Nautið: Það verður ekkert volæði hjá þér

Elsku Nautið mitt,

þú sérð það sem þú vilt sjá og ert með þrjósku þinni búið að vera að einblína á eitthvað sem er hálfgerð blekking. Þar sem þú getur verið svo staðfast í trúnni þá heldur þú áfram að trúa lengur en aðrir, svo núna líturðu til hliðar og sérð lífið í öðruvísi litum.

Ef þú hefur verið andlaust, veikt eða slappt er eins og þú finnir óútskýrða lækningu og kannski varst það bara þú sem settir kraftaverkið í gang, eða hjálpaði orka alheimsins að gera þetta? Það skiptir ekki máli því trúin þín verður sterkari en nokkru sinni áður.

Það verður ekkert volæði hjá þér. Þú vinnur úr lífinu eins og þú hafir komist í gamla garnflækju, finnur einn spotta og þarft ekki svo mikið að hreyfa við þessu öllu saman til þess að málið klárist. Skilaboðin til þín eru, hálfnað er verk þá hafið er, eða taktu fyrsta skrefið í stiganum þótt þú sjáir ekki allar tröppurnar.

Þú átt eftir að eflast við hreyfingu og elska tengingu við móður Jörð, þú finnur hina einu sönnu hamingju seytla eftir blóðrásinni og fiðrildi í maganum eins og ástin gefur. Það sýnir þér sérstaklega hvað þú gefur þér meira færi á að elska sjálft þig og byggja upp sjálfstraust og betri grunn með hverri mínútu.

Talandi um mínútuna þá skaltu hvorki hugsa langt fram í tímann, né aftur, því þú ert mínútumanneskja svo settu liti í mínútuna sem þú hefur.

Ástin verður tengd yfir í blíðu. Ég veit ekki hvort þú færð þér hund eða kött, eða kærasta, en eitthvað sem heldur athygli þinni að væntumþykju; hvað er væntumþykja og hvað er ást? Það er nákvæmlega það sama.

Engar hugsanir eða tilfinning eru eins, en tilfinningar þínar á næstu tveimur mánuðum verða fylltar jákvæðni og blessun og þú verður bænheyrt í svo mörgu og öryggisnet verður í kringum veraldleg gæði, svo vertu í mínútunni, það er magnari þinn.

Kossar & knús,

Sigga Kling

mbl.is