLÆGÐ!?! Það ætti að sjálfsögðu að vera „physical distancing“, af hverju í ósköpunum ættum við að vilja vera í félagslegri einangrun?

Það hefur aldrei verið eins gott tilefni og núna að huga að þeim málefnum sem snerta við okkur, leggja stund á eitthvað sem við höfum alltaf „verið á leiðinni“ með að gera en frestað ítrekað. Læra og tileinka okkur eitthvað nýtt. Hvernig veljum við betur? Að mínu mati hefur Ísland verið í fararbroddi með heilsusamlegri skyndibita og mættu mörg lönd taka það sér til fyrirmyndar. Hins vegar má gera enn betur ef duga skal. Þessa dagana þá höfum við öll tíma til þess að huga að því hvernig við getum gert mataræði okkar og lífsstíl almennt heilbrigðari, ekki bara núna heldur til frambúðar.

Var til dæmis að tala við Eddu systur mína á dögunum og einn sona hennar sem hefur helst ekki viljað fara í sund, vill núna ólmur fara í sund. Hvaða nýju vana getum við skapað í kjölfar þessa ástands? Eftir stendur að það geta allir varið litlum hluta hvers dags til þess að leggja rækt við sig. Spurningin er bara hvernig fáum við okkur til þess að gera það ekki bara í dag heldur um ókomna tíð?“

Ketó virkar ekki fyrir mig

Ertu á einhverju sérstöku mataræði?  

„Minn líkami gengur best á tiltölulega háu kolvetnahlutfalli en ég gæti þess að kolvetnagjafarnir séu trefjaríkir. Vel rúmlega helmingur þeirrar fæðu sem ég neyti er úr grófu kornmeti, baunum og grænmeti. Allt eru þetta meira og minna lífrænar afurðir, sem og kjöt, fiskur, egg og aðrir prótein- og fitugjafar sem rata inn fyrir mínar varir. Fyrrnefndur líffræðilegur fjölbreytileiki veldur því að hver og einn þarf að finna sitt einstaklingsbundna mataræði. Ketó til dæmis virkar engan veginn fyrir mig. Frá upphafi hef ég alltaf aðhyllst að vera ekki að veita fólki heilsuráðgjöf einungis upp úr einhverjum fræðiritum heldur hef ég prófað langflestar samsetningar fæðuneyslu sjálfur og auk þess lært mikið af þeim sem ég hef unnið með. Eftir situr að það er ekkert eitt mataræði sem hentar öllum best.“  

Hvað þarf fólk að gera til að eldast sem best?

„Ein af þeim bókum sem ég er að skrifa kemur ekki einungis inn á líffræðilegan fjölbreytileika heldur einnig sálfræðilegan fjölbreytileika. Hver og einn bregst á mismunandi hátt við ákveðnum kringumstæðum, hvort sem er sál- eða líffræðilega. Anna Sigfúsdóttir og Lárus Sigfússon eru elstu núlifandi systkini á Íslandi en yngri bróðir þeirra, Garðar Sigfússon, var afi minn. Hann lést aðeins 63 ára að aldri vegna kransæðastíflu. Garðar var glæsilegur maður, hávaxinn og mikilfenglegur, og það var mér mikið áfall þegar hann dó. Stærstu áhrifavaldar á langlífi eru auðvitað einstaklingsbundnir en óheilbrigðir lífshættir svo sem miklar reykingar, óhófleg áfengisneysla, streita og fleira þar fram eftir götum lækka lífslíkur allra. Enn og aftur vil ég tala um jafnvægi, sem aftur er einstaklingsbundið. Að finna leið til þess að lifa eins og okkur líður vel, trúi ég að sé besta leiðin. Það sem hjarta þitt segir að sé rétt, er það vanalega, fyrir þig!“

Hvað gerir þig hamingjusaman?

„Fyrst og fremst fjölskyldan mín, vinir og að láta gott af mér leiða. Já og að æfa!“

 

Hver er sagan á bak við þessi myndbönd?

„Það eru engin fordæmi fyrir því ástandi sem núna ríkir. Næst því kemst líklega hrunið árið 2008, en samt ekki. Maður getur ekki annað en dáðst að öllu því fólki sem er bókstaflega að leggja líf sitt að veði til þess að sinna þeim sem berjast við kórónuveiruna. Hinir sem eru fastir heima virðast samt gleymast, við þurfum ekki nema að hugsa til orðalagsins „félagsleg fjarlægð“ til þess að sjá það. Mig langar til þess að gera það sem ég get gert, leggja mitt lóð á vogarskálarnar til þess að létta fólki lundina og lífið aðeins. Samhliða myndböndunum býð ég líka upp á einstaklingsbundna heilsuráðgjöf, þessi rúmlega tuttugu og fimm ára starfsreynsla mín getur eflaust nýst einhverjum. Meðal annars þá veitti ég fyrirtækjaráðgjöf eftir fjárhagsáfallið 2008. Þar kom í ljós að mörgum finnst gott að geta talað og ráðfært sig við einhvern á svo erfiðum tímum.“

Ætlar þú að gera mörg þannig?

„Það fer svolítið eftir því hvernig fólki líst á þau og hvort þau þjóna tilætluðum tilgangi. Stefnumótun í dag hefur breyst frá því sem áður var og réttur og rödd neytenda hefur styrkst til muna með tilkomu samfélagsmiðla. Það þjónar engum tilgangi að vera að framleiða eitthvað sem engum nýtist, svo við verðum bara að sjá til.“

Ertu hræddur við kórónuveiruna?

„Ekki hvað mig snertir persónulega. Eins og ég rústaði heilsufari mínu upp á eigin spýtur á sínum tíma þá hef ég nú byggt mig upp andlega og líkamlega. Ef ég sýktist af kórónuveirunni þá hef ég aldrei verið betur í stakk búinn til þess að takast á við hana sem og hvað annað mótlæti. En eins og ég hef minnst á aftur og aftur þá veit maður auðvitað aldrei fyrir víst hvernig einstaklingur bregst við, en tölfræðin eins og hún snýr að mér er alla vega jákvæð. Hins vegar er ekki hægt að segja það sama um fjölmarga aðra. Daginn sem öllum líkamsræktarstöðvum var lokað í Englandi var ég að leggja lokahönd á hóp myndskeiða um hvernig hægt væri að stunda líkamsrækt án þess að smitast eða smita aðra. Það mun ég birta síðar því sama gildir um til dæmis flensutímabil. En í ljósi þess sem deCode sýndu fram á þá virðast vera ansi margir smitaðir sem sýna engin einkenni. Það er eitthvað sem skiptir gríðarlega miklu máli. Þeir sem eru með undirliggjandi heilsufarsvandamál og meira að segja margir sem eru heilsuhraustir hafa lotið í lægra haldi fyrir kórónuveirunni. Þetta er því alls ekki bara spurning um að smitast ekki sjálfur, heldur halda líkamlegri fjarlægð þar sem við gætum óafvitandi smitað aðra, sem smita aðra og svo koll af kolli.

Ekki get ég ímyndað mér að nokkurn langi til þess að einu sinni íhuga hvað það gæti leitt af sér. Núna skiptir mestu máli að hugsa vel um þá sem neyðast til þess að einangra sig alveg frá líkamlegri nánd við aðra. Hringja reglulega í þá sem við elskum og þar sem hægt er, að nota myndbandssamskipti. Gott að hafa í huga að fólk man einna helst eftir því hvernig því sjálfu líður með okkur og í samskiptum við okkur. Við höfum meiri tíma til þess núna en nokkru sinni fyrr, hvað þá ástæðu.“

mbl.is

Stöndum saman

Við hjá Árvakri viljum vekja athygli á því sem vel er gert á þessum erfiðu tímum. Ef þú ert með góða sögu af fyrirtækjum og einstaklingum sem eru að gera gott, sendu okkur ábendingu á netfangið [email protected].

Stöndum saman