Gefur óskarskjól sem var ekkert sérstakur

Gwyneth Paltrow birti mynd af kjólnum sem hún ætlar að …
Gwyneth Paltrow birti mynd af kjólnum sem hún ætlar að gefa á Instagram. skjáskot/Instagram

Leikkonan Gwyenth Paltrow ætlar að gefa gamlan kjól á góðgerðaruppboð. Stjarnan klæddist kjólnum á óskarsverðlaunahátíðinni en fólk var fljótt að grafa upp gömul ummæli hennar þar sem hún talaði um kjólinn sem einn versta kjól sem hún hefði klæðst á hátíðinni. 

Paltrow fannst tilvalið að gefa kjólinn, sem fatahönnuðurinn Calvin Klein hannaði, þar sem kjóllinn er frá því í lok tíunda áratugarins og áhrif frá þessum árum eru í tísku núna.

Paltrow klæddist kjólnum árið 2000 eða árið eftir að hún fór heim með styttuna eftirsóttu fyrir hlutverk sitt í Shakespeare in Love.

„Sá fyrsti er Calvin Klein. Það er allt-í-lagi-kjóll en ekki óskarsefni. Ég valdi hann af því að ég vildi hverfa það árið,“ sagði Paltrow um kjólinn fyrir nokkrum árum þegar hún sagði frá tískumistökum sínum á rauða dreglinum á óskarsverðlaunahátíðinni. Hin mistökin gerði hún árið 2002 þegar hún klæddist hálfgegnsæjum kjól frá Alexander McQueen. Hún var ánægð með kjólinn en hefði viljað klæðast brjóstahaldara og vera með öðruvísi hárgreiðslu og förðun.

Gwyneth Paltrow hefði viljað vera í brjóstahaldara.
Gwyneth Paltrow hefði viljað vera í brjóstahaldara. REUTERS

Paltrow ætlar að afhenda hæstbjóðanda kjólinn frá árinu 2000 persónulega og bjóða honum um leið upp á te eða eins og eitt vínglas. Í instagrammyndbandi með Paltrow má sjá hana tala um málefnið og kjólinn. 

Þegar Paltrow vann Óskarsverðlaun var hún í bleikum kjól frá Ralph Lauren.

Gwyeneth Paltrow með Óskarinn árið 1999.
Gwyeneth Paltrow með Óskarinn árið 1999. REUTERS
mbl.is