Var lengi með ranghugmyndir um líkama sinn

Alison Brie var með ranghugmyndir um eigin líkama.
Alison Brie var með ranghugmyndir um eigin líkama. AFP

Leikkonan Alison Brie þjáðist lengi af ranghugmyndum um sinn eigin líkama. Hún leit fyrst og fremst á líkama sinn sem fagurfræðilegan part af sjálfri sér og æfði og hugsaði um líkama sinn til að gera hann fallegan. 

Brie fer með aðalhlutverk í þáttunum GLOW sem framleiddir er af Netflix. Þættirnir gerast á 9. áratug síðustu aldar og eru tökur hafnar á fjórðu og síðustu þáttaröðinni. Þættirnir hafa fengið mikið lof og verið tilnefndir til fjölda verðlauna.

Einhverjir ættu að kannast við Brie úr þáttunum Community sem gerðu garðinn frægan á árunum 2009 til 2015 en þar fór Brie með hlutverk Annie Edison. Hlutverk hennar í GLOW er gjörólíkt hlutverki hennar í Community þar sem mikið álag er á hana líkamlega. 

Fyrir fyrstu seríuna af GLOW þurfti hún að æfa mikið og styrkjast mikið líkamlega. Hún segir í viðtali við Women's Health að lyftingarnar hafi haft þau áhrif á hana að hún „grenntist“ mjög mikið og notar þjálfarinn hennar hana sem dæmi um konu sem minnkaði við að fara lyfta meira. 

View this post on Instagram

@womenshealthmag baby! #abs 😘 *link in my bio*

A post shared by Alison Brie (@alisonbrie) on Apr 14, 2020 at 12:03pm PDT

„Þetta var eiginlega aukaverkun af því að verða mjög heilsuhraust og sterk. Ég er hrifin af því að leiða þá breytingu að fólk haldi að lyftingar geri konur stórgerðar. Jason notar líkamann minn sem dæmi í ræktinni, því ég get lyft mun þyngra en fólk heldur. Maður getur þjappað saman mikið af vöðvum í grannan líkama,“ sagði Brie. 

„Ég tók hvatninguna til þess að vera grönn fyrir Hollywood og snéri henni upp í það að vera nógu sterk til að lyfta öðrum konum, bókstaflega. Það var alvöru markmið,“ sagði Brie. Til þess að verða nógu sterk hefur hún einbeitt sér að grunnhreyfingum. Hún skríður, rúllar, ýtir og togar. 

Brie segir að hún fái stundum ranghugmyndir um líkama sinn (e. body dysmorphia) en að það sé þó sjaldnar. 

„Ég skoða stundum gamlar myndir af rauða dreglinum þar sem mér fannst ég líta skelfilega út en þegar ég skoða þær núna finnst mér ég falleg. Þá man ég að um klukkustund áður en þessar myndir voru teknar var ég grátandi því mér fannst ég vera ógeðsleg. Ég held ég muni þurfa að vinna í þessu allt mitt líf, og þunglyndinu líka,“ sagði Brie. 

Brie fer með aðalhlutverk í þáttunum GLOW á Netflix.
Brie fer með aðalhlutverk í þáttunum GLOW á Netflix. AFP

Móðuramma Brie glímdi við geðklofa og var á tímabili heimilislaus. „Öll fjölskylda mín hefur þurft að glíma við áföllin sem fylgdu því. Og það þýddi þunglyndi,“ sagði Brie. Hún segir að margir í fjölskyldunni glími við þunglyndi. 

„Þegar ég hef verið mjög þunglynd, þá hef ég dregið sjálfa mig í jógatíma, jafnvel þó ég vilji ekki vera í kringum fólk, og tárin streyma bara. Ég hugsa bara, farðu í tíma, hættu að hugsa um þetta, komdu blóðinu af stað og á endanum hjálpar það mér,“ sagði Brie.

Til að halda sér í formi fyrir þættina og til þess að halda geðheilsunni í lagi hreyfir Brie sig sex sinnum í viku. Þrisvar með einkaþjálfaranum sínum og þrisvar sjálf. Hún segist einnig vera umvafin góðu fólki sem hún getur talað um tilfinningar sínar við. 

Brie hefur lært að takast á við þunglyndið.
Brie hefur lært að takast á við þunglyndið. AFP
mbl.is