Maðurinn bak við brúðarförðun Meghan leysir frá skjóðunni

Daniel Martin farðaði Meghan fyrir brúðardaginn.
Daniel Martin farðaði Meghan fyrir brúðardaginn. AFP

Förðunarfræðingurinn Daniel Martin, sem farðaði Meghan hertogaynju af Sussex fyrir brúðkaupið hennar, hjálpar nú konum víða um heim að ná hinni fullkomnu förðun á brúðkaupsdaginn. Vegna kórónuveiruheimsfaraldursins eru ekki mörg brúðkaup um þessar mundir en einhverjir hafa brugðið á það ráð að gifta sig í beinni útsendingu fyrir vini og vandamenn. 

Brúðkaupi Harry og Meghan var auðvitað sjónvarpað um allan heim og flestir sammála um að förðun Meghan hafi verið fullkomin á sjónvarpsskjánum, svo Martin er vel treystandi til að gefa slík ráð. 

Martin leggur áherslu á að undirbúa húðina vel áður en hafist er handa. „Þú vilt smá ljóma, en þú vilt ekki vera of glasandi,“ sagði Martin í viðtali við Vogue. Hann mælir með farðagrunni sem „blörrar“ húðina smá. Næsta skref er að hylja misfellur og litaleiðrétta húðina með því að einblína undir augun og við nefið. „Þetta snýst allt um að jafna út húðlitinn þinn, þetta er ekki rétti tíminn til að monta þig af skyggingarhæfileikum þínum,“ sagði Martin.

Ef þú ert ekki meistari í því að setja á þig augnskugga segir hann bestu leiðina til að draga athygli frá því sé að vera með fallegar augabrúnir. „Núna er tíminn til að fara á YouTube og læra að plokka augabrúnirnar þínar,“ sagði Martin. Hann mælir með að greiða í gegnum augabrúnirnar með augabrúnamaskara. Fyrst í öfuga átt og þegar maskarinn hefur þornað í hina áttina. Síðan fyllirðu upp í þær. „Það er auðveldasta leiðin til að fá flottar augabrúnir án þess að þær virðist of Instagram-legar,“ sagði Martin. 

Hann mælir með að fara varlega í augnskuggann og ef þú ert ekki viss um hæfileika þína sé best að nota sólarpúður eða kinnalit til að gera létta skyggingu. 

Hann mælir með að allir setji sólarpúður þar sem sólarljósið fellur á andlitið náttúrulega og skyggi þannig andlitið. Síðan er kinnalitur nauðsynlegur fyrir verðandi brúður. 

Sama hvort kúnninn sé konunglegur eða ekki notar Martin alltaf „setting“-sprey til að fullkomna förðunina. 

Förðun Meghan þennan daginn var einstaklega náttúruleg og falleg.
Förðun Meghan þennan daginn var einstaklega náttúruleg og falleg. AFP
mbl.is