Greta Salóme er komin í átta vikna sykurbindindi

Tónlistarmaðurinn Greta Salóme er komin í átta vikna sykurbindindi. Til þess að veita sjálfri sér aðhald í sykurbindindinu stofnaði hún hópinn Sykurlaust sumar á Facebook. Hún segir að samkomubannið og kórónuveiran hafi haft mikil áhrif á líf sitt og þau séu ekki bara slæm. Hún hafi til dæmis áttað sig á því hvað hún var á miklum yfirsnúningi. 

„Ég er rosalegur markmiðafíkill og elska að taka áskorunum bæði fyrir hausinn og líkama. Núna þegar allir eru heima og lífið ekki alveg í sömu rútínu og venjulega langaði mig að hreinsa aðeins til í mataræðinu til að hjálpa til við æfingarnar,“ segir Greta Salóme þegar hún er spurð hvers vegna hún ætlar í átta vikna sykurbindindi. 

Hver er pælingin með hópinn? 

„Það er alltaf skemmtilegra að gera hlutina í hóp og gott að hafa aðhaldið og stuðninginn þar. Ég veit að margir í kringum mig hafa talað um að þeir hafi misst tökin á mataræðinu í samkomubanninu og langi til að „hressa sig við“ þannig að þessi grúppa var greinilega eitthvað sem marga vantaði,“ segir hún. 

Hvers vegna ákvaðstu að stíga þetta skref?

„Mér finnst bara svo gaman að sjá fólk koma saman og gera hlutina í sameiningu en ekki hvert í sínu lagi. Ég bjóst kannski ekki við svona rosalegum viðbrögðum og áhuga en greinilegt að þetta er eitthvað sem marga vantaði og bara yndislegt að geta verið partur af því. Það er ekkert sem gefur manni meira en að hjálpa öðrum eða hafa á einhvern hátt jákvæð áhrif á líf annarra.“

Þegar hún er spurð hvort sykurinn sé að þvælast mjög mikið fyrir segir hún að sykur þvælist fyrir flestum núlifandi manneskjum. 

„Ég held að hann þvælist fyrir flestum sem lifa á 21. öldinni. Ég er reyndar þannig að þótt mér finnist gaman að setja mér markmið þá finnst mér mikilægt að missa sig ekki í nein trúarbrögð. Aðalatriðið er að hafa stjórnina sjálfur og kunna að njóta í hófi. Markmið mitt er ekki að hætta að borða súkkulaði fyrir lífstíð heldur bara að skerpa á aganum og hausnum í átta vikur,“ segir hún. 

Hefurðu gert þetta áður?

„Já, ég hef tekið mataræðið í gegn alveg ótrúlega oft og elska það. Mér finnst svo ótrúlega gaman að elda en það hefur alltaf háð mér hvað ég er mikið að ferðast út af tónlistinni. Núna hef ég ekki tækifæri til að vera að túra þannig að ég hef tímann til að einbeita mér að þessu heima.“

Hvað trúir þú að sykurleysi geti gert?

„Mér líður alltaf vel þegar ég tek sykurinn út úr mataræðinu. En ég elska líka að geta fengið mér súkkulaði. Það sem mér finnst vera aðalatriðið er að stjórnast ekki af löngun eða „cravings“. Það er alveg ljóst og sannað að sykur hefur bólgumyndandi áhrif á líkamann og þess vegna held ég að það sé hollt að taka hann út, allavega í einhvern tíma, og sjá hvernig manni líður.“

Hvernig viðbrögð ertu búin að fá?

„Bara alveg sturluð viðbrögð. Það eru liðnir svona 16 tímar frá því ég bjó til þessa grúppu og um 900 manns komnir í hana. Þannig að viðbrögðin eru ótrúlega góð. Ég held að fólk sé bara til í áskorun! En svo kemur í ljós hversu góð stemningin verður á degi 20. Hún verður mögulega ekki alveg jafn góð, en ég hef fulla trú á að það verði fullt af nöglum sem klára þetta með stæl,“ segir hún og hlær. 

Hvaða sykur ertu aðallega að borða sem er að trufla þig?

„Mér finnst súkkulaði alveg það besta í heimi og þar sem ég æfi mikið og er alltaf á hreyfingu hef ég ekki sett það fyrir mig að fá mér það þegar mig langar í.“

Hvernig borðarðu á hverjum degi?

„Það er mjög misjafnt. Ég fasta eiginlega alltaf og hef gert það í mörg ár. Ég er ekki morgunmatartýpan og borða aldrei morgunmat. Yfirleitt eru þetta 14-17 tímar á dag sem ég fasta. Þeir sem mig þekkja vita að ég er svona 99% Pepsi Max og 1% vatn þannig að ég myndi segja að ég væri búin að vera á pax-mataræðinu í mörg ár. Ég ætla ekki að hætta því en velja vel hvað ég borða með paxinu mínu næstu átta vikur,“ segir hún og hlær meira. 

Hvernig verður sumarið hjá þér?

„Sumarið hjá mér verður mjög frábrugðið öðrum sumrum. Ég verð heima í allt sumar og er að vinna að nýju efni. Venjulega er maður úti um allt að spila öll sumur, bæði hér heima og erlendis. Ég er svo að gera upp sumarbústað á Laugarvatni þannig að sumarið mun fara í það að miklu leyti líka. Svo ætla ég bara að njóta þess að hafa loksins tíma til að gera hluti sem ég hef aldrei haft tíma til.“

Hvernig hefur samkomubannið farið með þig?

„Satt best að segja hefur þetta verið alveg ótrúlega góður tími. Ég fór úr því að hlaupa úr einu verkefni í annað og hoppa upp í 4-5 flug stundum á mánuði til að spila úti og heima og svo yfir í algjört stopp. Ég fann það þegar samkomu- og ferðabannið var sett á hvað ég var á miklum yfirsnúningi. Ég held að ég hafi bara ekki vitað hvað ég þurfti mikið á þessari hvíld að halda. Það er magnað að það hafi þurft heimsfaraldur til svo að maður hægði aðeins á sér, en ég er búin að læra ótrúlega margt á þessum tíma. Ég er reyndar búin að vera á kafi í upptökum fyrir alls konar verkefni eftir að samkomubannið kom á, meðal annars fyrir Netflix með Sinfóníuhljómsveit Norðurlands, danska listamenn og marga fleiri og greinilegt að margir eru í sköpunarferli núna þegar heimurinn er stopp. Ég held að margir upplifi það sama. Maður stoppar og hugsar hvað er manni mikilvægast og það setur lífið í samhengi.“

mbl.is

Stöndum saman

Við hjá Árvakri viljum vekja athygli á því sem vel er gert á þessum erfiðu tímum. Ef þú ert með góða sögu af fyrirtækjum og einstaklingum sem eru að gera gott, sendu okkur ábendingu á netfangið [email protected].

Stöndum saman