Það varð sprenging í netverslun við samkomubannið

Ragnheiður Óskarsdóttir rekur Ilse Jacobsen og Baum und Pferdgarten.
Ragnheiður Óskarsdóttir rekur Ilse Jacobsen og Baum und Pferdgarten. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ragnheiður Óskarsdóttir eigandi verslananna Ilse Jakobsen og Baum und Pferdgarten segir að það hafi verið mikið högg að þurfa að loka verslununum í sex vikur en hún hafi gert það til að hafa öryggið í fyrirrúmi. 

„Við opnuðum Ilse-búðirnar aftur núna í vikunni og svo opnar Baum und Pferdgarten 4. maí,“ segir Ragnheiður. 

Hvað hafði þið gert til þess að reyna að snúa vörn í sókn?

„Við nýtum okkur auðvitað þau úrræði stjórnvalda sem bjóðast en svo höfum við sett aukna áherslu á netverslunina. Við höfum verið með alls konar tilboð og aukið vöruúrval í netverslun Ilse og að sjálfsögðu toppþjónustu eins og alltaf. Það skiptir svo miklu máli að halda góðu sambandi við viðskiptavinina,“ segir hún. 

Er fólk að kaupa mikið á netinu?

„Já, það varð eiginlega sprenging. Fólk var greinilega að færa viðskipti sín á netið og okkar viðskiptavinir, sem þekkja vöruna mjög vel, áttu ekki í neinum vandræðum með að kaupa í netbúðinni. Við erum búin að reka Ilse-netverslunina í sex ár, þannig að við erum komin með talsverða reynslu í því. Þess vegna var það líka nærtækt að auka þjónustuna við kúnnann með því að opna aðra netverslun, frk.is, með hinum merkjunum okkar, sérstaklega Baum und Pferdgarten. Þannig að núna er hægt að kaupa allar okkar vörur í netbúðunum.“


Finnur þú fyrir aukningu þegar fólk er ekki að kaupa föt í útlöndum?

„Nei, við erum ekki farin að finna fyrir því ennþá, en það er ekki ólíklegt að það verði meira verslað hér heima, enda alltaf þægilegast og öruggast að versla á Íslandi.“

Þegar Ragnheiður er spurð út í vortískuna segir hún að glaðir litir verði áberandi. 

„Vortískan er glaðleg, litrík og með yndislegum munstrum og hún er líka skemmtilega bóhem og afslöppuð. Þetta verður sumarið til að láta síðkjólana sveiflast í sumargolunni.“  

Hvað þarf fólk að eiga til að komast í gegnum sumarið?

„Tulip skó frá Ilse og síðan blómakjól. Allt til að auka á gleðina.“

Hvað dreymir þig um í fataskápinn?

„Munstraðan sundbol og sundhettu í stíl.“

mbl.is