Kobe gaf konu sinni bláa kjólinn úr The Notebook

Rachel McAdams lék á móti Ryan Gosling í The Notebook. …
Rachel McAdams lék á móti Ryan Gosling í The Notebook. Hér er hún í bláa kjólnum sem Kobe Bryant gaf konu sinni.

Vanessa Bryant, ekkja körfuboltakappans Kobe Bryant, talaði um bláa kjólinn úr kvikmyndinni The Notebook í minningarathöfn eiginmanns síns og dóttur í byrjun vikunnar. Kobe Bryant gaf eiginkonu sinni kjólinn en búningahönnuður myndarinnar, Karyn Wegner, segir í viðtali við The Hollywood Reporter að hún hefði ekki haft hugmynd um hver hefði keypt kjólinn. 

Leikkonan Rachel McAdams klæðist kjólnum í einu rómantískasta atriði myndarinnar. Er hún einnig í kjólnum á plakati myndarinnar. Vanessa Bryant lýsti Kobe Bryant sem rómantíska aðilanum í sambandinu.

„Hann skipulagði sérstakar brúðkaupsafmælisferðir og sérstakar gjafir venju samkvæmt á hverju ári í hjónabandi okkar. Hann gaf mér raunverulegu minnisbókina og bláa kjólinn sem Rachel McAdams klæddist í The Notebook-myndinni.“

Vanessa Bryant og Kobe Bryant.
Vanessa Bryant og Kobe Bryant. AFP

Vanessa Bryant birti mynd af gjöfinni á Valentínusardaginn árið 2013 en það er ekki fyrr en núna eftir dauða eiginmanns hennar og dóttur að búningahönnuðurinn frétti hver keypti kjólinn fræga. 

„Ég hafði ekki hugmynd. Þegar ég kláraði myndina setti ég kjólinn í kassa og hann fór í geymslu,“ sagði búningahönnuðurinn við THR. Hún veit ekki nákvæmlega hvernig kjóllinn endaði í höndunum á körfuboltakappanum fyrrverandi en gefur sér að hann hafi haft góð sambönd.

„Litur kjólsins er von,“ sagði Wegner þegar hún var spurð frekar út í kjólinn. „Þetta er ekki íburðarmikill kjóll. Hann er með rétt svo nógu mörgum smáatriðum til þess að gera hann áhugaverðan [...] Þetta er sígildur kjóll en segir margt um hana og vonir hennar fyrir þennan dag.“

Kvikmyndin kom út árið 2004 en kjóllinn er svo vinsæl að enn í dag fær Wegner reglulegar fyrirspurnir frá aðdáendum sem vonast til þess að fá afrit af sniðinu eða sem vilja kaupa svipaðan kjól. Wegner er ánægð með að kjóllinn höfði til fjöldans. 

Í spilaranum hér að neðan kemur blái kjóllinn fyrir í eftirminnilegu atriði úr The Notebook. 

mbl.is