Sólrún Diego veldur mér kvíða

Mig hefur jafnvel dreymt um hvernig lífið væri ef maðurinn …
Mig hefur jafnvel dreymt um hvernig lífið væri ef maðurinn minn væri eins og Sólrún Diego. Alltaf að þrífa.

Ung kona á uppleið veltir því fyrir sér hvernig hún geti orðið aðeins meira eins og Sólrún Diego og maðurinn hennar þá aðeins meira eins og Sölvi Tryggva. Hún leitar ráða hjá Elínrós Líndal, einstaklings- og fjölskylduráðgjafa. 

Sæl. 

Mig langar að henda inn nokkrum línum á þig. Þannig er mál með vexti að ég er nýútskrifuð úr háskólanámi og hef stundað vinnu núna í fjögur ár. Ég starfa innan heilbrigðisgreinarinnar og finn fyrir ótrúlega miklu álagi. Ég næ nánast aldrei að klára það sem sett er fyrir yfir daginn í vinnunni og kem vanalega aðeins fyrr í vinnuna og fer út aðeins seinna en ég á að gera. 

Þegar ég kem heim þá tekur á móti mér dásamleg fjölskylda, kærasti og eitt barn. Við búum í fallegri íbúð í vesturbænum, en vanalega flæðir allt út úr skápunum hjá mér af drasli. Ég næ rétt að fara í búð, elda, ganga frá og svæfa áður en ég sofna á sófanum eða uppi í rúmi uppgefin. Þá vanalega með maskarann enn þá á mér og stundum jafnvel í fötunum. 

Síðan hefst nýr dagur. 

Ég er mjög ástfangin af kærastanum mínum en við höfum ekki náð að gera neitt formlega rómantískt saman í nokkur ár. 

Hann starfar einnig í sömu grein og ég. Er duglegur að taka þátt til jafns við mig og er frábær maður að öllu leyti. 

Við sitjum stundum hlið við hlið í sófanum heima og skoðum Instagram. Ég er þá að fylgjast með Sólrúnu Diego, sem sótthreinsar uppvöskunarvélina sína einu sinni í viku, og hann er að fylgjast með Sölva Tryggva sem finnur sér alltaf tíma til að vera besta útgáfan af sér, með six pack, alltaf hress og til í tuskið. 

Þetta veldur okkur kvíða. En samt hlæjum við vanalega saman að þessu og höldum áfram, einn dag í einu. En lífið er stundum aðeins of mikill harðfiskur. Um daginn var ég samt farin að spá í hvað væri geggjað ef maðurinn minn væri eins og Sólrún, þá gæti ég verið meira eins og Sölvi. Æ þú veist hvað ég meina. 

Erum við þau einu sem erum að kafna yfir því sem við sjáum á samfélagsmiðlum, finnst það mjög langt frá raunveruleikanum og erum að velta fyrir okkur hvernig hinir gera hlutina? Áttu ráð fyrir okkur til að verða aðeins meira eins og Sölvi og Sólrún?

Kveðja, ein sem sendir póst í hádegishléinu með maskarann frá því í gær niður á kinnar og barnaælu á hvítu strigaskónum.

Elínrós Líndal ráðgjafi.
Elínrós Líndal ráðgjafi. mbl.is/Saga Sig

Sæl og takk fyrir skemmtilega raunsætt erindi!

Ég held að bréfið þitt muni hitta stóran hluta lesenda beint í hjartastað enda flestir að fara í gegnum það sama og þið. 

Ég er af annarri kynslóð. Þeirri sem var alin upp af konum sem voru að brjótast til valda. Ég sem dæmi var alin upp af einstæðri móður sem kenndi mér ansi margt um hvernig maður hagræðir, lifir af og heldur alltaf áfram - þótt hlutirnir séu ekki alltaf fullkomnir. 

Getur þú ímyndað þér hvernig þeim konum leið? Þar sem stór hluti kvenna var heimavinnandi á meðan þær ruddust til valda, drukku TAB og bruddu megrunarkaramellur. Hótuðu kynskiptaaðgerðum ef þær fengu ekki launahækkanir og þar fram eftir götunum.

Þetta voru konurnar sem ég umgekkst í Kramhúsinu í gamla daga. Þær sem dilluðu sér við Jane Fonda á meðan þær „áttu“ að vera heima að elda. 

Eins og þú lýsir lífinu ykkar, þá finnst mér það bara frekar raunsæ lýsing á því sem flestir eru að ganga í gengum. Flestir vilja, eða þurfa að vinna úti. Keppast við að komast heim, elda eitthvað gott, ganga frá, knúsa börnin og síðan áður en langt um liðið er komið að háttatíma.

Fegurðin að mínu mati er að sjá hamingjuna í hversdagsleikanum.

Sölvi er fínn strákur og Sólrún Diego líka, en ég held að flestir áhrifavaldar á samfélagsmiðlum þvoi óhreina þvottinn sinn í laumi. Sölvi hefur reyndar verið opinn með verkefnin sín í lífinu og það finnst mér vel gert hjá honum. En ég held að það sé mjög óraunsætt að áætla að þetta fólk deili öllu með okkur. 

Þetta er það sem ég hef lært af mínum fyrirmyndum (úr Kramhúsinu) sem ég gæti gefið þér áfram:

 • Ekki gefa vinnuna þína - ef þú færð borgað fyrir átta tíma. Mættu þá á réttum tíma í vinnu og farðu svo á réttum tíma heim.
 • Lærðu að haga þér í samskiptum við aðra. Ef þú ert ósátt í vinnu, í sambandi eða í lífinu, taktu þá ábyrgð og lækkaðu kröfurnar eða komdu þér á nýjan stað. Aldrei að væla. 
 • Settu sjálfa þig, eiginmann og börn í fyrsta sætið. Ekki bera þig saman við aðra. 
 • Gerðu ráð fyrir því að hlutirnir verði einfaldari með árunum. Það er hunderfitt að taka þvottinn fyrst, síðan verður það léttara. Ef allt fer suður hjá þér í lífinu, þá verður þvotturinn orðinn að áhugamáli þínu um miðjan aldur. En þá skaltu leita til læknis. 
 • Settu sjálfri þér kærleiksrík mörk. Reyndu að sofa átta tíma að nóttu, borða þrjár máltíðir á dag og forðast áfengi og sykur. 
 • Talaðu alltaf fallega við sjálfa þig og aðra. 
 • Stundaðu garðrækt.
 • Kauptu þér boxpúða og hanska og settu út í skúr ef fólk fer að fara yfir mörkin þín. Fólk í góðu formi, er alltaf aðeins betra að setja mörk. 
 • Breyttu þér en aldrei eyða tíma í að reyna að breyta öðrum. 
 • Eldaðu tvöfaldan skammt hverju sinni og frystu helminginn svo þú þurfir einungis að elda aðra hverja viku. 
 • Reyndu að hafa fallegt í kringum þig og gefðu þér 20 ár í að búa til heimili sem er heimilið sem þig dreymir um. 
 • Gerðu það sem byggir þig og sambandið þitt við aðra upp. Ekki vera bolur og velja bara það sem aðrir gera. 
 • Ekki reyna að vera fullkomin/fullkominn. Það tekst engum.
 • Æfðu ballett, það kennir þér rútínu og aga. 
 • Við sjáum seinast í gegnum stjórnleysið í sjálfum okkur. Ef eitthvað er að í lífinu. Farðu þá til aðila sem er ekki meðvirkur og fáðu lánaða dómgreind. 
 • Aldrei treysta öðru fólki betur fyrir þínu lífi og ekki taka ráð frá fólki. Reynsla, styrkur og von færir fjöll á meðan stjórnsemi býr til sjúkdóma. 
 • Það þarf heilt þorp að ala upp fjölskyldu. Verið í góðu sambandi við foreldra og fjölskyldu og veljið ykkur vini og nágranna sem geta stigið inn í líf ykkar með litlum fyrirvara. Góður nágranni leynist á hverju strái. 
 • Keyptu einungis það sem þig vantar og safnaðu fyrir upplifun og skemmtun fyrir fjölskylduna. Lífið er núna! Það er einstakt og fallegt.

Ég óska þér velfarnaðar í lífsins ólgusjó.

Ligg­ur þér eitt­hvað á hjarta? Þú get­ur sent El­ín­rós spurn­ingu HÉR.   

mbl.is