Reiður gamall karl lánaði veð og situr í súpunni

Gamall reiður íslenskur karl leitar ráða hjá Sævari Þór Jónssyni …
Gamall reiður íslenskur karl leitar ráða hjá Sævari Þór Jónssyni lögmanni. Ljósmynd/Unsplash

Sævar Þór Jónsson, lögmaður/MBA, svarar spurningum lesenda Smartlands. Hér fær hann spurningu frá manni sem lánaði annarri manneskju peninga og er líklega búinn að tapa þeim fyrir fullt og allt. 

Sæll Sævar,

getur þú hjálpað mér? Ég lánaði manni veð því hann var á vanskilaskrá. Ég gerði þetta í góðri trú. Viðkomandi vildi 40 ára lán svo það væri sem minnst afborgun svo viðkomandi myndi standa við sitt. Núna hefur viðkomandi ekki borgað og er kominn í gjaldþrotameðferð. 

Er einhver leið að losna undan þessu? Maður er kominn á rusl aldurinn sem segir til sín.

Með kveðju,

reiður gamall karl 

Sævar Þór Jónsson rekur lögmannstofuna Sævar Þór & Partners.
Sævar Þór Jónsson rekur lögmannstofuna Sævar Þór & Partners.

Sæll.

Í spurningu þinni er til þess vísað að viðkomandi aðili hafi verið á vanskilaskrá. Það vekur  spurningar um lánshæfi aðilans á þeim tíma sem umrætt lán var tekið. Í lögum um ábyrgðarmenn 32/2009, sbr. 2. mgr. 2. gr. laganna, er svo mælt að ábyrgðarmaður er m.a. einstaklingur sem veðsetur tiltekna eign sína til tryggingar efndum lántaka að því leyti sem ábyrgðin sé ekki í þágu atvinnurekstrar ábyrgðarmannsins eða í þágu fjárhagslegs ávinnings hans. Þá segir jafnframt í lögunum að lánveitandi skuli meta hæfi lántaka til að standa í skilum með lán þar sem ábyrgðarmaður gengst í ábyrgð til tryggingar efndum lántaka. Þá segir einnig að lánveitandi skuli með skriflegum hætti ráða ábyrgðarmanni frá því að gangast í ábyrgð ef greiðslumat bendir til þess að lántaki geti ekki efnt skuldbindingar sínar.

Með tilliti til þess sem að framan segir um vanskilaskráningu lántakans má velta því fyrir sér hvort ekki hafi verið tilefni til, sbr. framangreint, að tilkynna þér sérstaklega með skriflegum hætti að lántaki kynni hugsanlega að standa höllum fæti. Að svo stöddu er ógerningur að fullyrða um það. Enda þótt lögin mæli ekki beinlínis fyrir um ógildingu ábyrgðarinnar rennir vanræksla viðkomandi lánastofnunar á skyldum sínum samkvæmt þeim undir grundvöll þess að hægt sé að fá henni vikið til hliðar í heild eða að hluta á grundvelli 36. gr. laga um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga, nr. 7/1936.

Kær kveðja, 

Sævar Þór Jónsson lögmaður

Liggur þér eitthvað á hjarta? Þú getur sent Sævari Þór spurningu HÉR. 

mbl.is