Mamma vill ráða með hvaða konu hann byrjar

Fullorðnir karlmenn ættu að forðast að láta konur sínar berjast …
Fullorðnir karlmenn ættu að forðast að láta konur sínar berjast við mæður þeirra. Ljósmynd/Colourbox

Elínrós Líndal fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda Smartlands. Hér fær hún spurningu frá manni sem býr við mikla stjórnesemi móður sinnar. 

Sæl. 

Ég var að velta fyrir mér hvernig best er að snúa sér í málum er varða mömmu mína. Þannig er mál með vexti að hún er óstjórnlega dómhörð og leiðinleg þegar kemur að kvennamálunum mínum. Hún er samt einstök á margan hátt, en þegar kemur að mínu lífi þá er hún sérfræðingur í því. Á móti kemur að hún hefur ekki minnsta áhuga á sínu eigin lífi. Hvernig á ég að snúa mér í þessum hlut?

Mamma er vanlega með það á hreinu hvaða konu ég eigi að fá mér. Engar af þær sem ég vel mér sjálfur eru nógu góðar fyrir mig að hennar sögn. Þegar ég reyni að kynna dömu inn í fjölskylduna, þá hefur hún miklar skoðanir á henni. Hún á að vera með ákveðið miklar tekjur, klæðast á ákveðinn hátt og haga sér eftir allskonar kúnstarinnar reglum. 

Mamma segir ekki alltaf fyrir framan annað fólk, en augnaráð hennar segir meira en mörg orð. 

Nú er ég kominn yfir miðjan aldur og finnst mér þetta afar íþyngjandi. Ég vildi síður loka á hana, þar sem hún er með fullt af flottum og skemmtilegum hlutum í fari sínu. En ég verð að ná að setja henni mörk. Annars enda ég á að finna mér konu á elliheimilinu, þegar mamma er loksins farin. 

Er þetta algengt mynstur og hvað liggur þarna á bakvið? Mamma er sjálf gift, en hún og pabbi voru í svakalega skrítnu hjónabandi fyrstu áratugina. Hún er frekar lítið menntuð sjálf og hagar sér langt frá því sem henni finnst konur eiga að gera almennt. 

Það er ekki þannig háttað að ég láti þetta stýra lífinu mínu en ég er aðeins vanmáttugur með hvernig maður snýr sér í svona földu ofbeldi gegn konum í fjölskylduboðum, þegar ættmóðirin sjálf er við stýrið og setur alla undir sig. 

kær kveðja, Einn áttaviltur. 

Elínrós Líndal ráðgjafi.
Elínrós Líndal ráðgjafi. Ljósmynd/Saga Sig

Sæll. 

Takk fyrir ótrúlega skemmtilega spurningu og áhugaverðar vangaveltur. 

Á bakvið stjórnsemi býr ótti og stjórnsamir eru einmitt sérfræðingar í öðru fólki. Þeir vanrækja oft sjálfan sig til þess eins að bjarga öðru fólki, sem er ekki einu sinni að biðja um að láta bjarga sér. 

Ég myndi bara hvetja þig til að halda áfram að æfa þig á þessu sviði í lífinu. Ein góð setning sem mér dettur í hug að gæti stoppað þessa hegðun hjá henni er: Takk fyrir ábendinguna mamma. Ef mig vantar aðstoð með ástarlífið mitt, þá mun ég leita með þau mál til sérfræðings. 

Mæður eiga ekki að velja maka fyrir syni sína og þær eiga ekki að skipta sér af hlutum almennt séð hjá fullorðnum börnum sínum, nema þær séu beðnar um aðstoð eða lán á dómgreind ef því er að skipta. 

Ég á sjálf þrjá drengi og ég myndi aldrei hafa skoðun á ástarmálum þeirra. Það er bara langt fyrir utan mitt sérsvið og einungis þeirra að finna út með. Þegar eitthvað gerist í samböndum barna okkar, þá reynir á þær leiðir sem við höfum kennt börnum okkar þegar kemur að meðvirkni, samskiptum og heiðarleika. Ef það er í lagi, þá verður fólkið okkar í lagi. 

Ég er hrifin af kenningum Dr. Pat Allen þegar kemur að svona samskiptum. Hún segir að konur sem bera ekki virðingu fyrir fullorðnum drengjum sínum, séu í raun konur í karlorkunni sem eru að ala upp stráka í kvenorkunni. Þessar kenningar eru komnar frá Carl Jung og ég mæli með að þú sjáir hvernig Allen tekur á konum sem eru að þykjast vera karlar á þessu sviði í fyrirlestrunum sínum. 

Mín reynsla er sú að það er mjög auðvelt að stoppa þetta mynstur. Þetta er vanalega bara ákvörðun sem þú tekur innra með þér: Ætla ég að láta mína hamingju vera í fyrsta sæti eða mömmu minnar? Síðan setur þú mörk og stendur við þau sama hvað gerist. 

Þannig tekur þú ábyrgðina á þér þangað sem hún á að vera. 

Sittu nálægt konunni þinni í fjölskylduboðum og settu fjölskylduna þína í fyrsta sæti. Þú getur kannski ekki bjargað mömmu þinni úr þessu, en þú getur bjargað þér. Síðan myndi ég ekki lesa of mikið í svipi fólks almennt. Fólk er bara allskonar og hefur örugglega sem minnst með þig að gera. 

Hver veit nema að mamma hrökkvi þá bara í gang með sitt eigið hjónaband, taki ábyrgð á sinni hamingju og verði sinn eigin skemmtanastjóri eins og við mæður eigum í kjarnann að vera fyrir okkur sjálfar. 

Gangi þér hjartanlega vel og áfram þú!

Ligg­ur þér eitt­hvað á hjarta? Þú get­ur sent El­ín­rós spurn­ingu HÉR.

mbl.is