Gerður í Blush fékk kórónuveiruna á Ibiza

Gerður Huld Arinbjarnardóttir eigandi Blush fékk kórónuveiruna.
Gerður Huld Arinbjarnardóttir eigandi Blush fékk kórónuveiruna. Ljósmyndari/Rakel Ósk Sigurðardóttir

Gerður Huld Arinbjarnardóttir eigandi Blush er búin að vera heima hjá sér í sóttkví en hún smitaðist af kórónuveirunni á Ibiza á dögunum. Hún er á batavegi en segir að fyrstu vikuna hafi hún fundið fyrir litlum einkennum en svo orðið veikari í viku tvö. 

„Ég byrjaði að veikjast daginn áður en ég kom heim frá Ibiza af kynlífstækjaráðstefnu. Ég var með þurran hósta, svima og slöpp fyrstu dagana. Svo fór ég í próf sem kom út jákvætt,“ segir hún og bætir við:

„Af þeim 70 sem voru á þessari ráðstefnu urðu langflestir veikir. Ótrúlegt samt að Jakob kærastinn minn hann hefur ennþá sloppið og ekki fengið veiruna þrátt fyrir að vera búinn að vera heima með mér allan tímann í sóttkví,“ segir hún. 

Hún segist hafa verið með mjög væg einkenni fyrstu vikuna. 

„Svo missti ég allt bragð- og lyktarskyn, annars var þetta bara eins og smá flensa, en svo í annarri vikunni fór mér að versna og fór að finna fyrir meiri öndunarörðugleikum og varð mun veikari. Ég er núna orðin betri og útskrifaðist á mánudaginn. Ég ætla að vera heima næstu vikuna og fara rólega út í samfélagið aftur,“ segir hún. 

Ljósmynd/Rakel Ósk Sigurðardóttir

Aðspurð hvað hafi verið erfiðast nefnir hún að hitta fáa. 

„Það er búið að vera mjög erfitt að hitta ekki fjölskyldu og svo öll þessi óvissa, vita ekki við hverju ætti að búast. Ég var alveg handviss um að ég væri að verða búin með þessi veikindi eftir fyrstu vikuna, en svo fór mér að versna og þá fann ég fyrir smá ótta. Sem betur fer erum við með frábært heilbrigðiskerfi sem hugsaði vel um mig og var alltaf til taks þegar ég var með spurningar eða þurfti á aðstoð að halda.

Þegar ég fór að finna fyrir öndunarörðugleikum fékk ég tíma strax á covid-göngudeildinni og var þar skoðuð í bak og fyrir. Það voru teknar myndir af lungum og blóðprufur til að vera viss um að ekki væri neitt alvarlegt að. Ótrúlega góð þjónusta sem róaði mig mjög mikið,“ segir hún.  

Ljósmynd/Rakel Ósk Sigurðardóttir
mbl.is

Stöndum saman

Við hjá Árvakri viljum vekja athygli á því sem vel er gert á þessum erfiðu tímum. Ef þú ert með góða sögu af fyrirtækjum og einstaklingum sem eru að gera gott, sendu okkur ábendingu á netfangið [email protected].

Stöndum saman