c

Pistlar:

7. nóvember 2019 kl. 17:26

Guðný Ósk Laxdal (royalicelander.blog.is)

Meghan og Katrín báðar í bláu

Það mætti halda að þær svilkonurnar Katrín og Meghan hafi lagt á ráðin um litaval fyrir heimsóknir dagsins en báðar voru þær klæddar bláu.

Katrín og Vilhjálmur mættu í gærmorgun til að fagna nýjum góðgerðarsamtökum sem munu veita fjárhagsaðstoð þegar um er að ræða stærri neyðartilvik eins og náttúruhamfarir. Katrín var klædd kóngabláum kjól frá Emilia Wickstead og svörtum skóm með svart veski. Í nóvembermánuði bera nær allir Bretar draumsóley í barmi til minningar um alla þá sem hafa látist fyrir landið. Katrín var hinsvegar með sérstaka nælu í barminum sem var hönnuð til minningar þeirra kvenna sem tóku þátt í fyrri heimstyrjöldinni. Vindurinn var því miður eitthvað að stríða hertogaynjunni af Cambridge sem valdi að hafa hárið slegið.

Meghan og Harry voru viðstödd minningarathöfn við Westminister Abbey en þar hefur verið útbúið svæði þar sem fólk getur skilið eftir skilaboð til fallinna ástvina. Harry klæddist sama einkennisbúningi og þegar hann gekk að eiga Meghan. Meghan sjálf var í dökkblárri kápu og svörtum kjól ásamt háum Victoria Beckham stígvélum. Meghan var glæsileg, enda í lit sem fer henni mjög vel og stóðu hertogahjónin sig með prýði. Það vakti þó athygli að Kamilla, hertogaynjan af Cornwall, átti einnig að vera með í för en hún varð að hætta við þar sem hún hefur verið að glíma við slæmt kvef.

Hertogahjónin af Cambridge og Sussex voru önnum kafin í gær og munu vera það næstu daga enda hefur konungsfjölskyldan mikið fyrir stafni þessa dagana. Nóvembermánuður í Bretlandi er tileinkaður öllum þeim sem látið hafa lífið í þjónustu fyrir landið og er sérstaklega minnst allra sem létust í fyrri og seinni heimstyrjöldinni. Minningarviðburðirnir ná hámarki á sunnudaginn en sú athöfn á sér ávallt stað á þeim sunnudegi sem er næstur 11. nóvember. Það mun vera fyrsti viðburðurinn sem við sjáum þá bræðurna saman eftir að Harry tók það fram í nýrri heimildamynd að samband hans og Viljálms væri ekki eins og það hefði áður verið.


 
 

 
View this post on Instagram


 
 

 
View this post on Instagram

Guðný Ósk Laxdal

Guðný Ósk Laxdal

Konungsfjölskyldur eru merkilegt menningarfyrirbæri sem eru stöðugt í sviðsljósinu og vekja sífellt áhuga. Guðný stúderaði nútímavæðingu bresku konungsfjölskyldunnar í B.A. ritgerð sinni í ensku við HÍ og hefur ávallt haft gaman af konunglegum málefnum, bæði sem dægurmál og fræðilegt menningarfyrirbæri. Hún skrifar útskýringarpistla og segir frá skemmtilegum staðreyndum og fer nánar í konunglegt slúður. Hún fjallar frekar um konungsfjölskylduna á instagram @royalicelander.

Meira