Jógastöðin Sólir berst fyrir lífi sínu

Sólveig Þórarinsdóttir eigandi Sóla segir að staðan sé mjög erfið.
Sólveig Þórarinsdóttir eigandi Sóla segir að staðan sé mjög erfið. mbl.is/Styrmir Kári

Jógastöðin Sólir fagnaði fimm ára afmæli í gær. Eigandinn, Sólveig Þórarinsdóttir, segist vera bæði stolt og hrygg þennan dag. Stolt af góðu starfi en hrygg yfir fjárhagserfiðleikum stöðvarinnar. 

„Við opnuðum Sólir á sumardaginn fyrsta árið 2015 og með táknrænum hætti fögnuðum við hækkandi sól og birtu og vildum leggja okkar af mörkum til þess að hjálpa fólki að leyfa sínu innra ljósi að skína. Fjöldinn allur af fólki hefur komið að vegferð og vexti okkar frá byrjun, fjárfestar, velviljað fólk, fólk sem vildi taka þátt í breytingu á sjálfu sér og þar með samfélaginu öllu - algjörlega ómetanleg samstaða sem hefur skilað okkur þeim árangri sem við sóttumst eftir, þá á ég ekki við rósir í hnappagatið eins og að hafa verið kosin besta jógastöð í Evrópu, heldur að hafa tekið þátt í umbreytingaferðalagi fjölda fólks og sjá margföldunaráhrifin skila sér í allt okkar nærumhverfi, fjölskyldur og samfélag,“ segir hún. 

Sólveig segir að aðgerðarpakki ríkisstjórnarinnar hjálpi Sólum ekki neitt. 

„Það má vera að við teljumst ekki „efnahagslega“ mikilvægt fyrirtæki en það er hafið yfir allan vafa að mikilvægi okkar varðandi lýðheilsu samborgara okkar er óvefengjanlegt. Við höfum tekið á móti þúsundum einstaklinga sem hafa fengið bót sinna meina ýmist með því að iðka jóga, öndun, hugleiða, tileinka sér kuldaþjálfun, njóta tónheilunar eða með ýmiss konar orkuvinnu. Allt fólk sem hefur verið tilbúið til að mæta sjálfu sér að fullu og skoða sína innri heima og finna stærð sína þrátt fyrir margvísleg áföll í lífinu eins og veikindi, slys, skilnað, missi, kvíða og streitu svo fátt eitt sé nefnt. Við höfum tekið öllum fagnandi og af nærgætni vitandi að stærsta váin sem steðjar að nútíma manninum er skortur á heilsu og skert ónæmiskerfi.“

Hún segir að staða Sóla sé mjög þröng. Sólir leigja af fasteignafélaginu Reginn og hefur félagið ekki viljað koma til móts við jógastöðina. 

„Arðsemi af okkar rekstri hefur alltaf verið lág og er nú neikvæð þrátt fyrir að eftirspurnin eftir okkar starfi hafi aldrei verið meiri. Við höfum fengið höfnun frá þeim um einhvers konar ívilnun eða niðurfellingu á leigu, þrátt fyrir að starfsemi okkar sé samkvæmt lögum lokuð um ófyrirséðan tíma. Við höfum sótt um undanþágu fyrir opnun að framfylgdum núgildandi skilyrðum hjá Heilbrigðisráðuneytinu en engin svör fengið og einnig óskað eftir útvíkkun á starfsleyfi okkar hjá Reykjavíkurborg, sem því miður er skilgreint sem líkamsræktarstöð. Þrátt fyrir að starfsfólkið þar sé allt af vilja gert til að mæta okkur þá tekur allt slíkt of langan tíma. Þau úrræði sem yfirvöld hafa þegar kynnt nýtast okkur því miður ekki á neinn hátt, hjá okkur starfa um 20 manns sem nú búa við óöryggi og óvissu þrátt fyrir að vera gríðarlegum hæfileikum gædd og leiðandi á sínu sviði,“ segir Sólveig og bætir við:


„Okkar gildi hafa alltaf verið þau að saman séum við sterkari og betur í stakk búin til að takast á við allt hið óvænta í lífinu. Við finnum óneitanlega fyrir stuðningi frá fólkinu sem hefur fylgt okkur og þeir sem hafa haft tök á hafa viðhaldið áskriftum sínum. Á sama tíma höfum við haldið úti eins mikilli starfsemi og okkur hefur verið unnt og vorum þau fyrstu til að hefja lifandi streymi á netinu, í stuttu máli er allur kostnaður óbreyttur en tekjur hafa dregist saman um meira en 80%. Með þeim hætti höfum við reynt að vera til staðar eftir fremsta megni þegar þörfin er mest. Þrátt fyrir allan samsköpunarmátt okkar og vilja er morgunljóst að það þarf kraftaverk til að komast í gegnum þetta.“

mbl.is