Krónprinsinn lét snyrta lubbann

Friðrik krónprins birti myndir af sér á samfélagsmiðli dönsku konungsfjölskyldunnar.
Friðrik krónprins birti myndir af sér á samfélagsmiðli dönsku konungsfjölskyldunnar. Samsett mynd

Friðrik krónprins Danmerkur beið ekki boðanna og skellti sér í klippingu í dag, mánudag. Hann var kominn með mikinn lubba eftir lokun hárgreiðslustofa í Danmörku vegna kórónuveirufaraldursins. 

Friðrik birti fyrir og eftir myndir af hárinu á sér á Instagram-síðu dönsku konungsfjölskyldunnar. Leyfði hann sér að efast um að hann hefði verið sá eini sem fór í klippingu í dag. Sagði hann jafnframt að sem betur fer gætu nú hárgreiðslustofur, lítil fyrirtæki og búðir haft opið. 

Íslenskir karlmenn sem þora ekki að láta heimilisfólk um raksturinn munu líklega ekki líta neitt betur út en danski prinsinn í byrjun maí. Hárgreiðslufólk mun því líklega hafa nóg að gera þegar hárgreiðslustofur opna aftur á Íslandi. 

mbl.is