Ef makinn ráfar í annað rúm er eitthvað að í sambandinu

Margrét Hugrún Gústavsdóttir.
Margrét Hugrún Gústavsdóttir.

„Krossinn, Þjóðkirkjan og Fíladelfía hafa farið af stað með herferð til að stöðva makalaus vinnustaðapartí en þau eru stærsta ógnin sem steðjar að hjónaböndum landsmanna í dag! Giftu fólki er yfirleitt alls ekki sjálfrátt í slíkum partíum enda dvínar kynferðisleg spenna í hjónaböndum með árunum (eins og allir kannast við) og þá er ofur eðlilegt að missa alveg stjórn á kynhvötinni þegar mætt er í partí án makans. Fólk bara girðir niðrum sig brækurnar umhugsunarlaust og rústar þar með stöðugleika samfélagsins,“ segir Margrét Hugrún Gústavsdóttir ritstjóri Pjatt.is í nýrri færslu á Facebook en henni blöskrar greinar á Vísi.is þar sem makalaus vinnustaðapartí eru sögð uppspretta alls ills. 

Hér má sjá fimm fréttir sem birtust í gær á …
Hér má sjá fimm fréttir sem birtust í gær á Vísi um makalaus vinnustaðateiti.

„Næstu skref herferðarinnar eru að hvetja fyrirtæki til að skipta einhleypum og giftum í mismunandi deildir og einhleypir starfsmenn verða hvattir til að skrá sig á Tinder. Þeir starfsmenn sem ná að koma sér í nýtt samband innan þriggja mánaða frá skilnaði fái jafnframt 4% launauppbót. Eftir sem áður verður einnig haldið í þá reglu að einhleypum starfsmönnum sé MEINAÐ að taka vini eða vinkonur með í partí þar sem mökum er boðið, - enda gríðarleg hætta á að gifta fólkið fari þá að reyna við þau einhleypu með tilheyrandi afleiðingum.

Slagorð herferðarinnar eru:

Verndum hetrónormið!
Allir í sambönd,“ segir Margrét jafnframt. 

Þegar Smartland hafði samband við Margréti Hugrúnu og spurði hana út í vinnustaðapartí sagði hún að fólk þyrfti að fara að slaka aðeins meira á og við sem samfélag gætum ekki alltaf steypt alla í sama mót. 

Finnst þér þessi umfjöllun um makalaus partí vera árás á einhleypa? 

„Nei, ég segi það nú ekki en mér finnst hún mjög fyndin og forneskjuleg. Það er eins og við búum í kristnum smábæ í miðríkjum BNA þar sem allt gengur út á að vernda vísitölufjölskylduna og hetrónormið. Forsvarsmenn kirkjunnar að tapa sér í bæjarblaðinu. Hvað kemur það okkur við þó fólk djammi með öðrum en mökum sínum, nú eða verði hrifið af öðru fólki, drekki of mikið vín eða haldi framhjá? Þetta er bara eitthvað sem fullorðið fólk velur sjálft að gera, þó sumt sé ekki skynsamlegt, og það er absúrd og fyndið að sjá eitthvað sem virkar eins og samstillt átak fjölmiðla og kirkju í að stöðva þessar „ósiðlegu samkomur“ sem makalaus vinnustaðapartí virðast eiga að vera,“ segir Margrét Hugrún. 

Er ekki eitthvað að sambandinu ef fólk hefur áhyggjur af maka sínum í makalausu vinnustaðapartíi? 

„Það er alltaf eitthvað að samböndum þar sem fólk drekkir sér í áhyggjum af því hvort makinn ráfi í annað rúm. Þá líður báðum mjög illa og það þarf að taka á því, en ekki með stjórnsemi, afbrýðissemi og ótta við að vera yfirgefin/n. Sambönd eru í 99% tilvika samningur um að það eru bara þið tvö/tveir/tvær og það er ljótt að svíkja samninga. En ef annar aðilinn velur að gera það þá er það líka á milli parsins að endurnýja samninginn eða rifta honum. Á endanum stjórnar maður aldrei öðru fólki og samfélagið getur heldur ekki stjórnað hegðun para og á ekki að reyna það. Það er bara hreint ekki „moderne“ eins og Daninn segir.“

Hvernig finnst þér að vinnudjammi ætti að vera háttað? 

„Það fer allt eftir vinnustaðamenningunni. Ef ég væri sjálf að skipuleggja svona djamm þá myndi það eflaust snúast um annað en að detta í það. Kannski fara á fjórhjól, í zip lining, danstíma eða eitthvað annað sem kemur fólki út úr þægindahringnum og hressir hópinn. Fullorðið fólk hefur gott af því að fara út að leika sér. Svo mætti alveg vera í boði að skála og grilla eftir sprellið ef stemmning væri fyrir því og nóg til í starfsmannasjóðnum. Ef mökum hinna giftu þætti þetta mjög óþægilegt þá myndi ég bara hvetja þau til að stofna hagsmunasamtök óöruggra maka.“

Margrét Hugrún er ekki á föstu og þegar hún er spurð að því hvernig sé að vera einhleyp segist hún hafa það fínt. 

„Það er betra fyrir mig en það var fyrir mömmu mína og verður enn betra fyrir framtíðar dætur og syni enda eru yngstu kynslóðirnar miklu opnari fyrir fjölbreytileika og sjálfstæði. Það er allt að verða skárra fyrir fólk sem er ekki í þessu svokallaða hetrónormi: pabbi, mamma, börn og bíll, en það er samt mjög margt sem þarf að laga. Það er til dæmis bein útskúfun að einhleypir megi ekki taka vin eða vinkonu eða þessvegna mömmu sína með í vinnustaðapartí þar sem mökum er boðið. Þau einhleypu borga nákvæmlega jafn mikið í starfsmannasjóð og hinir svo þetta er óréttmætt og um leið bein skilaboð um að þú fittir ekki inn í hópinn. Megir bara ekki koma um borð í „Örkina hans Nóa“ því þar eru bara pör. Þú þarft að gera svo vel að drukkna í syndaflóðinu, einhleypi syndaselur. Vera staka stráið í partíinu sem er bannað að styðjast við félagsskap annars en manneskju sem þú deilir rúmi og lögheimili með. Þetta er auðvitað galið og ég skora á eigendur fyrirtækja að henda þessum hallærislega sið í ruslið. Ég skora líka á pör að bjóða einhleypum vinum sínum með í matarboð og gönguferðir. Það er ekki fallegt að bjóða öllum í bekknum í afmælið nema einum. “

Finnur þú fyrir pressu að fara í samband? 

„Ekki svo mikið núna en ég veit að einhleypt yngra fólk er oft að brjálast yfir þessari pressu. Fólk þarf aðeins að slaka á því á að allir eigi að passa inn í hetrónormið. Barnlaus pör þurfa líka endalaust að svara fyrir sig þegar þau eru spurð hvort þau séu ekki að fara að „koma með eitt lítið“. Kannski langar þau bara ekki að eignast börn? Það má. 

Frá 2015 hafa að meðaltali 45% hjóna í Danmörku skilið og það er gríðarleg eftirspurn eftir minni íbúðum, bæði hér og á hinum Norðurlöndunum. Þetta er takturinn og því eðlilegt að ætlast til þess að samfélagið spili með í stað þess að rembast við að halda í norm sem tilheyrir annarri öld. Fjölmenning og fjölbreytileiki gengur ekki bara út á að borða sýrlenskar mandívefjur og ramen núðlur, heilsa konum með hijab eða tralla með í Gleðigöngunni. Hvíta gagnkynhneigða fólkið er líka allskonar. Sumir kjósa að gefa sér góðan tíma milli sambanda og ég er í þeim hópi. Sumir fíla ekki kynlíf. Sumir elska einveru. Sumir kjósa fjarbúð, opin sambönd, ananaspartí og bara allskonar, allskonar. Það á að vera vera pláss fyrir alla í okkar frjálslynda, norræna velferðarsamfélagi, líka makalaus vinnustaðapartí.“

mbl.is