„Get ég farið í samband aftur?“

Konur sem hafa misst trú á karlmönnum þurfa oft að …
Konur sem hafa misst trú á karlmönnum þurfa oft að skoða undirliggjandi hugmyndir sínar. mbl.is/Colourbox

El­ín­rós Lín­dal, ein­stak­lings- og fjöl­skylduráðgjafi, svar­ar spurn­ing­um les­enda Smart­lands. Hér fær hún spurn­ingu frá konu sem er van­mátt­ug þegar kemur að ástinni. Í raun er hún búin að gefast upp á henni og biður um ráð. 

Sæl Elínrós

Mig langar að spyrja að einu sem ég hef verið að velta fyrir mér, kem úr tveimur langtíma samböndum sem enduðu bæði eftir framhjáhald maka. Get ég farið aftur í samband, eða verð ég alltaf óörugg, um að næsti haldi framhjá líka? Ég hef reynt en þegar þeir byrja að bera tilfinningar til mín þá er ég farin, er búin að vera ein í langan tíma núna, því ég vil ekki samband eða þori ekki að taka þetta skref. Veit ekki alveg hvort það er.

Kveðja, ein sem er búin að gefast upp á ástinni. 

Elínrós Líndal ráðgjafi.
Elínrós Líndal ráðgjafi. Ljósmynd/Saga Sig

Sælar. 

Þú getur auðveldlega farið aftur í samband og ættir að halda áfram að reyna að mínu mati. Það sem ég myndi hins vegar gera núna er að staldra aðeins við og skoða hvað liggur að baki reynslu þinni. 

Þegar fólk er fast í ákveðnu fari og er ekki að upplifa það sem það langar í ástarlífinu, er algengt að það sé með rangar hugmyndir um sig og aðra í lífinu (e core beliefs). 

Börn spegla sig í foreldrum sínum. Í grunninn má segja að þeir skipti mestu máli í þessu samhengi. Þeir sem hafa fengið ást án skilyrða frá báðum foreldrum sínum. Athygli og ást og hlýju virðast vera betur undir búin fyrir ástina en þeir sem hafa fengið skort á ást, sérstaklega fyrir fjögurra ára aldurinn. 

Talið er að stór hluti ákvarðana einstaklings komi frá hugmyndum hans um sig og umhverfið sitt. Í grunninn má segja að út frá skilyrtri ást frá foreldrum, eða fjarveru foreldra vegna veikinda eða aðstæðna myndist hugsun sem nauðsynlegt er að skoða (e impaired thinking). 

Þessi hugsun getur verið að allir karlmenn séu framhjáhaldarar, eða að allar konur séu lauslátar. Karlar í þeirri stöðu sem þú lýsir í bréfinu þínu hafa oft þá grunnhugmynd að þeir séu ekki þess virði að elska og konur séu í grunninn erfiðar. 

Konur sem falla fyrir mönnum sem upplifa ást í gegnum kynlíf og missa síðan stjórn á sér á þessu sviði, eru oft konur sem hafa fengið lítið knús, athygli og ást frá foreldrum, annað hvort báðum eða öðru þeirra. Rannsóknir sýna að faðir skiptir einstaklega miklu máli fyrir konur að þessu leiti og mæður fyrir karlmenn. 

Þessar konur verða þá varkárar þegar kemur að karlmönnum. Tengja síður við venjulega karlmenn sem elska út frá ákvörðun, heldur finna ástina í faðmi manns sem er gagntekinn á þeim, sjúkur í kynlíf og er tilbúinn að setja allt til hliðar fyrir ástina; um stundasakir. 

Síðan krullast fólk áfram í lífinu í þessu mynstri. 

Það sem mér finnst áhugaverðast við þessa vinnu er sú staðreynd að í raun eru báðir aðilar í einskonar ástarmegrun. Sá sem er fastur í þráhyggju um hina fullkomnu ást er þá ekki að gefa færi á sér í venjulega hluti. Og sá sem er með þráhyggju í kynlífið og hina fullkomnu konu mun vera alla ævina að leita að þeirri einu réttu. Til þess eins að sjá síðan aðra og aðra og aðra konu sem er aðeins meira spennandi. 

 Ég mæli með að konur læri fyrst að elska sjálfa sig án skilyrða. Að þær læri að skoða hvaðan þær eru komnar og hvar þær þurfa að ala sig sjálfar upp. Síðan mæli ég með að þær æfi sig í að setja sjálfum sér mörk og síðan öðru fólki. Að þær geri góðan sambandssamning áður en þær fara í næsta samband og svo fram eftir götunum. 

Þetta er mjög skemmtileg vinna sem ég mæli með alla sem á þurfa að halda að fara í. 

Kær kveðja, Elínrós Líndal.

Ligg­ur þér eitt­hvað á hjarta? Þú get­ur sent El­ín­rós spurn­ingu HÉR.

mbl.is