Líður eins og hún sjálf ómáluð

Gwyneth Paltrow líður best ómáluð.
Gwyneth Paltrow líður best ómáluð. AFP

Leikkonan Gwyneth Paltrow segir að sér líði mest eins og hún sjálf þegar hún er ómáluð. Leikkonan hefur verið ófeimin við að birta myndir af sér ómálaðri á samfélagsmiðlum. 

„Ég hef aldrei verið mikil snyrtivörukona. Ég hef alltaf elskað að vera ómáluð. Fyrir mér þýðir farði að ég sé að fara í vinnuna,“ sagði leikkonan í viðtali við People. Hún segir að hún hafi snemma fundið fyrir því að sér líkaði ekki að vera stífmáluð. 

„Ég fór í stúlknaskóla og við vorum ekki málaðar. Við klæddum okkur ekki upp á fyrir neinn. Í gegnum eldri stigin í grunnskóla og framhaldsskóla byrjaði ég ekki að mála mig daglega eins og svo margar. Og ég held að hluti af því hafi verið af því ég var alltaf smá „strákastelpa“. Mér finnst góð tilfinning að vera með hreint andlit,“ sagði Paltrow. 

Paltrow líður best ómáluð.
Paltrow líður best ómáluð. skjáskot/Instagram

Hún hefur notað þessa hugmyndafræði við gerð á snyrtivörum fyrir merki sitt Goop, GOOPGLOW, sem eru einstaklega hreinar vörur sem miða að því að draga fram náttúrulega fegurð. 

Paltrow á sjálf tvo unglinga, 14 og 15 ára, og segir að hún sjái vel hvernig ímynd fegurðar hefur breyst í gegnum árin. „Þegar ég var á mínum mótunarárum þá þótti skilgreining fegurðar vera Barbie-dúkka, en núna er dóttir mín á mótunarárum sínum og þetta hefur breyst svakalega mikið,“ segir Paltrow.

Hún er ánægð með þessar breytingar og segir að í dag endurspegli fegurð fleiri gerðir af fólki, ekki bara hvíta, ljóshærða, granna konu. 

„Því betur sem þú þekkir sjálfa þig og tekur sjálfa þig í sátt, því betur tekur þú í sátt hvernig þú ert og hvernig þú lítur út. Mér finnst það alltaf kaldhæðnislegt að þegar þú virkilega tekur sjálfa þig í sátt líkamlega er það þegar þú ert orðin gráhærð. Ég tel vera nokkurn sannleik í því,“ sagði Paltrow.

Gwyneth Paltrow segir fegurð hafa breyst mikið í gegnum árin.
Gwyneth Paltrow segir fegurð hafa breyst mikið í gegnum árin. CHRIS PIZZELLO
mbl.is