Bjuggu til boli sem róa þjóðina á erfiðum tímum

Valgeir Magnússon tekur sig vel út í bolnum Verum róleg …
Valgeir Magnússon tekur sig vel út í bolnum Verum róleg og þvoum hendur.

„Okkur fannst þurfa upplífgandi leið í ástandinu þar sem hræðslan í samfélaginu er svo mikil. Ég sá að einn hönnuðrinn hér, Tómas Ragnarsson, setti hugmynd í síðsta netfréttabréfið okkar byggða á plakati sem keyrt var í Bretlandi í síðari heimstyrjöldinni Keep Calm and Carry On. Sérstaklega fannst mér flott hvernig hann notaði gamla skjaldamerkið sem Jörundur Hundadagakonungur lét gera fyrir nýja konungsveldið sem hann stofnaði. Mér fannst þetta svo frábær skilaboð til samfélagsins að mig langaði í svona bol,“ segir Valgeir Magnússon, eða Valli sport eins og hann er kallaður, sem er stjórnarformaður auglýsingastofunnar Pipar/TBWA en stofan stendur nú fyrir auglýsingaherferðinni Verum róleg og þvoum hendur. 

„Svo datt mér í hug að hafa samband við fjölmiðlana og sjá hvort þeir myndu vilja birta þessi skilaboð og það stóð ekki á svörum. Það eru allir til sem ég hef náð að hafa samband við. Nú erum við bara að útfæra skilaboðin fyrir hina ýmsu miðla og munum keyra út á næstu dögum. Í dag birtast fyrstu auglýsingarnar á Billboard og Strætóskýlum. Svo ef fjölmiðlar vilja fá auglýsingar í sínum stærðum og formati þá er bara um að gera að hafa samband og við sendum um hæl,“ segir hann og bætir við:

„Nú er bara að standa saman. Vera róleg og þvo hendur. Það er ekkert flóknara en það. Heimurinn er ekki að farast. Sólin kemur upp aftur á morgun. Við bara endurskoðum hvað er verðmætast í okkar lífi og hlúum að því. Þetta er tímabil sem við förum í gegnum og höldum svo áfram.“

mbl.is

Stöndum saman

Við hjá Árvakri viljum vekja athygli á því sem vel er gert á þessum erfiðu tímum. Ef þú ert með góða sögu af fyrirtækjum og einstaklingum sem eru að gera gott, sendu okkur ábendingu á netfangið [email protected].

Stöndum saman