Eitt dýrasta hús landsins komið á sölu

Blikanes 20 í Arnarnesi er teiknað af Pálmari Kristmunssyni. Það …
Blikanes 20 í Arnarnesi er teiknað af Pálmari Kristmunssyni. Það er talið vera eitt dýrasta hús landsins.

Blikanes 20 er eitt dýrasta og fínasta hús sem byggt hefur verið hérlendis. Húsið er teiknað af Pálmari Kristmundssyni og var það byggt á árunum 2001-2002. Árið 2005 var húsið metið á 200 milljónir.

Húsið er steinsteypt, pússað og málað að utan en hluti framhliðar hússins er klæddur líparítstrendingum. Sólvarnargler er í öllum gluggum. Þak er einangrað með rakaheldri einangrun og fergt með sjávarmöl. Lýsing utanhúss er af mjög vandaðri gerð. Húsið stendur á 1216 ferm. eignarlóð og er lóðin hönnuð af arkitekt hússins.

Fasteignin er 460 fermetrar að stærð en þar af er bílskúr 52 fermetrar. Húsið er á þremur pöllum, á jarðhæð er anddyri, gestabaðherbergi, þvottahús, bílgeymsla og þjónustuíbúð.

Gólf í stofu, borðstofu, anddyri, þvottahúsi, böðum og göngum með sandsteinsflísum í ljósum lit. Gólf sérherbergja og hluti ganga eru klædd gegnheilu eikarparketi. Lýsing í loftum er af vönduðustu gerð. Stýrikerfi lýsingar er Instabuss-kerfi sem gefur fjölþætta stýrimöguleika, m.a. með þráðlausum rofum og fjarstýringum. Gólfhitakerfi er í öllu húsinu. Í húsinu er miðlægt samskiptakerfi fyrir tölvur og síma. Votrými eru flísalögð með marmaramósaíki. Tæki í baðherbergjum eru af vönduðustu gerð. Fastar innréttingar eru allar sérhannaðar og sérsmíðaðar úr amerískri eik og eru með vönduðum sérbúnaði. Saunaherbergi, búningsherbergi og heitur pottur er í húsinu.

Húsið er skráð á Blikanes 20 ehf, sem er í eigu Guðmundar T. Ásbergssonar. Árið 2005 bjó Ásberg Pétursson í húsinu og tók ég viðtal við hann fyrir Fréttablaðið. HÉR er hægt að lesa viðtalið. Þá var húsið metið á um 200 milljónir. Eins og fasteignamarkaðurinn er í dag má gera ráð fyrir því að húsið fari á um 155 milljónir. HÉR er hægt að skoða húsið nánar.

Blikanes 20.
Blikanes 20.
mbl.is

Bloggað um fréttina