Þjálfari Adele opnar sig um breytingarnar

Adele.
Adele. AFP

Söngkonan Adele hefur verið á milli tannanna á fólki eftir að hún byrjaði að grennast mikið í fyrra. Fyrrverandi einkaþjálfari Adele í London, Pete Geracimo, opnaði sig nýlega á samfélagsmiðlum um heilsuferðalag Adele að því fram kemur á vef Daily Mail. 

Adele var kúnni Geracimo þangað til að hún flutti til Los Angeles svo Geracimo ber ekki beina ábyrgð á því hvernig Adele lítur út í dag. Hann segir þó að Adele hafi aldrei viljað grennast til þess að selja tónlist sína, hún hafi einfaldlega viljað vera hraustari. 

„Þegar við Adele hófum ferðalag okkar saman snerist það aldrei um að verða ótrúlega mjó. Það snerist um að verða heilbrigð. Sérstaklega eftir meðgöngu og aðgerð,“ sagði Geracimo og sagði Adele hafa þurft að undirbúa sig fyrir árslangt tónleikaferðalag þegar hún vann með honum. 

Adele hefur grennst eins og sést á þessari mynd.
Adele hefur grennst eins og sést á þessari mynd. skjáskot/Instagram

„Á þeim tíma byrjaði hún að hreyfa sig og tók betri ákvarðanir varðandi mat. Vegna þess léttist hún mörg kíló og fólk tók eftir því,“ sagði Geracimo sem sagði Adele hafa viljað vera besta útgáfan af sjálfri sér. 

Einkaþjálfarinn sagði jafnframt að hann væri stoltur af söngkonunni og sárnaði neikvæð ummæli um útlit Adele. 

mbl.is