Upplifði helvíti á jörð í daglegri neyslu

Tinna Aðalbjörnsdóttir var í daglegri neyslu fyrir tveimur árum.
Tinna Aðalbjörnsdóttir var í daglegri neyslu fyrir tveimur árum. mbl.is/Árni Sæberg

Tímarit Smartlands kom út í gær það Morgunblaðinu. Á forsíðunni er Tinna Aðalbjörnsdóttir sem margir þekkja úr heimi tískunnar og kvikmynda. Hún er einn af reyndustu prufuleikstjórum landsins og hefur stýrt fyrirsætukeppnum á borð við Eskimo og Elite til fjölda ára. Tinna hefur marga fjöruna sopið en hún mætti í meðferð í Hlaðgerðarkoti í hvítum pels sem var í engu samræmi við lífsstílinn.

Tinna ber það ekki með sér að hafa fyrir einungis tæpum tveimur árum verið í harðri daglegri neyslu fíkniefna. Hún er ein af þeim sem lýsa neyslunni eins og helvíti á jörðu. Bataganga hennar hefur verið í formi djúprar sjálfsvinnu, virðingar og kærleiks. Þegar hún mætti í
meðferð í Hlaðgerðarkot var hún eins og tískusýningardama frá París.

„Ég veiktist mikið fyrir nokkrum árum af alkóhólisma og hef á undanförnum árum verið að vinna mig út úr því. Af því þú spurðir mig í upphafi viðtalsins hver ég væri í dag, þá langaði mig að segja þér að ég er bara Tinna. Ösköp venjuleg stelpa sem ólst upp á fallegu heimili úti á landi. Ég ólst reyndar upp við alkóhólisma þar sem alkóhólistinn stjórnaði stundum með skapinu. Ég elska þennan einstakling og hef alltaf gert. Allt frá því ég var lítil hef ég samt verið hrædd. Ég var misnotuð fyrst þegar ég var þriggja ára að aldri af góðum vini fjölskyldunnar og þegar ég hugsa til baka um mig sem litla stelpu, þá sé ég að það hefur eitthvað brotnað inni í mér út af þessari misnotkun. Ég átti ekki sjálfsmynd og var alltaf kvíðin og óörugg. Ég sótti í viðurkenningu frá öðrum og vissi í raun ekki hver væri uppáhaldsliturinn minn þó ég hefði unnið sem stílisti í mörg ár.“

Reyndi að hengja sig með belti af Burberry-kápunni
Tinna kynntist sjálfri sér í gegnum andlegt ferðalag.
„Í lok neyslunnar reyndi ég að taka mitt eigið líf, en hætti við á síðustu stundu. Ég var komin út í garð á Sogaveginum þar sem ég bjó, var búin að vera í partíi í Burberry-kápunni minni og hafði tekið beltið af kápunni og var með snúru líka til að enda líf mitt.“

Hvað hugsar einstaklingur sem er kominn á þennan stað?
„Hann hugsar bara að hann langi ekki meir. Ég man ekki augnablikið nákvæmlega þegar ég missti lífsviljann, en ég held það hafi verið tveimur árum áður en ég ákvað að ljúka þessu. Á þessum tíma fannst mér lífið bara svo erfitt. Ég var knúin áfram af reiði. Ég hafði upplifað röð áfalla. Fyrst var það misnotkunin, síðan skildu mamma og pabbi þegar ég var þrettán ára.
Skilnaðurinn var áberandi í íslensku þjóðfélagi. Hann var kallaður kvótaskilnaðurinn og var settur á svið, meðal annars í áramótaskaupinu. Skilnaðurinn tætti mömmu mína mikið og svo fór pabbi að vera með mömmu bestu vinkvenna minna sem var mikil höfnun
fyrir mig. Að hann vildi þær frekar en okkur systkinin og mömmu. Mamma fékk taugaáfall í kjölfarið og ég flutti til systur minnar í borgina, sem var þá tvítug. Ég
fór fljótlega að drekka, en þá fékk ég rödd. Mér var síðan nauðgað af karlmanni og þá bara brast eitthvað innra með mér.“

mbl.is