Ásdís Hjálms: Verum sanngjörn við okkur sjálf

Ásdís Hjálmsdóttir hefur verið framarlega í flokki í spjótkastinu um …
Ásdís Hjálmsdóttir hefur verið framarlega í flokki í spjótkastinu um árabil og átt Íslandsmetið í greininni frá árinu 2005. Ljósmynd/Guðmundur Karl

„Heimurinn er skrýtinn þessa dagana! Við erum öll stödd mitt í heimsfaraldri sem enginn sá koma fyrir rétt rúmu hálfu ári og nú stýrir hann lífi okkar allra. Það sem við eigum flest erfiðast með er þessi óvissa því enginn veit hvort eða hvenær lífið kemst aftur í sama horf. Þessi faraldur er að koma mjög mis illa niður á okkur en við eigum það öll sameiginlegt að við erum bara að reyna að komast í gegnum þennan tíma. En hvernig förum við að því,“ segir Ásdís Hjálmsdóttir Annerud fyrirlesari og spjótkastari í sínum nýjasta pistli: 

Leiðin fram á við

Fyrst af öllu þurfum við að átta okkur á því hverju við höfum stjórn á í þessu ástandi og hverju ekki. Það er deginum ljósara að það að skipuleggja utanlandsferðir núna er ekkert annað en tímasóun sem skapar óþarfa svekkelsi. Við þurfum á allri okkar orku að halda og því er bráðnauðsynlegt að vera ekki að eyða henni í að svekkja okkur á hlutum sem við stjórnum ekki. Setjum athyglina frekar á það sem við höfum stjórn á. Þetta er tilvalinn tími til að nýta í þessa hluti sem við ætlum alltaf að fara að gera en finnum einhvern veginn aldrei tíma í. Vinna í okkur sjálfum, læra nýtt tungumál, byrja að hugleiða, prófa nýjar uppskriftir og svo framvegis.

Áður en þú bendir mér á að það sé meira en að segja það að ætla að fara að byrja að hugleiða þegar lífsviðurværið er í hættu þá vil ég taka fram að ég er ekki að segja að þetta sé auðvelt fyrir alla. Ég er bara að segja að þetta sé mikilvægt. Við þurfum öll eitthvað jákvætt í okkar líf núna. Þessa dagana þekki ég það mjög vel sjálf. Síðasta haust ákvað ég að æfa í eitt ár í viðbót til þess að enda tveggja áratuga langan íþróttaferil á Ólympíuleikum og Evrópumeistaramóti. Nú er búið að færa Ólympíuleikana og hætta við EM og ég sit frammi fyrir ákvörðun um hvað ég ætli að gera núna. Ekki gleyma að þetta er vinnan mín. Mig langar til þess að deila með þér hvernig ég tók þá ákvörðun því þessi aðferð gæti mögulega nýst þér. Ég spurði mig einfaldlega þessara spurninga:

  • Hver vil ég vera þegar þetta er allt gengið yfir?
  • Hvað get ég gert núna til þess að verða sú manneskja? 

Þessir fordæmalausu tímar eru tilvaldir í sjálfsvinnu en hún er einmitt eitthvað sem við höfum stjórn á. Við í SWIPE Club höfum til dæmis búið til sjö netnámskeið sem öll snúa að andlegri og líkamlegri heilsu til þess að leggja okkar að mörkum til að hjálpa ykkur. Hvort sem þú hefur áhuga á að setja þér markmið, bæta svefninn, komast í betra jafnvægi, læra að hugleiða, takast á við streitu eða læra að elska líkamann þinn skilyrðislaust þá erum við með eitthvað fyrir þig.

Allt eða ekkert?

Algengustu viðbrögð fólks á þessum tímum eru annað hvort að ætla að nýta tímann heima og halda sér vel uppteknum með gallharðri dagskrá eða að leggjast í hálfgerðan dvala og bara bíða eftir að lífið komist aftur af stað. Hvort sem þú ert búin að plana hverja mínútu dagsins með matreiðslu, hugleiðslu og heimaæfingum eða ert að komast vel á veg með að klára Netflix þá held ég persónulega að svarið liggi einhversstaðar þarna á milli. Ætli það sé ekki þessi gullni meðalvegur sem allir eru alltaf að tala um en fáir hafa fundið? Hvar liggur hann núna?

Mín skoðun er sú að við eigum klárlega að nýta tækifærið og gera hluti sem við höfum ætlað okkur lengi. Galdurinn er þó að velja þann mikilvægasta en ekki ætla að gera allan listann í einu. Munum að gefa okkur líka rými inn á milli til þess að bara vera. Þetta er streituvaldandi tími og á slíkum tímum þarf að huga meira að endurheimt. Það var einn mikilvægasti lærdómurinn sem ég hef lært á mínum íþróttaferli. Svo í stuttu máli:

Hugsum vel um okkur og verum sanngjörn við okkur sjálf!

Ásdís Hjálmsdóttir á nú Íslandsmet í bæði spjótkasti og kúluvarpi.
Ásdís Hjálmsdóttir á nú Íslandsmet í bæði spjótkasti og kúluvarpi. mbl.is/Skapti Hallgrímsson
mbl.is