Lopez var ekki sátt við hrísgrjónin

Jennifer Lopez er með einkakokk.
Jennifer Lopez er með einkakokk. AFP

Það er ástæða fyrir því að hin fimmtuga Jennifer Lopez er í hörkuformi. leik- og söngkonan æfir ekki bara af kappi heldur tekur einnig mataræðið föstum tökum og er með einkakokk. Kokkurinn hennar, Kevin Fernandez, opnaði sig um starf sitt hjá Lopez og unnusta hennar, Alex Rodriguez, í viðtali við Us Weekly. 

Fernandez hefur starfað hjá parinu í tvö ár. Kokkurinn segir söngkonuna borða eftir ströngum reglum og þá sérstaklega þegar hún er að undirbúa sig fyrir stóra viðburði. Fernandez eldaði fyrir stjörnuna í heilan mánuð í byrjun árs þegar hún bjó sig undir að koma fram í hálfleik Ofurskálarinnar í febrúar.

Kokkurinn segir Lopez láta sig fá matarplan þar sem kemur fram hvað hún á að borða í morgunmat, hádegismat og kvöldmat. „Þegar hún setur sér markmið, þá setur hún sér markmið,“ segir kokkurinn um Lopez. Hann segir hana mjög agaða og lætur söngkonan ekki freistast þó svo hinir í fjölskyldunni fái eitthvað sætt að borða.

Fyrir Ofurskálina tók Lopez út kolvetni og sykur. Í morgunmat borðaði hún til að mynda eggjahvítu með grænmeti. Hann segir Lopez láta sig heyra það ef hann fer ekki eftir matarplaninu. Fékk hann til dæmis að heyra það þegar hann bauð upp á hrísgrjón með kvöldmatnum. Hrísgrjón voru að sjálfsögðu ekki leyfð enda vita þeir sem hafa prófað að sneiða hjá kolvetnum að hrísgrjón eru ekki efst á innkaupalistanum. 

Fernandez ákvað að verðlauna Lopez og elda fyrir hana alvörufjölskyldumáltíð.

„Kevin, þú eldaðir hrísgrjón fyrir mig,“ sagði Lopez við kokkinn sinn.

„Neineineinei, það var kjúklingur, það var salat. Þú tókst hrísgrjónin,“ svaraði Fernandez. 

Eftir þetta ákvað kokkurinn að skammta á diskinn fyrir Lopez og sagði henni að horfa ekki á það sem hinir væru að borða.

Jennifer Lopez.
Jennifer Lopez. AFP
mbl.is