Solla Eiríks orðin ráðgjafi á Gló og opnar netverslun með Júlíu

Júlía Ólafsdóttir og Solla Eiríksdóttir.
Júlía Ólafsdóttir og Solla Eiríksdóttir. mbl.is/Elsa Katrín Ólafsdóttir

Sólveig Eiríksdóttir eða Solla eins og hún er oft kölluð er hætt í daglegum rekstri á Gló en á dögunum opnaði hún netverslun með dóttur sinni, Júlíu Ólafsdóttur. Aðspurð um ástandið í kórónuveirunni segist hún alltaf hafa eitthvað til að hlakka til á hverjum degi. 

„Okkur Júlíu dóttur minni fannst vanta meira úrval af góðum fæðubótarefnum á markaðinn. Við erum báðar frekar sérvitrar þegar fæðubótarefni og vítamín eru annars vegar. Það gerðist einhvern tímann að við urðum frekar þreyttar á að þurfa að bíða lengi eftir vörum þegar við vorum að panta að utan og þá kviknaði sú hugmynd að gera okkar eigin vefverslun með uppáhalds vörunum okkar, bæði bætiefnum og snyrtivörum. Einnig erum við byrjaðar á að þróa okkar eigin vörur og verður spennandi að segja frá því þegar það er lengra komið,“ segir Solla. 

Hvernig völduð þið vörurnar þarna inn?

„Við völdum vörurnar eftir því sem okkur fannst vanta á markaðinn hérna heima, bæði vörur sem við erum að nota og fólkið í kringum okkur. Wild Nutrition er Food Grown vítamínlína og með klínískar rannsóknir á bak við sig. Okkur fannst virknin góð og við þekkjum stofnandann og manninn hennar og vitum því hvaða frábæra starf þau eru að vinna og höfum fylgst með þeim í mörg ár. Nordbo er eitt af fáum merkjum sem eru með vottað vegan kollagen sem hefur klínískar rannsóknir á bak við sig og þeir eru líka með uppáhaldshægðatöflurnar (Mage) í vinkvennahópnum ásamt fleiri gullmolum. Við elskum lífrænar og hreinar olíur með ómótstæðilegri lykt og völdum Booming Bob-olíurnar fyrir húðina og hárið. Við vijum standa fyrir gæðum og veljum vörur inn samkvæmt því. Síðan er hægt að fara inn á vefsíðuna okkar www.healthydottir.is og þar má sjá allar vörurnar ásamt ýmsum skemmtilegum fróðleik og upplýsingum um vörumerkin,“ segir hún. 

Ertu hætt á Gló?

„Ég er starfa ennþá sem ráðgjafi á Gló, og felst starf mitt meðal annars í því að búa til uppskriftir og vera viskubrunnur fyrir það frábæra starfsfólk sem nú situr við stjórnvölinn.“

Solla og eiginmaður hennar, Elías Guðmundsson, voru ein af þeim sem þurftu að fara í sóttkví þegar þau komu heim til landsins eftir að hafa dvalið í Bandaríkjunum. 

„Ég var mjög ánægð í rauninni að hluta til að fara í sóttkví því ég var að koma að utan og búin að ferðast í meira en sólarhring og þó svo að ég eigi hliðarsjálfið „Spritta“ þá hlýði ég Víði og fer mjög varlega. Mér finnst síðan mjög erfitt að hitta ekki barnabörnin eða aðra fjölskyldumeðlimi eða vini. Það reynir á en þá er aldeilis tæknin sem bjargar okkur og við tölum saman nær daglega.“

Hvað gerðir þú til að lifa þessa sóttkví af?

„Það er nú einu sinni svo að ég hef alltaf nóg fyrir stafni, er á fullu að búa til nýjar uppskriftir fyrir Gló, skemmtilegt bókaverkefni og vinna í Healthy Dóttir. Þannig að þó svo að ég væri 2 mánuði í sóttkví þá hefði ég nóg að gera. Svo skemmti ég mér við að taka upp vídeó af danska hliðarsjálfinu hans Ella sem fer á kostum. Þessi vídeó fara þó eingöngu á nánustu fjölskyldumeðilmi.“

Hvað varstu að gera í Ameríku?

„Við Elli fórum til Ameríku á stóra heilsuvörusýningu, en henni var aflýst þegar við lentum, 2 dögum fyrir sýningu. Svo við enduðum með að vera bara í fríi, sem varð mjög eftirminnilegt út af ástandinu. Við náðum þó að fara í helstu heilsubúðirnar og kíkja á helstu heilsustaðina til að taka púlsinn áður en öllu var lokað.“

Ertu með einhver góð ráð fyrir þá sem eru í svipaðri stöðu?

„Ég ráðlegg fólki að dusta rykið af æðruleysinu og sætta sig við stöðuna. Ég passaði alltaf að hafa eitthvað skemmtilegt að hlakka til þann daginn, gera eitthvað eitt sem aldrei er tími til að gera og passa upp á húmorinn.“

Hvað ertu að borða á venjulegum degi?  

„Ég byrja daginn alltaf á að fá mér glas af eplaediki (1-2 msk.) og vatni (1 glas) og set gjarnan smá engiferskot út í (2 tsk.). Ég tek inn fæðubótarefni og góðgerla og síðan fæ ég mér eina kaffibolla dagsins og það er tvöfaldur espressó með smá flóaðri haframjólk út í. Ég fæ mér oftast annaðhvort salatskál eða hafragraut m/ferskum berjum og einhverju góðu í hádeginu og svo fæ ég mér sjaldnast máltíð fyrr en á kvöldin og ég elska að borða snemma, ekki seinna en milli 18 og 19. Yfir daginn drekk ég frekar alls konar skrýtin te og svona einhverja miðaldra nornadrykki með jurtum og seiðum til að viðhalda orkunni.“

Hvað um hreyfingu?

„Það hefur ekki verið mikið um hreyfingu í sóttkvínni, en við höfum farið í göngutúra og svo geri ég heimaleikfimi og hausstand. Fyrir utan sóttkvína elska ég að ganga og tek jógasyrpur.“

Hver er uppskrift að hinu góða lífi í árferði sem þessu?

„Ég held að í þessu árferði sé mikilvægt að leggja áherslu á að borða þokkalega hollan mat, hreyfa sig og hlúa að andanum með þeim hætti sem hentar hverjum og einum. Ég hugleiði nær daglega og finn hvað ég er orðin háð því, það hjálpar svo til að halda kollinum skýrum og andanum rólegum. Ég er líka háð yoga nidra sem er slökunarjóga, það er fullt af slíku á Spotify. Það var til dæmis mest spilaða lagið hjá mér á Spotify á síðasta ári. Og svo er að hafa skemmtilegt, halda húmornum lifandi. Við vinkonurnar hlýðum Víði og hittumst á Zoom, það er nýja uppáhaldsappið mitt.“

mbl.is

Stöndum saman

Við hjá Árvakri viljum vekja athygli á því sem vel er gert á þessum erfiðu tímum. Ef þú ert með góða sögu af fyrirtækjum og einstaklingum sem eru að gera gott, sendu okkur ábendingu á netfangið [email protected].

Stöndum saman