Ásdís Rán fékk tannlækni til að stækka varirnar

Ásdís Rán Gunnarsdóttir fyrirsæta og athafnakona var 26 ára þegar hún fékk sér fyllingu í varirnar í fyrsta skipti. Það var tannlæknir í Svíþjóð sem stækkaði á henni varirnar og segir hún að fyrsta skiptið hafi verið sársaukafullt. Fyrstu árin var varastækkunin mikið feimnismál en nú upplifir hún sig sem ákveðinn frumkvöðull í varastækkunum hérlendis því annar hver áhrifavaldur er kominn með eins varir og hún. Eða helmingi stærri. 

Hér er Ásdís Rán eins og hún lítur út í …
Hér er Ásdís Rán eins og hún lítur út í dag.

„Ætli megi ekki segja að ég sé ákveðinn frumkvöðull á þessu sviði en ég byrjaði að stækka varirnar löngu áður en það komst í tísku á Íslandi. Nú er lítið hægt að pósta forsíðufréttum af vörunum á mér þar sem íslensku áhrifavaldarnir eru komnir langt fram úr mér eins og flestir hafa tekið eftir á Instagram,“ segir Ásdís Rán létt í bragði. 

Hvenær fórstu í fyrstu varastækkunina og hvað varð til þess?

„Ég hef líklegast verið um 26 ára gömul. Þá bjó ég í Svíþjóð og öll frægustu glamúr módelin þar voru með svaka fyllingar þannig ég lét vaða og prufaði örlítið til að geta verið „samkeppnishæf“ á þeim markaði. Þar var þetta algjört möst í glamúr bransanum. Þar eru það oft tannlæknar sem sjá um að sprauta í varir og í fyrsta skipti sem ég gerði þetta þá var það kvenkyns tannlæknir sem gerði það,“ segir hún. 

Ásdís Rán þegar hún var 13 ára.
Ásdís Rán þegar hún var 13 ára.
Hér er Ásdís Rán ung að árum og ekki með …
Hér er Ásdís Rán ung að árum og ekki með fyllingu í vörunum eða bara 15 ára.

Ásdís hefur látið stækka á sér varirnar hjá mörgum sérfræðingum, bæði hérlendis og erlendis. Aðspurð hvort þessari stækkun fylgi ekki mikill sársauki segir hún svo vera. 

„Það er mjög vont að gera þetta. Sumir læknar nota smá deyfingarkrem og aðrir ekki. Ég hef verið mest hjá erlendum læknum. Þeir eru framar í þessum málum en ef ég læt gera þetta á Íslandi þá hef ég farið til Ágústs Birgissonar lýtalæknis. Hann er mjög flinkur í þessu. Ég hef farið einu sinni til tvisvar á ári svo ákvað ég fyrir um ári síðan að láta fjarlægja allt draslið úr. Þá voru varirnar á mér orðnar ójafnar eftir misjafna lækna í gegnum árin. Það var hún Eva Lísa hjá The Ward á Íslandi sem tók mig að sér og setti mig í meðferðir þar sem allt gel var fjarlægt úr varasvæðinu. Gelið hafði safnast upp í mörg ár og eftir það ákváðum við að halda mínu náttúrulegu vörum en hún bætti örlitlu í varalínuna til að bústa upp mitt náttúrulega form. Síðan hef ég ekki gert neitt þannig. Það má segja að mínar séu nánast náttúrulegar þar sem efnið fer úr á nokkrum mánuðum. Eva er með mikla reynslu erlendis frá og ótrúlega klár í öllum svona bjútímeðferðum á andliti,“ segir hún. 

Finnst þér stórar varir skipta miklu máli þegar kemur að heildarútlitinu?

„Það fer algjörlega eftir því hvaða „buisness“ þú ert í eða hvaða týpu þú ert að „representa“ í lífinu. Þetta skiptir alls ekki máli en íslensku genin eru þannig að konur eru með mjög þunnar varir miðað við margar aðrar þjóðir og það er allt í lagi að bústa þær smá innan skynsamlegra marka og það kemur oftast vel út. Ef þú ert hins vegar í fyrirsætubransanum eða áhrifavaldur þá verða þessir kostrastar oft miklu ýktari því fólk vil horfa á allt sem er ýkt, það er bara staðreynd. Of stórar varir, of stór brjóst, of mjó, of feit, of skrítin, of allskonar. Þetta er því miður það sem fólk fær athygli fyrir en oftast ekki venjulegt eða náttúrulegt útlit,“ segir Ásdís Rán. 

Svona voru varirnar á Ásdísi Rán áður en hún lét …
Svona voru varirnar á Ásdísi Rán áður en hún lét taka fyllingarnar úr vörunum.

Finnst þér eitthvað vanta þegar þú ert ekki með í vörunum?

„Já það var smá sjokk fyrst þegar ég lét fjarlægja efnið og mér fannst ég líta út eins og unglingur aftur en ég er búin að venjast því núna,“ segir hún og hlær. 

Þetta var mikið feimnismál í byrjun. -

„Já þetta var mikið feimnismál í mörg mörg ár hjá konum alveg eins og sílkon brjóstin voru í gamla daga og flestar að þræta fyrir svona fegrunarmeðferðir en núna er þetta orðið svo algengt að konur tala frekar opinskátt um þetta frekar en að fela þetta. Nú er tískan erlendis að breytast mikið og nú er orðið eftirsóknarverðara að vera með frekar náttúrulegt útlit, þar að segja ekki of ýkt! Það er bara gott mál og það á eftir að koma líka til Íslands eftir einhvern tíma.

Hvernig finnst þér varastækkun bæta útlitið?

„Það er oft bara spurning um simmetríu í andlitsfalli. Við værum eflaust allar mjög ánægðar með að fæðast með bústnar varir frá náttúrunni frekar en þunnar varir sem hverfa þegar þú setur á spari brosið. Kannski fer þínu andlitsfalli betur að hafa stærri varir því þú ert með stór augu, stórt nef eða eitthvað þannig, þetta er allt spurning um hvernig þér líður vel með sjálfa þig og hvernig þú vilt líta út,“ segir hún. 

Ásdís Rán segir það hluta af bransanum að láta stækka …
Ásdís Rán segir það hluta af bransanum að láta stækka á sér brjóstin og vera með fyllingu í vörunum.
mbl.is