„Alversti tíminn til að eiga leiðinlegan maka“

Viktoría Hermannsdóttir dagskrárgerðarmaður á RÚV er að vinna heima þessa …
Viktoría Hermannsdóttir dagskrárgerðarmaður á RÚV er að vinna heima þessa dagana. mbl.is/Árni Sæberg

Viktoría Hermannsdóttir notar eldhúsborðið sem vinnuaðstöðu þessa dagana. Hún og unnusti hennar, Sóli Hólm, eiga fjögur börn svo það er mikið líf á heimilinu. Hún þakkar fyrir það að eiga skemmtilegan maka í þessu árferði og er þakklát fyrir Bose-heyrnartólin þegar mikið liggur við. 

Viktoría, dagskrárgerðarkona á RÚV, hefur í mörgu að snúast þessa dagana. Hún er einn af umsjónarmönnum Landans og segir skemmtilegt að ljá krafta sína þessum vinsælasta þætti landsins, sem er orðinn fastur liður hjá mörgum landsmönnum á sunnudagskvöldum.

„Svo erum við líka að byrja að vinna að annarri þáttaröð af Fyrir alla muni sem ég er alveg ótrúlega spennt fyrir.“

Viktoría er líkt og aðrir landsmenn komin með skrifstofuaðstöðu heima.

„Ég er búin að vera að vinna heima núna í nokkrar vikur. Ég er búin að koma mér fyrir við eldhúsborðið heima, sem er reyndar stórhættulegt af því að það er aðeins of stutt í matinn. Mér fannst það afrek um daginn að vera ekki búin að fá mér súkkulaði fyrir klukkan ellefu, það sýnir kannski á hvaða stað við erum stödd.“

Vön að vinna í opnu rými

Hvernig nærðu að einbeita þér heima?

„Það gengur misvel að einbeita sér og fer líka eftir því hversu margir heimilismenn eru heima hverju sinni. En líklega býr maður ágætlega að því að vera vanur að vinna í opnu vinnurými þar sem fólk er á þönum í kringum mann allan daginn og svo bjarga Bose „noise cancelling“-heyrnartólin ansi miklu, ég skilgreini eiginlega líf mitt fyrir og eftir að ég eignaðist þau! Annars gengur þetta bara nokkuð vel. Ef ég þarf að taka símtöl fer ég bara í önnur rými eða út ef það eru mikil læti.“

Eru börnin einnig að vinna á heimaskrifstofunni? „Já. Við eigum samtals fjögur börn og þrjú þeirra eru hér aðra hverja viku. Hins vegar eru þau lítið í skólanum þessa dagana og eru því mikið að koma hina vikuna líka sem er nú bara gaman. Svo er yngsta barnið okkar, sem er eins árs, hjá dagmömmum en mikið hefur verið um veikindi í vetur þannig að hún er búin að vera mikið heima líka.“

Viktoría segir að sér líði bara vel þessa dagana.

„Vissulega eru þetta furðulegar og kvíðvænlegar aðstæður en þær kenna manni að meta betur hvað maður hefur það gott. Maður hlýðir bara Víði og heldur sig heima enda treysti ég þessu þríeyki svo vel að ég væri til í að fá þau til að sjá bara um líf mitt almennt og taka erfiðar ákvarðanir fyrir mig.“

Viss um að þolinmæði kemur manni langt

Ertu með gott ráð fyrir þá sem eru að vinna heima með fullt af börnum?

„Ég er rosa léleg í uppeldisráðum en held að þolinmæði komi manni langt og að hafa ekki of miklar væntingar. Það þarf ekki allt að vera hreint og fínt og stundum eru börnin óþolandi og maður sjálfur líka en þannig er það bara í mikilli samveru. Það er um að gera að reyna að vera slakur og njóta þess bara að vera saman. Við erum alltaf á þönum en núna hefur hægst um hjá mörgum og það er gott að reyna sjá það góða í því og muna að þetta er tímabundið ástand.“

Hvernig gerir þú hlutina? „Ég vakna snemma alla morgna við mannlegu vekjaraklukkuna á heimilinu, helli upp á kaffi, fer í sturtu og byrja daginn við skrifborðið heima. Stundum fer ég í tökur, annars heldur maður sig heima bara mestallan daginn. Við reynum að passa að allir hreyfi sig eitthvað, fari aðeins út og þess á milli vinni þau verkefni sem þarf að vinna. Síðan er líka mikilvægt að reyna að hætta í vinnunni þegar vinnudegi lýkur en ef ég kem litlu í verk yfir daginn er samt líka gott að hafa kost á því að geta notað kvöldin til að vinna.“

Er eitthvað sem þú gerir bara fyrir þig yfir daginn? „Ég reyni að passa mig að fara í göngutúr einhvern tímann yfir daginn til að fá smá súrefni.“

Bose heyrnartólin koma henni langt.
Bose heyrnartólin koma henni langt. mbl.is/Árni Sæberg

Reyna að halda sig sem mest heima

Er eitthvað sem þú forðast að gera í dag?

„Já, eiginlega flestallt. Við hittum enga nema bara okkur fjölskylduna og förum ekkert í heimsóknir. Við reynum bara að halda okkur sem mest heima enda held ég að það sé mjög mikilvægt. Ég þarf eðli málsins vegna stundum að fara út í tökur að taka viðtöl en þá fylgjum við ýtrustu öryggisreglum og pössum að halda tveggja metra fjarlægð við viðmælendur. Ástandið setur okkur vissulega skorður við efnisöflun þegar maður er að vinna efni fyrir sjónvarp en þá er um að gera að reyna að hugsa út fyrir boxið og finna nýjar lausnir. Þannig spratt einmitt upp hugmyndin að Heimalandanum, sem er nýr dagskrárliður í Landanum þar sem við óskum eftir að fólk sendi okkur myndbönd af því sem það er að gera til að stytta sér stundir í samkomubanninu og bestu myndböndin enda svo í Landanum. Þannig náum við að „hitta“ fleira fólk án þess að hitta það og fáum að sjá hvað fólk er að gera á þessum skrýtnu tímum.“

Nærðu að halda þér sæmilega til eða ertu á náttfötunum eins og svo margir aðrir?

„Ég passa mig nú að klæða mig á hverjum morgni en er mikið að vinna með þægilegan fatnað. Jogginggalli og ullarsokkar eru mikið notaðir þessa dagana.“

Geturðu fundið eitthvað fallegt sem hefur komið út úr öllu því sem er að gerast þessa dagana?

„Mér finnst meiri samkennd í samfélaginu. Fólk er meðvitaðra um náungann og að það séu margir sem eiga um sárt að binda á þessum erfiðu tímum. Ég held að þetta eigi líka eftir að hægja aðeins á hraðanum í samfélaginu. Takturinn var orðinn dálítið hraður hjá mörgum og kannski færir þetta okkur nær því að sjá hvað það er sem skiptir máli.“

Er nauðsynlegt að eiga skemmtilegan maka á tímum sem þessum?

„Ég myndi segja að það væri mjög mikilvægt. Ég hugsa að þetta sé alveg alversti tíminn til að eiga leiðinlegan maka. Ég slepp sem betur fer við það enda heppin að eiga mjög skemmtilegan maka sem er aldrei leiðinlegt að vera með.“

Viktoría og Sóli eiga samtals fjörgur börn.
Viktoría og Sóli eiga samtals fjörgur börn. mbl.is/Árni Sæberg

Stórkostleg tilfinning að leiðast um stund

Hvernig hafið þið gaman saman?

„Við fáum okkur góðan mat og horfum á eitthvað skemmtilegt, eins og til dæmis tónleikana hjá Helga okkar Björns. Síðustu helgi fengum við okkur góðan mat og hlustuðum á tónleikana með nokkrum vinum okkar á Facetime. Þetta endaði svo í #heimameðHólm þar sem Sóli tók nokkur lög á píanóið og við sungum öll með.“

Hvað viltu segja við landsmenn sem eru margir hverjir að reyna að ná utan um hlutina á skrifstofunni með ys og þys í kringum sig?

„Bara slaka aðeins á. Mér finnst eins og sumum finnist þeir þurfa vera að afreka svo mikið í þessu samkomubanni að það verður yfirþyrmandi. Við erum svo ýkt að allir ætla hreyfa sig rosa mikið, gera jóga í stofunni, mála eldhúsið, baka og elda allt sem þeir geta, kenna börnunum og klippa sig sjálf. Eigum við ekki bara aðeins að slaka og reyna að muna hvernig það er að leiðast í smástund. Það er alveg stórkostleg tilfinning sem örugglega flestir eru búnir að gleyma.“

Hvaða manneskju langar þig að skoða heimaskrifstofuna hjá næst?

„Ég myndi vilja skora á vinkonu mína Þórhildi Ólafsdóttur að sýna sína heimaskrifstofu.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.890 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »

Stöndum saman

Við hjá Árvakri viljum vekja athygli á því sem vel er gert á þessum erfiðu tímum. Ef þú ert með góða sögu af fyrirtækjum og einstaklingum sem eru að gera gott, sendu okkur ábendingu á netfangið [email protected].

Stöndum saman