Rétta leiðin til að hafa galopið út í garð

Baldur Svavarsson arkitekt
Baldur Svavarsson arkitekt Haraldur Jónasson/Hari

Baldur Svavarsson segir það ekkert nýtt að vilja má út mörkin milli húsnæðis og umhverfis. Framfarir í byggingatækni hafa opnað nýja möguleika. 

Undanfarin ár hefur mátt greina vaxandi áhuga meðal hönnuða og húsbyggenda á því að ekki aðeins sameina íverurýmin stofu, borðstofu og eldhús í eitt opið rými, heldur einnig opna þau upp með stórum glerflötum og rennihurðum og samtengja þannig við garðinn og aðliggjandi umhverfi þegar veður leyfir. Útkoman getur verið mjög skemmtileg þegar vel tekst til og t.d. hægt að breyta stofunni í eitt galopið rými sem teygir sig út á verönd, eða láta eldhúsið renna saman við garðinn svo heimilismeðlimir geta nánast snætt morgunmatinn al fresco þó þeir sitji við eldhúsborðið. Skemmir heldur ekki fyrir að stórir gluggarnir hleypa mikilli birtu inn og ekki vantar ferska loftið þegar opnað er út.

Baldur Ó. Svavarsson arkitekt segir þessa tísku ekki vera að birtast í fyrsta skipti. „Strax í upphafi módernismans fóru arkitektar að huga að heilbrigðara umhverfi almennt með aukinni áherslu á birtu og loftgæði í híbýlum og tengingu við græn svæði og garða. Þetta átti jafnt við um sérbýli sem fjölbýli,“ segir Baldur og nefnir sem dæmi Villa Savoye sem Le Corbusier hannaði á þriðja áratugnum. Þar er t.a.m. útiverönd á efri hæð hönnuð útlitslega eins og hluti innirýma hússins og þakið auk þess nýtt til útiveru.

Lengur á leiðinni til Íslands

Þessi þróun hefur haldið áfram allar götur síðan og fylgt framþróun í byggingatækni og byggingariðnaði. Birtist samtenging innri og ytri rýma í mörgum síðari tíma byggingum víða um heim. Þar má nefna tímamótabyggingar eins og glerhúsið Farnsworth House eftir Ludwig Mies van der Rohe, og The Glass House eftir Philip Johnson sem e.t.v. eru ýktustu dæmin um þessi tengsl innri og ytri rýma. Báðar þessar byggingar voru hannaðar og byggðar á 5. áratugnum og þar eru allir útveggir hússanna glerveggir, frá gólfi til lofts, hringinn í kringum húsið. Flæða því innirýmin út og allt umlykjandi umhverfið flæðir inn í húsin „Við sjáum þessa strauma m.a. einnig birtast í dönskum arkitektúr, sem svo aftur sótti innblástur til japanskrar hefðar. Í japönskum arkitektúr er mikið lagt upp úr þessum tengslum innri og ytri rýma,“ segir Baldur.

Áhrif þessara hugmynda birtast nokkru síðar hérlendis. „Má e.t.v. segja að tímamótahús arkitektanna Manfreðs Vilhjálmssonar annars vegar og hús Guðmundar Kr. Kristinssonar á Álftanesi hins vegar, séu fyrstu dæmin og boðberi þessara viðhorfa í hönnun. Þá er hús Högnu Sigurðardóttur að Bakkaflöt 1 frá 1965 einnig gott dæmi um þessi tengsl og samhengi ytri og innri rýma,“ útskýrir Baldur.

Baráttan við veðrið

Á Íslandi þarf þó að gæta mjög vandlega að því hvernig húsakynni eru opnuð út, enda veðurálagið allt annað og harðara en það logn og blíða sem fólk á að venjast í Bandaríkjunum og Evrópu. Stórir glerfletir krefjast glerþykktar langt umfram hefðbundið gler, og ramma sem geta borið álagið. Þá þarf að vanda ísetningu og frágang sérstaklega m.t.t. þessa veðurfars svo að ekki komi til stöðugs viðhalds og endurbóta.

„Þá má geta þess að um tíma, fyrir ca. 20-30 árum síðan, þótti enginn maður með mönnum nema að sólstofa í formi glerhýsis fylgdi hverju einbýlishúsi. Sú árátta hefur að mestu aflagst enda ekki sérlega hentug lausn fyrir íslenskar aðstæður. Þá má einnig nefna að í fjölbýli hefur rutt sér til rúms að skjól-loka svölum með gleri og er það e.t.v. tilhneiging í sömu átt, þ.e. að tengja innri og ytri rými íbúða í fjölbýli á sama hátt,“ segir Baldur.

Opna út og girða sig af

Það að stóru opnanlegu glerfletirnir eru komnir aftur segir Baldur að megi rekja bæði til betri efnahags, en þó aðallega til enn bættrar byggingatækni „Framleiðendur ráða betur við smíði á sífellt stærri og sterkbyggðari glugga- og hurðaeiningum sem henta íslenskum stöðlum og álagskröfum.“

Baldur bendir á að í sumum tilvikum hafi þessir stóru glerfletir og opnanir haft þann óheppilega fylgifisk að íbúar girði húsin sín af svo þeir nánast víggirði lóðirnar. „Íslendingar vilja greinilega geta séð vel út í garðinn og til allra átta, en síður að nágrannarnir sjái inn í stofu. Gerist það því oft í kringum hús með þessari lausn að veggir og girðingar rísa allt í kring og útkoman ekki alltaf falleg. Það er því vandasamt að ætla bæði að hafa stóra glerfleti og tengingu á milli úti- og innirýma með góðu útsýni, en vilja um leið nógu mikið næði til að geta áhyggjulaus trítlað inn í eldhús á nærbuxunum einum fata. Akrahverfið í Garðbæ er sennilega ýktasta afleiðingin.“

Að ýmsu þarf að huga í umhverfishönnun svo að þessir stóru gluggafletir gagnist íbúum. Baldur segir t.d. þurfa að gæta þess að garðurinn sé vel hannaður og fallega lýstur þannig að njóta megi þessar tengingar inni- og útirýma einnig yfir vetrarmánuðina og upplifa þannig allan ársins hring. Jafnframt þarf að huga að gólfefnavali innan- og utandyra þannig að myndi eina heild. „Flísar eru eini raunhæfi kosturinn ef á að nota bókstaflega sama gólfefnið inni og úti, en það er varla hægt að flísaleggja utandyra á Íslandi. Í staðinn er t.d. hægt að reyna að samræma parketið inni og timburpallinn úti eða jafnvel bara steypuna.“ Eins þarf að vanda valið á húsgögnum þannig að t.d. stofuhúsgögnin og garðhúsgögnin nái að mynda eina heild þegar opnað er út. „Í dag eru komin á markaðinn garðhúsgögn sem eru ekki dæmigerðar garðmublur af gamla skólanum, heldur meira í ætt við stofuhúsögn.“

Gæti að hita og birtu

Þá þarf hönnuður hússins að gæta vandlega að því hvar hinir opnanlegu glerfletir eru staðsettir á byggingunni. Nefnir Baldur að vindáttin og vindálag komi þar við sögu og eðlilega óheppilegt ef t.d. ríkjandi vindátt er beint á þann vegg sem ætlunin er að opna upp á gátt. „Þá verður líka að hafa í huga hvaða áhrif stórir skjólveggir geta haft á það hvert vindurinn stefnir og hvort hvirflar myndast.“

Íslensk veðrátta býður einnig upp á yfirbyggð þakskyggni eða skjól yfir hluta þessa opna útirýmis og verandar. „Með yfirbyggðri verönd er vel hægt að vera úti á hlýjum sumardögum þó að rigni,“ segir Baldur og bætir við að stórir glerfletir kalli líka á úthugsaðar lausnir til að stjórna hitastiginu innandyra. „Ofnar innan við gólfsíða glugga þykja ekki mikil prýði og gólfhiti hentar yfirleitt best og þá nóg að setja fleiri slaufur í hitalögnina næst glugganum ef þörf er á auknu hitaflæði. Í dag má líka fá mjög fyrirferðarlitla ofna sem rúmast ofan í grunnri gryfju undir glugganum.“

Stórum glerfleti fylgir einnig sá vandi að stjórna þarf birtu- og hitastigi innadyra. „Það getur þýtt að of mikill hiti verður vandamál og húsgögn taki jafnvel að upplitast í sólinni. Er þess vegna áríðandi að velja gler sem kastar geislunum frá, og kostar það ekki svo mikið aukalega. Kosturinn við hita- og sólarverjandi glerið er líka að það myndast á því speglun yfir daginn svo ekki er jafn auðvelt að sjá inn í húsið og þannig hægt að minnka þörfina á skjólveggjavæðingunni umhverfis þessi hús.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.890 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »