Lifandi blóm setja veisluna upp á annað plan

Elísa í blómahafi í Fjórum árstíðum.
Elísa í blómahafi í Fjórum árstíðum. Ljósmynd/Saga Sig

Þó brúðkaupsveislur séu á bið um þessar stundir mun koma sá tími að fólk getur komið saman og fest ráð sitt. Elísa Ó. Guðmundsdóttir blómahönnuður og fagurkeri segir að í hverri brúðkaupsveislu ættu að vera lifandi blóm; það gefi tóninn í veislunni. 

Elísa er eigandi blóma- og gjafavöruverslunarinnar Fjögurra árstíða. Með versluninni langaði hana að skapa blómaverslun í takt við hverja árstíð sem væri ólík því sem fyrir væri í landinu.

Margir hafa leitað til hennar þegar brúðkaup stendur fyrir dyrum, enda býður hún upp á öðruvísi afskorin blóm, einstaka vendi og mikið úrval af plöntum og fallegum pottum.

Hvernig brúðarvendi ertu að gera?

„Ég er að gera mjög fjölbreytta vendi – allt frá hefðbundnum kúluvöndum yfir í óhefðbundnari vendi. Vinsælast hjá okkur um hefur verið villtari vendir og meira um liti, þeir eru lausari og blandaðri, það sem ég kalla „wild flower look“.“

Hvað er vinsælast í skreytingum í ár?

„Það vinsælasta í borðskreytingum eru renningar (e. long runner). Í slíkt eru valin alls konar blóm og greinar. Þá verða æ vinsælli blómaskreytingar fyrir ofan borð, í krónum og bitum, ef salurinn býður upp á það. Minni skreytingar í glervösum sem leika um borðin eru alltaf vinsælar og fallegar.“

Fallegur brúðarvöndur með bleiku og rauðu ívafi.
Fallegur brúðarvöndur með bleiku og rauðu ívafi. mbl.is/Hari

Hvernig vinnur þú með brúðhjónum?

„Ég á yfirleitt fund með brúðhjónum áður en við ákveðum hvaða blóm skal nota. Það fer allt eftir óskum þeirra og í samráði við mig. Vöndurinn er yfirleitt valinn fyrst og oft er gott fyrir mig að sjá mynd af brúðardressinu, en ég hanna vöndinn út frá honum og brúðinni. Ákvörðun um aðrar skreytingar fylgir svo á eftir.“

Hvað áætlar maður mikið í kostnað við blómaskreytingar í miðlungsstóra veislu?

„Það er mjög misjafnt, eftir því hvort eingöngu er tekinn brúðarvöndur eða til að mynda skreytingar á köku og bíl og barmblóm og hversu umfangsmiklar skreytingarnar eru.“

Elísa er á því að maður ætti alltaf að hafa lifandi blóm í veislum; það geri mikið fyrir veisluna og alla umgjörð.

„Að fegra með blómum og fallegum munum í kringum mig hefur einnig alltaf verið ástríða mín og stór hluti af mínu lífi.“

Spurð um uppáhaldsblóm segist Elísa heillast af ólíkum og einstökum blómum á hverjum árstíma.

Eru til blóm fyrir hverja árstíð?

„Já, svo sannarlega, t.d. amaryllis um jól, bóndarós á sumrin, ranaculus og laukblóm að vori og berjagreinar og strá á haustin.“

Það sem er í boði í Fjórum árstíðum breytist reglulega og því mælir Elísa með að fólk sé duglegt að fylgja versluninni á samfélagsmiðlum – til að upplifa og sjá hvort eitthvað af því sem er í boði fellur að smekk þess. Möguleikarnir virðast endalausir þegar kemur að blómum, sem geta svo sannarlega verið form listar í fallegum veislum.

Brúðarvöndurinn setur tóninn.
Brúðarvöndurinn setur tóninn. mbl.is/Hari
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.890 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »