Klæðnaður, framkoma og húmor getur skipt sköpum

Edda Hermannsdóttir segir að allir hafi eitthvað fram að færa.
Edda Hermannsdóttir segir að allir hafi eitthvað fram að færa.

Í nýrri bók Eddu Hermannsdóttur, Framkomu, er fjallað um það sem mestu máli skiptir þegar einstaklingar þurfa að koma fram og tala fyrir framan hóp af fólki. Langflest þurfum við á einhverjum tímapunkti að gera slíkt. 

Að mati Eddu höfum við öll eitthvað fram að færa og getum notað okkur það sem sterkir leiðtogar í landinu hafa í fyrirrúmi. 

Í bókinni eru birt góð ráð frá reynslumiklu fólki í fjölmiðlum og atvinnulífinu. 

Hér eru tíu punktar úr bókinni sem Edda tók saman fyrir Smartland þegar kemur að framkomu:

Við hvern erum við að tala

„Þegar við komum fram er nauðsynlegt að skilgreina við hverja við erum að tala og hvers vegna þetta viðfangsefni skiptir máli á þessum tímapunkti. Um leið og við áttum okkur á væntingum áhorfenda er auðveldara að koma réttum áherslum áleiðis.“

Hver eru skilaboðin

„Við höldum oft að við séum með fullmótaða hugmynd í kollinum. Um leið og við byrjum að skrifa áttum við okkur hins vegar fljótt á því að hugmyndin er oftast skemur á veg komin en við héldum. Mér hverri setningu sem við skrifum mótum við betur skilaboðin. Það er því auðvelt að halda því fram að með því að skrifa séum við að huga.“

Hvert er aðalatriðið

„Oft þegar við komum fram, hvort sem það er í ræðu eða viðtölum, þá ætlum við okkur oft að koma of mörgu að og náum ekki að einblína á aðalatriðin. Áður en við förum í viðtöl eða búum til erindi er gott að skrifa 3-4 mikilvægustu atriðin niður á blað.“

Sannfærum áhorfendur

„Góð framkoma snýst um að miðla efninu okkar á sannfærandi hátt og segja áhorfendum einhverja sögu. Aristóteles talaði um þrjár aðferðir sannfæringar; ethos, logos og pathos en bestu erindin eru blanda af þessu. Þá nálgumst við hópinn ólíkt út frá því hvort við viljum leggja áherslu á áreiðanleika og trúðverðugleika, rökstuðning og gögn eða höfðum sérstaklega til tilfinninga.“

Æfingin skapar meistarann

„Það tekur oft langan tíma að setja saman erindi en æfingar fara oft forgörðum. Gætum þess að æfa okkur. Best ef við getum æft okkur í þeim aðstæðum þar sem við munum koma fram eða æfum okkur fyrir framan aðra til að fá endurgjöf.“

Forðumst óþarfa málalengingar

„Ef við erum vel æfð þá vitum við hversu langan tíma erindið okkar mun taka. Berum virðingu fyrir tímamörkum sem eru sett og höfum í huga að styttri og hnitmiðaðri skilaboð hitta oftast betur í mark heldur en löng skilaboð þar sem áhorfendur eiga erfitt með að halda athygli.“

Ekki gleyma húmornum

„Það fer eftir viðfangsefni og fólki ferst það misvel úr hendi að nota húmor en hann getur verið mjög mikilvægur til að hafa áhrif á spennustigið enda sameinar hlátur alla. Létt grín dregur úr stressi en gætum þess þó að aðlaga húmor að stemningu og menningu á hverjum stað. Einnig er gott að huga að því hvort grínið þoli að vera endurtekið eða skrifað í öðru samhengi.“

Litlu atriðin verða stóru atriðin

„Þættir eins og fatnaður, raddbeiting og líkamstjáning geta hljómað eins og litlu málin en eru það svo sannarlega ekki í framkomu. Hvernig við notum til dæmis hendur getur haft áhrif á það hvernig áhorfandi meðtekur skilaboðin og óþægilegur fatnaður getur aukið stress sem er algjör óþarfi.“

Drögum úr stressi

„Það er mikill munur á því að fá fiðring í magann við framkomu eða vera illa haldin af stressi. Með því að undirbúa okkur vel drögum við úr líkum á stressi en það er einnig mikilvægt að vera vel stemmd rétt áður en við komum fram. Öndum djúpt ofan í kvið áður en við komum fram og hitum upp andlitið. Finnum síðan hvort það sé einhver sérstök rútína sem hentar okkur vel til að slaka á, smá einvera eða eitthvað gott lag í bílnum á leiðinni.“

Ekki óttast að mistakast

„Með því að skipuleggja undirbúning vel og æfa okkur þá drögum við úr líkum á stressi og erum líklegri til að sannfæra áhorfendur. Munum samt að við munum gera mistök; tafsa á orðum, segja eitthvað ófyndið eða vitlaust. Ef við gerum ráð fyrir því og getum jafnvel gert grín að okkur sjálfum þá skiptir það engu máli í heildarsamhenginu.“

mbl.is