Langar í samband en óttast áhrif kórónuveirunnar

Til eru konur sem setja fjárhagslegt öryggi framar öllu. Þær …
Til eru konur sem setja fjárhagslegt öryggi framar öllu. Þær eiga oft og tíðum erfitt með að berskjalda sig í ástarsaböndum. Ljósmynd/Colourbox

El­ín­rós Lín­dal, ein­stak­lings- og fjöl­skylduráðgjafi, svar­ar spurn­ing­um les­enda Smart­lands. Hér fær hún spurn­ingu frá konu sem er van­mátt­ug þegar kem­ur að ást­inni. Hún er með sitt á hreinu og ætlaði að prófa sig áfram í sambandi, en óttast að ástandið komi óreiðu á líf hennar. 

Kæra Elínrós.  

Ég er með rosalega mikinn afkomuótta í dag þar sem mér finnst atvinnumarkaðurinn óstabíll og mikil óvissa í kringum hlutina hér heima. 

Ég er ekki á flæðiskeri stödd þó síður sé, en vil að peningarnir mínir haldi áfram að ávaxta sig og eignin að vaxa í verði. 

Ég kem úr fjölskyldu þar sem við konurnar höfum lært að taka ábyrgð á okkur og hafa okkar á hreinu. Finnst í raun mjög skemmtilegt að gera allt sjálf. 

Þetta setur svolítið strik í reikninginn hjá mér þar sem ég var að spá í að fara að prófa mig áfram með samband, en nú fæ ég bara kvíðahnút í magann yfir allri óreiðunni sem getur skapast í lífinu tengt annarri manneskju og ástarsambandi. 

Áttu ráð?

Kveðja, ein með hlutina á hreinu í umhverfi sem er algjört mess

Elínrós Líndal ráðgjafi.
Elínrós Líndal ráðgjafi. mbl.is/Saga Sig

Sælar og takk fyrir að senda inn bréfið

Ég held það sé margir karlmenn sem geta speglað sig í spurningu þinni um þessar mundir. Aðilar sem eru aldir upp við að peningar séu öryggi og ástin jafnvel hættuleg. 

Það áhugaverða við þína spurningu er að vanalega erum við konur aldar upp við að vera aðeins meira meðvirkar en þú ert. Það endurspeglast gjarnan í peningahegðun okkar, sem hefur í raun og veru lítið að gera með peninga í sjálfu sér, heldur meira að gera með að okkur finnst við eiga að vera til staðar fyrir alla í lífinu okkar. Við setjum oft börnin okkar, foreldra og maka framar okkur. Eins tala margar konur um að fjármálastofnanir setji þær undir sig og tala ekki við þær af sömu virðingu og gert er við karla.

Ég hef hins vegar hitt fjölda kvenna með áskorun eins og þína, sem koma úr fjölskyldum þar sem eru sterkar konur sem kunna að bera ábyrgð á sér. En eru aðeins vanmáttugari við að deila lífinu með öðru fólki. Margar þessara kvenna hafa litlar sem engar þarfir inn í samböndum og kunna illa að setja heilbrigð mörk.  

Það sem mér finnst áhugavert að þú skoðir og sért heiðarleg með gagnvart sjálfri þér, er af hverju þér finnst samband þurfa að hafa áhrif á fjármálin þín? Ég myndi aldrei ráðleggja konu annað en að taka ábyrgð á sínum fjármálum og ekki endilega deila því að fullu með maka sínum. Ég ráðlegg karlmönnum að gera það sama. Enda verðum við að vera okkar eigin skemmtanastjórar, kunna að lifa af sjálf óháð öðrum eins hlutirnir eru að þróast með árunum. Ég held að ef við tökum ábyrgð á okkur þannig, þá getum við elskað meira án skilyrða og sett heilbrigð mörk sem eru byggð á sanngjörnum samskiptum. Ég hef hins vegar ekkert á móti annarskonar samböndum, ef bundið er um það með góðum sambands samningi og allir eru með á hreinu hvað ætlast er til af þeim því tengt. 

Þær konur sem ég hef hitt með svona áskorun eins og þú ert með, nota allt sem þær geta til að forðast það að fara í sambönd. Kórónuveiruna, kreppuna 2008 eða heimskreppuna miklu árið 1929. 

Það að halda að maður sé öruggur með pening inn á banka er svipað eins og að halda að maður muni lifa af rauða veðurviðvörun með því að binda sig við staur úti í vonda veðrinu. 

Ef þú skoðar hvað liggur að baki ótta þínum og ferð yfir hvað sanngjörn samskipti eru þá ættir þú ekki að þurfa að reka þig harkalega á í ástum.Þú ert verðug, einstök og án efa í frábæru formi til að deila ást með annarri manneskju. 

Ástarmegrun eins og þú veist án efa sjálf, er engu minna skemmandi en megrun á mat. Hungruð manneskja borðar aldrei af skynsemi og það er fullt til af flottum mönnum þarna úti sem standa alveg í lappirnar þó kórónuveiran sé í gangi. Þú þarft bara að koma auga á þá. 

Gangi þér vel.

Kveðja, Elínrós Líndal. 

Ligg­ur þér eitt­hvað á hjarta? Þú get­ur sent El­ín­rós spurn­ingu HÉR.

mbl.is