„Ég átti að vera best í öllu en ég var ekki best í öllu“

Vigdís Finnbogadóttir ásamt dóttur sinni Ástríði Magnúsdóttur.
Vigdís Finnbogadóttir ásamt dóttur sinni Ástríði Magnúsdóttur.

Vigdís Finnbogadóttir, fyrrverandi forseti Íslands, fagnar 90 ára afmæli í dag. Af því tilefni hefur bókin Ein á forsetavakt: Dagur í lífi Vigdísar Finnbogadóttur verið endurútgefin. Steinunn Sigurðardóttir skáld og rithöfundur skrifaði bókina sem kom út 1988 og var bókin ein sú söluhæsta það árið. Iðunn gefur út bókina og er tilefnið tvíþætt, annars vegar 90 ára afmælið og hins vegar verða 40 ár í sumar frá því Vigdís var kjörin forseti Íslands. Í tilefni af afmælinu birtir Smartland Mörtu Maríu einn kafla úr bókinni:

Sunnudagur í maí 1988

Ein af skemmtilegum hefðum sem myndast hafa á Bessastöðum í tíð Vigdísar forseta er hádegisverðarboð að vorlagi, eingöngu fyrir konur. „Þetta byrjaði fyrir nokkrum árum og við vorum tiltölulega fáar. Svo hefur það þróast þannig að núna erum við orðnar fjörutíu. Ég sendi út boðskort með einni skáldlegri línu. Núna var það tilvitnunin: Vorið tánum tyllir tindana á. Það verða allar dömur glaðar að fá svona vorboð.“

Þessi sunnudagur var enginn hvíldardagur fyrir forsetann, því að hún þurfti einnig að búa sig undir Ameríkuferð sem átti að hefjast örfáum dögum seinna. Slíkar ferðir krefjast mikils undirbúnings sem felst ekki síst í því að skrifa ræður og getur kostað vinnu fram á nætur.

Eitt af mörgu sem þarf að huga að fyrir heimsókn til útlanda er klæðnaður. Það þarf að ákveða hvaða föt eiga heima í farteskinu og gæta þess að þau séu í lagi. Vigdís byrjaði morguninn á því að fara í gegnum klæðaskápinn og setti til hliðar flíkur sem þurfti að lagfæra eða hreinsa. Á meðan stóð Ástríður yfir móður sinni og notaði hana fyrir danska orðabók, því hún var að lesa undir próf. Það er svo með forseta Íslands að hún er ekki aðeins forseti, heldur einnig uppalandi og húsmóðir, þótt þjóðin sjái lítið af henni í síðarnefndu hlutverkunum. Uppeldismál eru henni hugleikin og hún hefur sótt námskeið um samskipti foreldra og barna.

„Ég spauga stundum með það að ég hafi lifað undir tvöföldum járnhæl. Ég er sjálf alin upp í járnaga og síðan er kynslóðin sem ég el upp þannig að hún setur foreldra sína undir járnhæl. Móðir mín var afar kröfuhörð og mjög sterkur persónuleiki. Það var mikið aðhald í mínum foreldrahúsum og Þorvaldur bróðir minn sætti sig verr við það en ég. Jafnhliða þessu aðhaldi vorum við systkinin alin upp við mjög mikið ástríki og kærleika. Við vorum óskabörn, því að foreldrar mínir voru nokkuð fullorðnir þegar ég fæddist og þau höfðu þá verið gift í fjögur ár.

Mér finnst ég sjá skýrt að það sem er gott og jákvætt í mér varð til fyrir þá miklu ást sem ég varð aðnjótandi í uppeldinu. Og ég held að þessi alltumvefjandi kærleikur hafi gert okkur systkinin að alminlegum manneskjum.

Sigríður Eiríksdóttir með börnum sínum Vigdísi og Þorvaldi, fjögurra og …
Sigríður Eiríksdóttir með börnum sínum Vigdísi og Þorvaldi, fjögurra og tveggja ára. Myndin er tekin í Hvalfirði árið 1934.

Hins vegar var ég ekki alltaf sammála verðmætamati foreldra minna og þess vegna kom ég ekki til móts við allar kröfur sem voru gerðar til mín. Ég giftist áður en ég lauk námi og flosnaði upp úr háskóla um tíma.

Ég fór frá Frakklandi og fylgdi manninum mínum, miklum ágætismanni, til Danmerkur og Svíþjóðar. Hann var við nám í þessum löndum og ég fór sjálf í skóla þar. Það hefur verið mér ómetanlegt í embættinu að kunna Norðurlandamál og þekkja vel til á Norðurlöndum. Mér verður stundum hugsað til þess að það er eins og margt úr minni lífsreynslu hafi verið smíðað fyrir þetta starf. Mitt mesta lán hefur einmitt verið það að hafa tök á tungumálum.

Faðir minn og móðir voru bæði menntuð í Danmörku og því mótuð af danskri borgarastétt. Þau voru afskaplega traust, heiðarleg og góð við alla. Þau voru laus við allt stærilæti en faðir minn var kannski svolítið eins og fjarlægur öðrum en sínum nánustu.

Sigríður Eiríksdóttir, Finnbogi Rútur Þorvaldsson og Vigdís Finnbogadóttir, þegar afhjúpaður …
Sigríður Eiríksdóttir, Finnbogi Rútur Þorvaldsson og Vigdís Finnbogadóttir, þegar afhjúpaður var veggskjöldur í skrifstofu Verkfræðingafélags Íslands í tilefni af sjötugsafmæli hans árið 1961.

Mér fannst, eins og títt er um unglinga, að foreldrar mínir væru allt of metnaðarfullir fyrir mína hönd. Ég átti að vera best í öllu en ég var ekki best í öllu. Að nokkru leyti fór ég mínar eigin leiðir, en ég var samt góða dóttirin og það var mjög náið samband á milli. Þegar ég var erlendis skrifaði ég ekki sjaldnar en einu sinni í viku og ég fékk tvö bréf á viku frá mömmu sem hafði orð fyrir þeim báðum í bréfunum.

Þegar Ástríður var lítil sagði móðir mín nokkuð sem ég gleymi ekki. Hún sagðist sjá eftir að hafa ekki uppgötvað það fyrr en ég benti henni á það um síðir að foreldrarnir eiga ekki börnin, heldur eiga þau foreldrana. Samt fannst henni ég vera of eftirgefanleg við Ástríði og það kann að vera satt. En það er líka vandi að ala upp barn þegar annríkið er eins mikið og verið hefur hjá mér. Ástríður segir stundum að ég sé aldrei heima en það er langt frá því að vera rétt. Ég er reyndar næstum alltaf heima á kvöldin en þá vilja ungar manneskjur oft skreppa af bæ.

Núna dettur mér stundum í hug að ég lifi við ofríki, því að æskan gerir svo miklar frelsiskröfur að hún fer ekkert eftir nótum okkar foreldranna. Umburðarlyndi okkar Íslendinga, sem við ruglum saman við ást, er allt of mikið. Mér finnst það satt að segja eitthvert stærsta markmiðið í mannlífinu að agi og frelsi haldist í hendur.

Svo er það líka þannig að sú einlæga ást sem barnið eða unglingurinn finnur streyma frá foreldri sínu verður til þess að barnið gengur á lagið. Ég vil að frelsið sé sem mest en mér finnst samt að unglingarnir heimti einum of mikið af því. Til dæmis er ég alveg á móti því að þau hangi niðri í bæ fram eftir öllum nóttum, eins og þau gera stundum þegar ellefubíó er búið. Mér finnst að þau ættu að fara heim í stað þess að ráfa um miðbæinn. Þau sem ég þekki eru ekki í brennivíni eða eiturlyfjum eða neinu slíku. En þau eru að góna á einhverja aðra sem eru undir áhrifum og haga sér illa á ýmsan hátt, jafnvel með því að stunda þessi annáluðu skemmdarverk eins og að brjóta glugga, skemma símaklefa, traðka niður blóm og tré. Á sunnudagsmorgnum er miðborgin orðin að svínastíu. Þetta er nokkuð sem þekkist hvergi í hinum siðmenntaða heimi.

Svo færi ég þetta í tal við aðra foreldra og spyr: Finnst ykkur þetta ekki hræðilegt droll á þeim fram eftir öllum nóttum á föstudögum og laugardögum? Jújú, segir þá fólkið. En þau eru ekki í neinni spillingu. Mér finnst fráleitt að tala eins og það eigi að þakka þeim sérstaklega fyrir að vera ekki í neinni spillingu.

Ég forðast það eins og heitan eldinn að fá dóttur mína upp á móti mér, því að unglingur í uppreisn hugsar ekki nema klukkutíma fram í tímann. Hann getur orðið svo yfir sig reiður að hann ákveði að hefna sín og koma kannski ekkert heim alla nóttina, svo maður verði nú reglulega hræddur. Þeir foreldrar eru til sem segja við unglingana sína að ef þau hlýði ekki, þá geti þau bara átt sig. Það er í mínum augum algjört ábyrgðarleysi að tala þannig.

En ég vildi gefa mikið til þess að það væri hægt að breyta hugsunarhættinum á Íslandi. Mér finnst umburðarlyndið sem sagt ganga út í öfgar á svo mörgum sviðum, ekki síst í ástamálum. Það er með ástina eins og frelsið að þar verður líka að vera agi. Þetta agalausa frelsi verður til þess að ástin er ekki annað en stundargaman og eyðileggur möguleikana á raunverulegri ást. Mér finnst að unglingar eigi að hugsa sig mjög vel um áður en þeir fara að sofa saman, því að þetta stór ákvörðun sem hefur áhrif á allt þeirra líf.

Mér finnst líka að unglingar hugsi allt of mikið um efnaleg gæði. Ég sé ekki betur en þau séu fatasjúk og ákaflega upptekin af léttvægu dóti. Þá dettur mér í hug að stelpan mín saumaði stundum á sig sjálf, af því henni fannst hún ekki fá nóg af fötum hjá mér. Hún spurði kannski hvort hún mætti ekki fara í Vogue að kaupa sér efni og bætti við að það yrði ekki dýrt. Svo fór hún í Vogue og keypti fyrir 250 krónur og saumavélin var sett á borðið. Sjálf kann ég ekki að sauma.“

Á síðari árum hafa þær mæðgur átt annað heimili á Aragötu. Vigdís segir að það hafi varla verið hægt að ala Ástríði upp á Bessastöðum, því að nútíminn sé þannig. Hún bætir við að henni finnist stundum að það sé með hana eins og sveitafólk sem fylgir börnunum sínum og flyst til borgarinnar til þess að koma þeim til mennta.

Systkinin Vigdís og Þorvaldur, þegar hún var níu ára og …
Systkinin Vigdís og Þorvaldur, þegar hún var níu ára og hann sjö ára.

Nú er hárgreiðsludaman komin til þess að greiða Vigdísi. Á meðan það fer fram situr hún við tölvuna og tekur saman punkta í spjall sem hún ætlar að flytja. Þær eru orðnar samæfðar við þessa iðju og forsetinn getur jafnvel látið eftir sér að blaða í bókum á meðan. Í fyrstu sat hún auðum höndum en fann svo þessa leið, því að henni blöskraði tíminn sem fór í hárgreiðslu og snyrtingu. Margrét Thatcher, forsætisráðherra Bretlands, notar hins vegar tímann sem hún er í hárþurrkunni til að lesa skýrslur og strikar þá undir með eldingarhraða.

Að þessum morgunverkum loknum ók forseti niður í miðbæ, í verslunina Íslenskan heimilisiðnað, því þar vissi hún af nýrri andasendingu. Hér er nánar tiltekið átt við útskornar og málaðar endur eins og þær sem hún skreytir borðin á Bessastöðum með að vor- og sumarlagi. Henni finnst sjálfsagt að fara í svona snatt sjálf, þótt það kunni að koma ýmsum spánskt fyrir sjónir.

Bærinn var alveg tómur klukkan tíu, fyrir utan einstöku útlendinga. Til dæmis var talsvert af Svíum á ferð sem tóku ofan fyrir Vigdísi. Svíar höfðu þá rifjað upp kynni sín af henni, því hún hafði nýlega verið í sjónvarpi þar.

Síðan ók forseti til Bessastaða á þessum yndislega maímorgni, í fimmtán stiga hita, sem varla eru mörg fordæmi fyrir í íslenskri veðurfarssögu á þeim árstíma.

Hún tók á móti þremur gestum um ellefuleytið. Þeir voru úr vinafjölskyldu forseta, faðir með tvo unga syni. Annar hafði aldrei komið á Bessastaði en hafði spurt fyrir skömmu, þegar hann hitti forsetann, hvort hann mætti ekki koma í heimsókn. Þá bauð forseti strákunum báðum og föður þeirra að koma klukkan ellefu. Móður þeirra og ömmu var boðið í hádegismatinn á eftir.

Piltarnir færðu forsetanum tvær bleikar rósir af stærstu sort. Og skrifuðu svo nöfnin sín í gestabókina undir yfirskriftinni „Morgunvísit“. Forseti hafði ákveðið að sýna þeim fornleifauppgröftinn á staðnum, nokkuð sem þeir mundu aldrei gleyma. Uppgröfturinn hófst þannig að skipta átti um gólf í Bessastaðastofu, sem hafði sigið mjög, og þá var komið niður á mannvistarleifar. Úr þessu varð fornleifarannsókn sem stóð yfir frá því í mars þar til í september 1987, undir stjórn Guðmundar Ólafssonar fornleifafræðings.

Það er gengið úr litlu herbergi inn af eldhúsi niður í dimm moldargöngin. Þarna hefur konungsgarður verið grafinn upp, því að hér bjuggu æðstu embættismenn Danakonungs á Íslandi öldum saman. Yngri drengnum finnst nú samt ekkert konunglegt við þessi göng og hefur við orð að þarna sé ekki glæsilegt um að litast. Við erum undir Bessastaðastofu sem byrjað var að byggja árið 1761. Það tók tvö ár að hlaða undirstöðurnar, enda ná þær fimm metra niður og eru metri á þykkt.

Guðmundur Jónsson, umsjónarmaður viðgerðanna á Bessastöðum, er leiðsögumaður okkar um göngin. Hann hefur mikla reynslu af endurbótum á gömlum húsum, því að hann sá meðal annars um að endurbyggja Dómkirkjuna og tók þátt í að gera við Viðeyjarstofu.

Merkustu byggingarleifarnar þarna í neðra eru frá sautjándu öld. Þetta er hluti af gólfi og veggjum landfógetabústaðarins sem þar stóð. Þetta hús var úr bindingsverki, sem var óvenjulegt á Íslandi, og er átt við trégrind sem hlaðið er í með múrsteini. Sumir veggirnir ná niður á tveggja til þriggja metra dýpi. Þessar rústir eru rúmlega einum metra undir stofugólfi Bessastaðastofu. Þá sést í hornið á enn eldri byggingum á tveggja metra dýpi en þær hverfa út undir norðurgafl Bessastaðastofu og halda þar áfram. Reyndar er mest af uppgreftrinum utan við Bessastaðastofu. Fyrir framan hana fundust meðal annars leifar af stóru og vænu timburhúsi frá sautjándu öld, kennt við amtmanninn sem lét reisa það og kallað Pros Mundts stofa. Hér komu menn einnig niður á veggi húss sem var reist tæplega einni öld síðar, fyrir tilstuðlan Rabens stiftamtmanns.

Þegar fram í sækir er ráðgert að opna almenningi aðgang að þeim hluta mannvistarleifanna sem eru undir Bessastaðastofu. Í rannsókninni fundu fornleifafræðingar líka mikið af alls konar munum og þótti einna mestur fengur í litlum beinkarli. Hann er útskorinn, í embættisklæðum samkvæmt tísku átjándu aldar, og gæti hafa verið taflmaður eða leikfang. Einnig fundust þarna elstu lyfjaglös á landinu. Þau munu vera úr fyrsta apóteki á Íslandi, frá því í tíð Bjarna Pálssonar landlæknis. Hann bjó á Bessastöðum í þrjú ár, meðan verið var að reisa embættisbústað hans, Nesstofu á Seltjarnarnesi.

Bessastaðahús voru orðin afar hrörleg þegar núverandi Bessastaðastofa var reist, og bjó Skúli fógeti síðast í þeim. Eitt með öðru merku sem hefur gerst hér er að líkindum það að lögð hafa verið á ráð um Innréttingarnar. Flestir Íslendingar hugsa einkum til Bessastaða sem bústaðar forsetans en staðurinn er sögufrægari, bæði til ills og góðs, en menn gera sér almennt grein fyrir.

Starfsmenn Þjóðminjasafns hafa komið fyrir rakamæli í göngunum. Það er nauðsynlegt að fylgjast með, því að sveppur myndast auðveldlega niðri í hinum raka og salta jarðvegi. Jafnvel er hætt við að mannvistarleifarnar, sem eru mjög heillegar, geti skemmst ef ekki er haldið nákvæmu hita- og rakastigi.

Uppgreftri á Bessastöðum var fram haldið um hríð haustið 1988 og þá komu í ljós allra elstu byggingarleifarnar, sem eru taldar útihús frá elleftu öld. Íbúðarhúsin frá sama tíma hafa hins vegar ekki fundist svo óyggjandi sé. Af einstökum hlutum sem fundust í þetta skipti þykir fornleifafræðingum mest til um elstu skó á Íslandi, sem eru sennilega frá elleftu öld. Annar þeirra er venjulegur sauðskinnsskór sem eigandinn hefur hent gatslitnum, en hinn er tískuskór úr leðri sem einhver heldri kona hefur spókað sig í.

Fornleifarannsóknirnar á Bessastöðum fara eingöngu fram á þeim stöðum þar sem framkvæmdir eru og miðast alfarið við það að bjarga mannvistarleifum. Verkefnið er erfitt, því svæðið er stórt og þarf að grafa niður á þriggja metra dýpi.

Það er undarlegt að standa fyrir innan eldhúsið í forsetabústaðnum og vera svo kominn undir húsið eins og hendi sé veifað, í moldargöng sem liggja milli ýmissa tegunda af veggjum húsa sem eitt sinn stóðu á þessum fræga stað. Og á steinlögðum gólfunum sem grafin hafa verið upp gengu söguhetjur, allt frá landsfrægum afturgöngum eins og Appolloniu Schwartzkopf til valinkunnra skálda eins og Jónasar Hallgrímssonar og Gríms Thomsens. En í dag stöndum við undir gólfum og hlustum á fótatak starfsfólks sem er á þönum að undirbúa hádegisverðarboð.

Vigdís forseti við fornleifauppgröftinn á Bessastöðum vorið 1987. Guðmundur Ólafsson …
Vigdís forseti við fornleifauppgröftinn á Bessastöðum vorið 1987. Guðmundur Ólafsson fornleifafræðingur er lengst til vinstri og Guðmundur Jónsson, umsjónarmaður viðgerðanna á Bessastöðum, við hlið hans.

Í Thomsenstofu talar forsetinn meira við morgungestina sína. Þeir skoða myndir af Vigdísi forseta og páfanum, og myndir af konungum og drottningum í Evrópu með eiginhandaráritun. Það er siður eftir heimsóknir að skiptast á slíkum myndum.

Í þessari stofu hefur nú skipt um tækjabúnað síðan Grímur skáld og þáverandi eigandi Bessastaða sat þar með fjöðurstaf og blekbyttu, og líka síðan Kristján Eldjárn forseti var að störfum með sjálfblekung og ritvél, því nú er þar voldug IBM tölva í eigu Vigdísar forseta. Hún ræðir við föður drengjanna um leysiprentara, muninn á IBM og Apple Macintosh, sem hún notar reyndar meira og hefur á Aragötu.

Um morguninn hafa forseta borist blóm og gjafir frá gestum sem koma í hádegismat. Hún hugar að því ásamt Halldóru Pálsdóttur að allt sé á sínum stað og margfærir til skreytingu með sankti-pálíum sem einn gestanna hefur útbúið, og setur svo meðfylgjandi kort á sinn stað hjá. Og hættir ekki fyrr en staðsetningin er fullkomin. Starf Halldóru er það sem á dönsku heitir „stuepige“ eða stofustúlka og hún er líka aðstoðarráðskona.

Í eldhúsinu eru Hilmar B. Jónsson matreiðslumeistari og Sigrún Pétursdóttir, sem verið hefur aðalráðskona á Bessastöðum í tíð tveggja forseta, önnum kafin að útbúa matinn handa konunum fjörutíu. Þau hafa sett stóran súpupott í ísvatn í vaskinum, því að fyrsti réttur er gazpacho, köld sumarsúpa upp á spænskan máta. Forseti og matreiðslumeistari koma yfirleitt saman með hálfs mánaðar fyrirvara til þess að ákveða matseðil í veislum á Bessastöðum, og stundum fyrr.

Vigdís forseti reynir alltaf að vera komin heim á Bessastaði góðri stund áður en veislur og móttökur hefjast, til þess að „sjá um að allt sé í lagi, sjá til þess að allt verði eins og ég vil hafa það. Kannski má segja að ég þurfi ekki að hafa þetta svo en samt finnst mér mjög mikilvægt að hafa yfirsýn yfir aðstæðurnar. Ég þarf til dæmis að vita hvernig allt á að fara fram þegar matur er borinn inn í kvöldverðarboðum. Ef ég kem seint heim á Bessastaði og rétt hef tíma til þess að skipta um föt, þá veit ég ekki hvernig allt á að vera og þá er viðbúið að eitthvað gerist sem ég er ekki nógu ánægð með. Stundum hefur mér líkað illa að hafa ekki haft tíma til að fara yfir eitthvað, til dæmis blómin. Ég vil alltaf líta yfir þau með röntgenaugum áður en gestirnir koma.

Ég velti mikið fyrir mér smáatriðum, kannski af því að ég er svo ærukær. Ég geri alltaf ráð fyrir því að aðrir sjái það sem ég sé, þótt ég viti auðvitað að heima hjá manni sjá aðrir ekki allt sem maður sér sjálfur“.

Framreiðslukonur eru mættar og búið er að leggja á borð inni í móttökusal. Þar eru fimm fagurlega skreytt borð með blómum og öndunum góðu. Og á borðum eru „dúkarnir hennar mömmu“ sem Sigríður Eiríksdóttir saumaði listilega út. Á vel völdum stöðum í salnum eru svo afar fallegar stórar blómaskreytingar, liljur í ljósfjólubláu og hvítu sem Snorri Jóhannsson bílstjóri hefur útbúið.

Hann var einnig bílstjóri í tíð fyrri forseta en hæfileikar hans á þessu sviði voru ekki uppgötvaðir fyrr en Vigdís tók við. Hún hugsaði sjálf um blómaskreytingar í fyrstu, enda hafði hún lært um þá list af móður sinni sem notaði til þeirra hvað sem var úr flóru Íslands, jafnt fífu og hvönn. Það kom svo í ljós að Snorri var mjög laginn við blómin og nú orðið gerir forsetinn ekki annað en fara yfir skreytingarnar þegar þær eru tilbúnar. Það er mikið hagræði og sparnaður að hafa mann á staðnum sem sér um þetta atriði. Hann segist yfirleitt reyna að útbúa skreytingar daginn fyrir veislur, því að blómin þurfi að opna sig. Þetta er tímafrek iðja, getur tekið heilan dag að setja skreytingarnar saman. Á sumrin eru blóm úr haganum uppistaðan. Sést hefur til forseta Íslands að tína þau í Vatnsmýrinni.

Nú eru rétt um tíu mínútur þangað til veislan á að hefjast. Það er hugað að því að breyta staðsetningu á vatnslitamynd sem forseti hefur nýlega fengið að gjöf, og hún er sett hærra á vegginn. Forseti segist þurfa að „skúra sig“, hleypur upp á loft og lagar hárið með krullujárni á mettíma. „Þetta er allt farið út í veður og vind sem hún Stína gerði í morgun, því að ég er búin að vera svo mikið á fartinni síðan þá.“

Nú hringir uppi. Ég spyr hvort þetta sé leikhúshringing til marks um að veislan sé að hefjast en það er þá útidyrabjallan. Við hana er tengt sjónvarp. Forseti segir að aðalbrandarinn sé, ef það kæmi glæpon í dulargervi, að spyrja: Hvernig hattur er þetta sem þú ert með? Þá mundi hann væntanlega taka ofan, svo hægt væri að bera kennsl á hann. Svo hlær hún sínum bjarta og smitandi hlátri.

Þar með er hún rokin niður í eldhús. Hún er spurð hvort það eigi að bera púrtvínið fram í glösunum eða hvort það eigi að koma inn með flöskurnar og skenkja í salnum. Forseti segir að það sé betra; hún hafi skipt um skoðun síðan í gær. Nú kemur Halldóra, búin að hlaupa nokkra hringi, og spyr: „Hvar er forsetinn?“ Hún þurfti að vita hvort það ætti að kveikja á kertum. Forseti er snögg að taka ákvörðun og segir nei, það sé orðið of áliðið árs.

Halldóra hleypur aftur. Nú hefur borist stór blómvöndur með gulum rósum. Vigdís bíður eftir að það finnist réttur vasi undir þær. Hún horfir á úr borðstofu hvar Halldóra setur vöndinn og biður hana svo að ýta borðinu nær glugga. Kannski má segja að undirbúningur að svona veislu minni á undirbúning leiksýningar, því allt verður að vera á réttum stað og tipptopp á sviðinu. Og það er hluti af margbrotnu starfi forsetans að vera verkstjóri yfir starfsfólkinu, bæði á Bessastöðum og á skrifstofu.

Þá er forseta ekkert að vanbúnaði að fara fram og heilsa gestum. Hún er látlaus og glæsileg, í ljósum jerseykjól tvískiptum og í hvítum skóm með hælbandi. Hún heilsar gestarununni innilega og þakkar góðar gjafir. Svo er safnast saman í borðstofu en borðhaldið sjálft er í móttökusal vegna fjölda gestanna. Þetta eru konur á öllum aldri, þær elstu virðulegar með staf og þær yngstu með æskuroða á kinn. Reffilegar konur og veraldarvanar, samt misjafnlega framfærnar. Sumar tengjast embættinu á einn eða annan hátt eða eru vinkonur forseta, þó ekki endilega úr innsta hring. Aldursforseti í dag er Karen Guðmundsdóttir, frænka forsetans.

Það er borinn fram fordrykkur í uppháum kristalglösum. Brátt upphefst mikill kliður, gestir eru óþvingaðir í samtölum sínum, kannski vegna þess að hér eru bara konur. Reyndar segir Vigdís að sér hafi líka dottið í hug að hafa eitt boð á ári aðeins fyrir karlmenn.

Eftir nokkra stund hverfur hún í eldhús til að spyrja nánar um tímasetningu á matnum. Hún segir að það sé með hana eins og skátana: „Eitt sinn húsfreyja, ávallt húsfreyja. Mér finnst sjálfsagt að ég sé í því hlutverki. Og það er nú eins og það er, að ég verð að leika bæði karl- og kvenhlutverkið. Minn metnaður er auðvitað að heimilið sé í sem allra bestu lagi, eins og ég væri húsmóðir í fullu starfi. Ég yrði alveg skelfilega leið og mædd ef það dæmi hefði ekki gengið upp. Starfsfólkið og ég vinnum saman eins og einn maður en ég er kapteinninn á skútunni og það er ég sem á að standa fyrir boðinu. Starfsfólkið er farið að þekkja minn smekk og það metur hann. Því er annt um að ég sé ánægð og það þykir mér ákaflega vænt um.“

Forseti slær í glasið sitt þegar konurnar fjörutíu eru mikið búnar að skrafa og segir: „Vorkonur, hjartanlega velkomnar til Bessastaða.“ Hún býður þeim til borðs og segir að það sé auðvelt að finna sín sæti, því að frammi liggi blöð með nöfnum gesta og borðnúmerum. Hún bætir við: „Fylgið mér.“ Svo tekur hún undir höndina á öðrum sessunaut sínum og hersingin gengur inn í sal.

Þegar svolítið er liðið á máltíð skálar Vigdís við gestina. Halldóra gengur að hverju borði fyrir sig og býður gestum að skála við hana. Vigdís ávarpar svo gesti þegar aðalrétturinn, silungur með saffransósu, er að verða búinn. Hún vitnar í yndislegt ljóð eftir Jóhannes úr Kötlum:

Svo lifna blómin einn ljósan dag

og lóan kvakar í mónum.

Og fjallið roðnar af feginleik

og fikar sig upp úr snjónum.

Og börnin hlæja og hoppa út

með hörpudiskana sína.

– Og einn á skel yfir fjörð ég fer

að finna vinstúlku mína.

Forseti segir að farfuglinn sé kominn, vorboði á nesjum og inn til fjalla á Íslandi, og af því tilefni „vorboð“ á Bessastöðum.

„Ég hef verið að leita að því í heimildum að það væri orðað á íslensku að farfuglarnir væru komnir heim með vorinu en ekki fundið því stað. Ég tek mér því bessaleyfi hér á Bessastöðum að lýsa því yfir að þeir eru komnir heim. Hér er það sem þeir byggja sér bú og eignast afkvæmi. Þó svo þeir skreppi af bæ yfir vetrarmánuði, þá eiga þeir heima hér – eru farfuglar í útlöndum með vetursetu erlendis.

Eða er það ekki heilagur sannleikur að einmana skáld í útlöndum sendu kveðjur í anda, með fuglum ættjarðarinnar, norður á Frón og í því fólst auðvitað að fuglarnir ættu heima heima: „heilsaðu einkum, ef að fyrir ber, engil með húfu og rauðan skúf í peysu“.“

Vigdís forseti segir að bestu ljóð um vor og sumar hafi karlar ort til kvenna. Hún vitnar enn í Jóhannes úr Kötlum:

Það eitt er víst, að ég aldrei

augunum þínum gleymi,

er sástu sumarið koma

sunnan úr bláum geimi;

– svo fegin varstu, að mér fannst þú

fegursta konan í heimi.

Það er stemning og kátína við borðin fimm í salnum. Öðru hvoru brestur á með margrödduðum hlátrasköllum. Hér eru kvenmenn sannarlega glaðir á góðri stund. Það er engu líkara en unaðslegt maíveðrið hafi brotist inn á Bessastaði, alla leið inn í huga og hjörtu þeirra sem þar sitja saman og njóta lífsins við samtal, mat og drykk. Reyndar þarf ekki fágætlega gott vorveður til þess að gestir skemmti sér á forsetasetrinu, því að þar inni er jafnan góð stemning, sama í hvernig skapi veðurguðir eru. Um þetta talaði einmitt bændahöfðinginn Hjörtur Eldjárn á Tjörn, bróðir Kristjáns Eldjárns, í frábærlega skemmtilegri ræðu sem hann hélt í móttöku á Bessastöðum. Hann vitnaði í byrjun smásögu: „Það var sólríkt á Tindum. Væri ekki sól úti, þá var jafnan sól inni.“ Smám saman kemur svo í ljós að sólin inni er heimasætan á bænum. Hjörtur sagði að sama máli gegndi á Bessastöðum. Það skipti ekki máli hvernig veður væri úti, því inni fyrir væri alltaf sólskin. Það væri ekki aðeins vegna glæsilegra húsakynna, heldur einnig vegna Vigdísar forseta og viðmóts hennar.

Ein gestanna ávarpar nú forseta og játar í upphafi ræðu að hafa verið ein þeirra sem vildu í síðustu forsetakosningum að það væru hjón í þessu starfi. Hins vegar væri hún komin á þá skoðun núna að það væri alveg nóg að hafa einn forseta og það gerði ekkert til þótt forsetafrúna vantaði. Gestir klappa og gera góðan róm að þessum orðum.

Í kosningabaráttunni 1980 gerðu andstæðingar Vigdísar Finnbogadóttur mikið úr því að hún er ekki gift. En henni varð ekki svara fátt um það efni fremur en önnur. Einhvern tímann kallaði maður fram í hjá henni á framboðsfundi og sagði að það væri útilokað að vera ógiftur í þessu starfi, því það væri svo margt sem væri ekki hægt að segja neinum nema maka sínum. Þá svaraði hún að bragði: „Ég ætla að vona að forseta Íslands verði aldrei neitt það á sem hann getur engum sagt nema maka sínum.“

Svo líður að því að forseti stendur upp og býður konunum kaffi hvar sem þær kjósi að drekka það, úti á hlaði jafnvel ef þær vilji. Að vísu sé dálítið rok, það er að segja ekki „hárgreiðsluveður“. Sumar viðstaddra eru nú samt svo hugrakkar að þær hverfa út með hár fyrir vindi í hlýindunum og kaffikonur ganga um beina, bæði úti fyrir og inni við.

Eitt af því sem gestir heyrast tala um er smekkvísin á Bessastöðum, sama hvar á er litið. Fyrir utan allt annað sé Vigdís frábær húsmóðir, flott í sér og rausnarleg.

Vigdís kallar áður en langt um líður á matreiðslumeistara inn í sal, þakkar honum frammistöðuna og vekur athygli gesta á því að hann sé eini karlmaðurinn í húsinu. Að vísu má geta þess að karlmenn eru á vappi utandyra, því að húsa er vel gætt á Bessastöðum.

Veislugestir safnast svo fyrir í Thomsenstofu og dást að nýju portretti af Vigdísi forseta sem June Mendoza hefur málað. Hún er Englendingur og hefur málað frægt fólk í sínu landi og víðar. Hún setti sig í samband við forsetann sem féllst á að sitja fyrir hjá henni. Samstarf þeirra varð sögulegt því að daginn sem hún kom til Íslands datt hún „á eina hálkublettinum í Reykjavík“ og handleggsbrotnaði. Ekki lét hún það þó aftra sér frá ætlunarverkinu og málaði myndina með sinni brotnu hendi sem heilbrigða höndin bar uppi.

„Svo hún náði þessum svip,“ segir Sigríður Hagalín leikkona, ein þeirra sem skoða andlitsmyndina. Á þessari mynd kemur einmitt fram sérstakur andlitssvipur sem lýsir forsetanum. Hún er íhugul, kannski ekki laus við trega en samt er bjart yfir fallegu og mjúku andlitinu. Af því stafar fágætum persónuþroska og góðvild, jafnframt ástríðu og skaphita.

Annars er Vigdís forseti margslungin og ein mynd dugar skammt til þess að gera henni skil. Það er til dæmis erfitt að sýna þrek og dugnað á mynd en af þessu tvennu virðist hún endalaust birg og það er eins og hún sé aldrei þreytt. Hún kann ekki að hlífa sér og er tilbúin að hella sér einbeitt út í ný verkefni um leið og þau skjóta upp kollinum. Hún getur átt það til að fara fram á hið sama af öðrum. Hvort tveggja er til í henni, kröfuharka við aðra og mjög mikið umburðarlyndi. Til sjálfrar sín gerir hún svo miklar kröfur „að ég geng með veggjum ef mér finnst ekki allt vera í lagi. Hins vegar er ég yfirleitt umburðarlynd við annað fólk. Ætli ég sé ekki sjötíu prósent teygja. Hvað skoðanir snertir, þá er ég líka mjög sveigjanleg og ég endurmet þær um leið og ný viðhorf koma fram.

Ég er nú komin á þann aldur að ég þekki sjálfa mig og ég veit vel hvað er alminlegt í sjálfri mér og hvað ekki. Mér rennur stundum óskaplega í skap og ég get verið illskeytt. En ég hef lært að temja skap mitt og bíða eftir því að mér renni reiðin. Ég á nú ekki langt að sækja þetta, því að mamma var ákaflega ör í skapi og það gustaði af henni. Föðurfólkið mitt er ekki skaplaust heldur. Hitt er svo annað mál að ég er ákaflega sáttfús og er stundum alveg friðlaus þangað til ég næ sáttum.“

Forseti gengur út á hlað í góða veðrinu og ætlar að vekja athygli kvenna á sjaldséðum gesti í túninu heima. Það er margæsin sem áir um stund á vori hverju í landareign Bessastaða, á leið sinni í sumarbúðir á Grænlandi eða Kanada. Nú ber hins vegar svo við að gæsin sést ekki í bili og Vigdís forseti getur sér þess til að hún hafi þá farið að dæmi gestanna og skroppið í „löns“.

Klukkan er farin að halla í fjögur þegar gestir kveðja. Fyrsti hópur snýr reyndar við með bros á vör og kveðst ekki komast út, heldur vera læstur inni á sjálfum Bessastöðum. Þessi uppákoma vekur kátínu en fljótlega er ráðin bót, því að Halldóra kemur og opnar. Öryggiskerfið sér nefnilega fyrir því að enginn fer óboðinn úr húsi.

Nokkrar konur verða að lokum eftir og bíða þess að verða sóttar, þar á meðal Karen, hin höfðinglega frænka Vigdísar forseta. Þær eru nánar tiltekið systkinabörn, því að Karen er dóttir Guðmundar Eiríkss, móðurbróður forsetans. Hann var svo glæsilegur að hann var kallaður Guðmundur greifi. Um hann hefur verið sagt að hann hafi verið ógleymanlegur hverjum þeim sem hann heilsaði einu sinni og að í þessu minnti forseti á frænda sinn.

Systkinin Vigdís og Þorvaldur árið 1949.
Systkinin Vigdís og Þorvaldur árið 1949.

Talið berst að uppeldi unglinga og forseti segir söguna af því þegar „straffið gekk hringinn“, eins og hún orðaði það. Einhvern tímann þegar hún var sautján ára að fara á síðkjólaball í gamla Sjálfstæðishúsinu, „í breyttum kjól af mömmu svo ég gæti verið sem fínust“, þá stöðvaði móðir hennar hana og heimtaði að hún færi í sokka. Þá var dóttirin berfætt í háhæluðum sandölum, eins og dömurnar í bíó. Hún fór í sokkana en svo úr þeim aftur þegar hún var komin fram í anddyri. Um daginn sagðist hún hafa hugsað að þetta væri gott á sig, nú hefði straffið gengið hringinn þegar Ástríður neitaði að vera í sokkum. Þá voru þær á leið til útfarar Arndísar, föðursystur Vigdísar forseta. Hún sagðist hafa útskýrt fyrir Ástríði að það gengi ekki að vera berfættur í skónum við jarðarför og þar að auki yrði sér kennt um ef dóttir hennar væri ekki klædd á viðeigandi hátt.

Núna, þegar veislu er lokið, ætlar hún að ganga út í Bessastaðanes eins og hún gerir svo oft og huga að fuglum. Hún skiptir um föt þegar síðustu gestir eru farnir og fer í síðbuxur og útijakka, með áletruninni Vigdís á boðungnum. Hún er í grænum safariskóm og um hálsinn hefur hún kíki. Jakkann fékk hún að gjöf frá Finnlandi en hún segist ekki geta látið sjá sig í honum neins staðar, því hún kunni ekki við að spóka sig á almannafæri með nafnið sitt í barminum.

Forseti hefur það fyrir reglu að fara í gönguferðir á hverjum degi og henni tekst yfirleitt að koma því við, þrátt fyrir stöðugar annir. Hún er mjög viljug að hreyfa sig og meðvituð um holla lifnaðarhætti, ekki síst mataræði, enda er hún sérlega vel á sig komin.

„Það er algjör nauðsyn fyrir fólk á mínum aldri að hreyfa sig. Ég finn mér alltaf með einhverju móti tíma til þess, því ég lendi í vítahring ef ég vanræki það. Mér finnst ég komast upp með að bjóða sjálfri mér margt ef ég bara hreyfi mig. Mér finnst gaman að ganga með öðrum en stundum kýs ég heldur að vera ein.“

Við göngukonur erum svo heppnar að vera í friði, því ferðamannatíminn er ekki hafinn. Á sumrin er gífurleg umferð á Bessastöðum og allt að sex langferðabílar á dag koma með erlenda ferðamenn til þess að skoða Bessastaðakirkju. Stundum verða óþægindi af ágangi þeirra, því að þeir eiga til að gera sér lítið fyrir og leggjast á glugga í forsetabústaðnum. Kannski er þeim vorkunn þótt þeir gangi of langt til þess að reyna að sjá forsetann í eigin persónu, svo fræg sem hún er. Leiðsögumenn útlendra ferðamanna verða varir við mjög mikinn áhuga á henni og sífellt er verið að spyrja þá um hana.

Ástríður sæmir móður sína blómaorðunni árið 1980.
Ástríður sæmir móður sína blómaorðunni árið 1980.

Það er hlý gola sem leikur um okkur þennan yndislega maídag. Sólin skín en það er mistur í lofti, enda er hlýja loftið komið sunnan úr Evrópu með mengunarívafi. „Það verður ekki bæði sleppt og haldið,“ segir Vigdís forseti. „Nú haldast mistrið og hlýindin í hendur.“

Við tökum nú að svipast um eftir margæsinni sem var farin í mat þegar átti að hafa hana til sýnis. Þetta er sjaldséður fugl á Íslandi sem tyllir tánum á Bessastaðanes á vorin, á leið sinni frá Bretlandseyjum. Hann lítur líka við í bakaleið, á haustin. Latneska heitið á fuglinum er Branta bernicla og á ensku heitir hann brent goose.

„Hún er þarna í nesinu núna,“ segir Vigdís forseti og réttir mér sjónaukann. Þarna er hún þá í breiðum, þessi félagslynda gæs, sótsvört á höfði og bringu, drifhvít á afturenda og ljós á kvið. Flestar sem koma við hér á landi tylla sér á norðanvert Snæfellsnes og Mýrar en hluti af hópnum er svo útsjónarsamur að hafa viðdvöl í Bessastaðanesi „til þess að hressa sig við fyrir hjónabandið í Grænlandi“, upplýsir forsetinn mig. „Þetta er alveg upplagt, að ná sér í fæðu á svona stóru túni. En hún er ekki komin heim, hún er á leiðinni. Lóan finnst mér aftur á móti að sé komin heim.“

Fuglalífið á nesinu er einstakt og höfðar ekki síður til eyrna en augna, því hér er framin fjölbreytt hljómkviða, þótt sömu stefin séu endurtekin í síbylju. Við hlýðum á „tlúí“ og „dirrindí“, angurblítt biðilskvak lóunnar og tvísöng kynjanna hjá æðarfuglinum, þar sem blikinn syngur hljómþýtt „ú-hú“ og kollan argar „kor-r-r“.

Til vinstri handar er Bessastaðatjörn og Lambhúsatjörn á hægri hönd. Ekki að undra þótt fuglarnir sæki í þetta gósenland. Hér er öll aðstaða fyrsta flokks til hreiðurgerðar og íþróttaiðkana, hvort sem það er sund, hlaup eða böð, og allsnægtaborð á túninu. Á nesinu er ró og næði til að liggja á eggjum og klekja þeim út. Það er líka snertispölur til sjávar fyrir þær tegundir sem það kjósa. Reyndar er Lambhúsatjörn opin svo þar gætir flóðs og fjöru en Bessastaðatjörn er lokuð fyrir sjávarföllum.

Við göngum fram hjá skemmunni sem nú er notuð sem geymsla en var áður fjós og hlaða. Húsið er í lélegu ásigkomulagi en Bessastaðanefnd mun ráða bót á því eins og öðru sem þarf á staðnum. Nefndin var stofnuð síðla árs 1987 til þess að gera stórátak á Bessastöðum. Formaður hennar er Matthías Á. Mathiesen, fyrsti þingmaður Reykjaneskjördæmis. Mikill skriður er kominn á málið og vilji fyrir hendi, að sögn Kornelíusar Sigmundssonar forsetaritara. Veigamiklum þætti framkvæmdanna er lokið að mestu, það er endurbótum á neðri hæð Bessastaðastofu. Enn er eftir að gera við efri hæðina og svo viðbyggingar Bessastaðastofu, móttökusal, gróðurskála og bókhlöðu.

Eitt af stórum verkefnum á Bessastöðum er að snyrta og lagfæra allt umhverfi. Í því felst að lagfæra vegi, malbika og helluleggja, snyrta kanta og setja nýjar þökur, gera allt gras véltækt, og fylgja síðan eftir með garðyrkjuvinnu. Og með góðu áframhaldi verður allt orðið glansandi fínt á Bessastöðum eftir fjögur til fimm ár, ekki síst húsakostur sem orðið hefur útundan.

„Nú sést hún greinilega í túninu,“ segir Vigdís forseti og réttir mér sjónaukann snarlega. „Margæsin – það er hlussan þarna. Sjáðu, þegar hún teygir sig upp, þá er hún alveg óskaplega falleg.“

Það er ótrúleg viðbót við fagra náttúruna á Bessastöðum, frábært útsýnið og virðuleg húsin, að þar skuli einnig vera fuglaparadís. Það mun vera fátítt í heiminum ef ekki einsdæmi að fuglar eigi sér slíkar nýlendur í grennd við þéttbýlissvæði og telja sumir að Bessastaðanes ætti þess vegna að vera alfriðað.

Yst á nesinu er svokallaður Skans sem er virki síðan í Tyrkjaráninu á sautjándu öld. Höfuðsmaður á Bessastöðum lét reisa það til þess að verjast skipum Tyrkjanna. Á Skansinum var fallbyssa sem skotið var af á Tyrkjann. Fallbyssukúlur frá þeim tíma voru lengi til á Bessastöðum og meiraðsegja nýttar í friðsamlegum tilgangi upp úr aldamótum, sem farg í taurullu í búi Skúla og Theodóru Thoroddsen. Þess má geta að Óli skans í vísunum frægu er einmitt kenndur við Skansinn á Bessastaðanesi en hann var sonur hjóna sem áttu þar býli.

Þannig göngum við áfram út nesið í áttina að Skansinum, með útsýni yfir Skerjafjörð, til Reykjavíkur sem er mistri hulin eins og útlend borg. Vigdís forseti bregður kíkinum upp öðru hvoru og leyfir mér einnig að njóta góðs af. Það kemur upp úr dúrnum að þessi góði gripur er „verkfræðikíkirinn hans pabba. Vestmannaeyjahöfn var byggð með honum“, eins og hún orðar það. Sjálf segist hún halda mikið upp á þennan grip og hún bætir því við að hún gefi oft sjónauka í fermingargjöf.

Það kemur í ljós að Vigdís forseti er ekkert fyrir að henda hlutum og endurnýja að óþörfu. Hún klæðist á þessari gönguferð safariskóm, keyptum á Grænlandi fyrir aldarfjórðungi. „Þeir munu duga til æviloka. Sérðu botninn á þeim.“ Og satt er það, þetta eru traustir gripir með gúmmíbotni en úr striga að öðru leyti. Hér eru komnir skórnir sem hún notaði þegar hún var leiðsögumaður og fór með ferðamenn frá Íslandi til Grænlands. „Einu sinni björguðu þessir skór ítölskum manni sem var í lakkskóm á Grænlandsjökli.“ Hún bætir við: „Svo enduðu þeir á Bessastöðum.“

Vigdís forseti og Ástríður dóttir hennar 1. ágúst 1988, daginn …
Vigdís forseti og Ástríður dóttir hennar 1. ágúst 1988, daginn sem hún var sett í embætti þriðja sinni.

Sjálfsagt hefur það komið þessum skóm mjög á óvart að eigandi þeirra varð að lokum forseti og þeir hafa þá ekki verið einir um það. En sú persóna var til sem kom frami Vigdísar Finnbogadóttur ekki á óvart og það var spákonan Jósefína á Nauthól sem Einar Kárason rithöfundur hefur gert fræga sem Karolínu spákonu í skáldsögum sínum.

Leiðir þeirra Jósefínu og Vigdísar Finnbogadóttur lágu saman þegar hún var leikhússtjóri. Hún efndi einhvern tímann til fjölskylduboðs fyrir ættingja ráðskonunnar sem þá var á Aragötu og var skyld spákonunni. „Á ég ekki að slá í spil fyrir þig?“ sagði Jósefína í boðinu. Í spilunum runnu svo upp kóngar og sjöur. Jósefína sagði: „Lifandis ósköp áttu eftir að ferðast … og hitta kónga … og hitta kónga.“ Sú sem spáð var fyrir vildi þá vita hvort þetta væru einhverjir draumaprinsar. En þá sagði sú gamla: „Neineinei, góða mín, þetta eru alvörukóngar sem þú átt eftir að kynnast.“

Eitt af því sem við höfum útsýn yfir á gönguferð okkar um Álftanes er Gálgahraun, úfið og myrkt. Hraunið dregur nafn af því að þar voru menn teknir af lífi, í þrískiptum kletti sem kallast Gálgi. Hann blasir við frá Bessastöðum og sagt var að amtmaður vildi hafa gálgana þarna svo hann þyrfti ekki að fara úr húsi til að fylgjast með hengingum.

„Það er svo erfitt að hugsa til óhamingjunnar og þjáninganna á þessum löngu erfiðu öldum. Það má auðvitað ekki gleyma því að þá voru allt aðrar viðmiðanir. Menn voru þá reiðubúnir að láta miklu meira yfir sig ganga samkvæmt friðþægingarkenningum heldur en við mundum nokkurn tímann gera. Þeir héldu bara að þetta væri veröld hinna miklu písla og að svo kæmi sú tíð að þeir færu yfir í betri veröld, þar sem þeir fengju umbun fyrir að hafa þjáðst svona mikið á jörðu.“

Enn kemur forseti auga á markverðar hræringar hjá æðarfuglinum. „Eftir varpið þarf að fínkemba allt nesið og merkja við hreiðrin með pinnum. Þetta er eins og sauðburður. Það verður að fylgjast með öllu, meðal annars þarf að fæla burt vargfugl.

Svo er tekinn smádúnn undan eggjunum áður en ungarnir skríða út. Þegar fuglinn er farinn af hreiðrunum, og farinn með ungana niður á tjörn, þá göngum við frá hreiðrunum og tökum það sem eftir er af dúni. Þetta er eins og hver önnur búgrein og mikil vinna við hana ef það á að vera einhver afrakstur.“

Starfsfólk á Bessastöðum sér um æðarvarpið. Kristján Eldjárn forseti stússaði sjálfur heilmikið við það en Vigdís forseti lætur það ógert, því að hún segist vera svo lússækin að hún verði öll útbitin.

Þegar við komum aftur á Bessastaði er tiltekt eftir hádegisverðarboðið alveg að ljúka. Sigrún ráðskona innir forseta eftir nýjustu fréttum af fuglalífi. Svo spyr hún hana hvort hún vilji taka eitthvað matarkyns með sér í bæinn og nefnir nokkra valkosti úr frystikistunni.

Við Vigdís forseti erum skildar að skiptum í dag en dagurinn er ekki búinn hjá henni, því að von er á Þorbjörgu Hjörvarsdóttur til landsins. Hún hefur í mörg ár verið aðstoðarkona á ferðalögum og verður það einnig í Ameríkuferðinni sem stendur fyrir dyrum. Það er eins og endranær í starfi forsetans skammt stórra högga í milli. Hún lítur út fyrir að þola allt sem á hana er lagt ótrúlega vel, þótt sjálf segist hún „fara í kerfi út af öllum sköpuðum hlutum“. Og er hér komin ein þversögnin um Vigdísi Finnbogadóttur.

Til er smellin saga af henni og Birgi Möller, aldavini hennar og fyrrverandi forsetaritara. Einhvern tíma, undir gífurlegu álagi, sagði hún það sem annars heyrist ekki af hennar munni: „Ég kemst aldrei í gegnum þetta.“ En hann svaraði: „You asked for it, baby.“ („Þú kallaðir þetta yfir þig, gæskan.“)

Ein á forsetavakt: Dagur í lífi Vigdísar Finnbogadóttur kom út …
Ein á forsetavakt: Dagur í lífi Vigdísar Finnbogadóttur kom út í dag hjá Iðunni. Hægt er að kaupa hana á www.forlagid.is
mbl.is