Hár-Ellý aldrei fundist hún eins mikilvæg og nú

Ellý ætlar að opna sér eina svona flösku þegar faraldurin …
Ellý ætlar að opna sér eina svona flösku þegar faraldurin er yfirstaðinn. Ljósmynd/Aðsend

„Mér er búið að líða eins og hjúkrunarfræðingi á gjörgæslu síðustu vikur. Núna finnur maður virkilega fyrir hvað maður er mikilvægur,“ segir hársnyrtimeistarinn Elínborg Birna Benediktsdóttir, sem oftast er kölluð Ellý. 

Ellý rekur stofuna Hár-Ellý í Hafnarfirði og segir að viðskiptavinir hennar bíði spenntir eftir að komast aftur í stólinn til hennar. Hún segir að sumir hafi jafnvel grínast með að ætla að hanga á snerlinum hinn 5. maí, þegar áætlað er að samkomubanni ljúki.

Mikið snjóaði á höfuðborgarsvæðinu og landinu öllu í gær og nýtti Ellý tækifærið og gerði síðhærða snjókarla fyrir framan hurðina hjá sér, eins konar táknmynd um viðskiptavinina sem bíða spenntir eftir að komast aftur í klippingu.

„Ég fékk þessa hugmynd í göngutúr í gær, ég geng mikið þessa dagana. Snjórinn var fullkominn til þess að búa til snjókarla,“ sagði Ellý.

Ellý lokaði stofunni sinni í byrjun mars en stórfjölskyldan skellti sér til Kanarí til að halda upp á 70 ára afmæli móður Ellýjar. Sumir fjölskyldumeðlimir þurftu að snúa heim fyrr en áætlað var vegna kórónuveirunnar og fóru í sóttkví við heimkomuna. 

Hún segir að þau systkinin og fjölskyldur þeirra hafi þó ekki látið sér leiðast í sóttkvínni og haft eitthvað fyrir stafni á hverjum degi. 

Ellý segist ekki hafa áhyggjur af því að þurfa að taka á móti illa klipptum viðskiptavinum þegar samkomubanninu verður aflétt. „Nei veistu, ég held að mínir viðskiptavinir séu mjög skynsamir. Þeir hlýða bara Víði og koma til mín í maí og ég get gert þá sæta aftur,“ segir Ellý.

„Víðir sagði að það væri í lagi að vera vera með ljóta hárgreiðslu í samkomubanninu og ég held að mínir viðskiptavinir hlýði því bara,“ segir Ellý. Hún hefur verið í hárbransanum í 30 ár og aldrei upplifað tíma sem þessa.

En eins og snjókarlarnir bera vitni um hefur Ellý haft nóg að gera í sóttkví og samkomubanni. „Nýja vinnan mín er að baka kleinur og færa heldri borgurum og þeim sem eru í sóttkví. Mér finnst það alveg ótrúlega gaman,“ segir Ellý.

„Viðskiptavinir“ Ellýjar bíða spenntir eftir að samkomubanni ljúki.
„Viðskiptavinir“ Ellýjar bíða spenntir eftir að samkomubanni ljúki. Ljósmynd/Facebook
mbl.is

Stöndum saman

Við hjá Árvakri viljum vekja athygli á því sem vel er gert á þessum erfiðu tímum. Ef þú ert með góða sögu af fyrirtækjum og einstaklingum sem eru að gera gott, sendu okkur ábendingu á netfangið [email protected].

Stöndum saman