Meyjan 23. ágúst - 22. september

Meyjan 23. ágúst - 22. september Meyjan 23. ágúst - 22. september

Eldmóður og uppskera

Elsku Meyjan mín, Júpiter verður mikið á ferðalagi í lífi þínu á þessu ári, sérstaklega tengt fjölskyldu og heimili, þar er að koma mikil velferð.  Apríl mánuður er eini mánuðurinn sem ég ætla að vara þig sérstaklega við, því þar myndast allskyns hindranir og þér finnst þú vera föst, svo ekki taka neinar mikilvægar ákvarðanir í þeim mánuði, heldur leyfðu honum bara sigla eins rólega framhjá eins og þér er unnt.

Strax og hinn dásamlegi maí birtist þér, þá bregðurðu fyrir þig betri fætinum, ákveður eða ferð í ferðalög sem eru svo einstaklega tær og falleg og færa þér birtu og yl í lífið og þín einstaka gjafmildi skilur eftir bros á vörum allra þeirra sem þú hjálpar.

Sumarið tengist ástinni og áskorunum um að taka áhættu, svo ef þú hefur áhuga á að bjóða ástargoði eða gyðju í líf þitt, þá er það skrifað í skýin að sumarið alveg fram í lok september er þinn tími í ástinni.

Það verður mikill eldmóður í áhugamálum þínum og þeir sem eru að keppa í gamni eða alvöru, standa uppi með bikarinn, þeim jafnvel alveg að óvörum. Þú verður búin að undirbúa þig svo svakalega vel fyrir veturinn og skipuleggja svo skemmtilega að aðalatriðin munu ganga upp, en önnur geta tekið örlítið lengri tíma.

Þú verður í essinu þínu með fjölskyldunni, ástinni og vinum og nýtur afburða vinsælda, meira en aðrir geta státað sig af, en sýndu auðmýkt og lítillæti.

Þú græðir á fjárfestingu eða færð greitt fyrirfram fyrir eitthvað sem verður þér ekkert svo erfitt að framkvæma, en það eina sem getur bitið þig elsku hjartað mitt er þráhyggja, svo hugsaðu um eitthvað sem þú þráir endalaust, þannig að ekkert annað komist að,  því það er góð þráhyggja.

Það getur verið þannig að þér finnist ekkert vera að gerast hjá þér svo árum skiptir og þú verður jafnvel pirruð út í stjörnuspána, en þá er svo mikilvægt þú sjáir að orkan, hamingjan eða ferðalagið kemur ekki og sækir þig, heldur þarftu að vera í hringiðu lífsins og bera ábyrgð persónulega á mjög mörgu. Skelltu þér núna á fyrsta farrými, því þetta er svo sannarlega árið sem þú munt njóta lystisemdanna.

Þú fyrirgefur gamlar erjur og ósætti og þér líður svo miklu betur, verður betri við maka þinn, kærasta eða vini og þá líður þér ennþá betur og verður ekki eins stressuð yfir peningamálum eins og þú hefur oft verið.  Svo gæfan verður þér hliðholl og heldur utan um þig í öllum þeim aðstæðum sem þú ferð í gegnum að það er svo sannarlega hægt að segja gleðilegt ár, því þannig rokkar 2020 til þín.

Áramótaknús og kossar, Sigga Kling

Stjörnuspár - smellið til að skoða

Aftur á yfirlitssíðu