Læknir varar við ofáti á meðan veiran geisar

Ljósmynd/Unsplash

„Á aðeins örfáum vikum og mánuðum hefur heimurinn okkar umturnast og allt samfélagið þarf núna að venjast nýjum veruleika. Það hefur verið ótrúlegt að fylgjast með því hvernig öll þjóðin hefur þjappað sér saman og unnið nánast sem einn maður við að ná tökum á gríðarlega erfiðum og krefjandi aðstæðum. Við getum verið þakklát og stolt að eiga svona mikið af afburðafólki og tilheyra þjóð sem sýnir svo mikla samstöðu og dugnað.
Það er þó ekki hægt að neita því að þessar breytingar hafa valdið flestum okkar mikilli streitu og afleiðingarnar af álaginu geta tekið á sig ýmsar myndir,“ segir Guðmundur Freyr Jóhannsson læknir í Hollráðum Nettó: 

Guðmundur Freyr Jóhannsson lyf og bráðalæknir.
Guðmundur Freyr Jóhannsson lyf og bráðalæknir.

Ein vel þekkt afleiðing er sú að fólk sækir oft og tíðum meira í efni sem eiga það sammerkt að hafa örvandi áhrif á verðlaunastöðvar heilans sem gefa skyndilega en skammvinna vellíðan. Landlæknir lýsti til dæmis áhyggjum sínum yfir aukinni áfengissölu í tengslum við kórónuveirufaraldurinn og talaði réttilega um að áfengisnotkun til að takast á við erfiðar tilfinningar eða kvíða væri skammgóður vermir sem gerir ógagn.

Matvæli sem eru sérlega bragðgóð og oft og tíðum mikið unnin, næringarsnauð og orkurík eru svo annað dæmi um vörur sem fólk leitar eftir á álagstímum. Sem dæmi komst það í fréttirnar að Íslendingar hömstruðu nammi og snakk í óveðrinu sem gekk yfir í desember og nýlega birtist grein í NY Times sem fjallaði um verulega aukna sölu á unnum matvælum í Bandaríkjunum í kjölfar kórónuveirufaraldursins. Við leitum því oft og tíðum huggunar í orkuríkan mat þegar við glímum við erfiðleika eða upplifum ógn. Spurningin vaknar þó hverjar afleiðingarnar af þessari hegðun verða þegar álagið verður langvarandi.

Við erum líklegri til að innbyrða óþarflega mikla orku þegar við borðum mikið unnin matvæli og þegar langvinn streita bætist við eykst sú hætta enn frekar. Yfir lengri tíma getur þetta leitt til truflana á efnaskiptum líkamans og ræsingu á bólgukerfinu sem að lokum þróast yfir í sjúkdóma. Á meðal þeirra sjúkdóma sem tengjast efnaskiptaröskunum eru einmitt geðraskanir á borð við þunglyndi og kvíða. Það getur því getur því þannig ekki bara haft líkamlegar langtímaafleiðingar að borða yfir tilfinningar sínar, heldur einnig andlegar.

Á hinn bóginn er til fjöldi rannsókna sem sýnir að með því að stunda heilbrigðan lífsstíl er hægt að slá tvær flugur í einu höggi og öðlast heilbrigða sál í hraustum líkama.
Það er orðin útbreidd vitneskja að reglubundin hreyfing hefur verulega jákvæð áhrif á andlega líðan einstaklinga sem glíma við þunglyndi og aðrar geðraskanir auk þess sem reglubundinn, góður svefn er einnig talinn nauðsynlegur fyrir góða andlega líðan.

Á síðustu árum hafa svo einnig komið fram rannsóknir á áhrifum mataræðis á andlega líðan. Þannig sýndi sem dæmi nýleg, vel útfærð samanburðarrannsókn á einstaklingum með alvarlegt þunglyndi að með því að leggja áherslu á lítið unnin, næringarrík matvæli og takmarka unnar vörur á borð við viðbættan sykur og unnar korn- og kjötvörur, jukust til muna líkur þeirra á að ná bata á því 12 vikna tímabili sem rannsóknin stóð yfir, óháð þyngdartapi.

Til að öðlast góða andlega og líkamlega heilsu til lengri tíma er því mikilvægt að hlúa vel að grunnþörfunum. Fá nægan svefn, stunda reglubundna slökun og hreyfingu og borða eins góðan og næringarríkan mat eins oft og kostur er en kannski geyma óhollustuna til að eiga á góðri stund í fámennum hópi þinna nánustu í 2ja metra fjarlægð. Et, drekk og ver glaðir.

mbl.is

Stöndum saman

Við hjá Árvakri viljum vekja athygli á því sem vel er gert á þessum erfiðu tímum. Ef þú ert með góða sögu af fyrirtækjum og einstaklingum sem eru að gera gott, sendu okkur ábendingu á netfangið [email protected].

Stöndum saman