Bjóst ekki við þessum vinsældum

Textílhönnuðurinn Ýr Jóhannsdóttir hefur vakið athygli víða um heim að undanförnu fyrir áhugaverðar grímur með tungum. Ýr hefur unnið með tungur í textíl í nokkur ár og prjónar undir nafninu Ýrúrarí. Ýr byrjaði að prjóna grímur í tengslum við kórónuveirufaraldurinn og hafa verk hennar vakið mikla athygli undanfarnar vikur.

„Ég var að vinna samstarfsverkefni með Rauða krossinum, fatasöfnuninni hjá þeim fyrir Hönnunarmars sem var frestað. Ég var búin að vera marga mánuði að undirbúa það. Allt í einu var það ekki að gerast. Þannig þá gerðist þetta allt í einu upp úr þurru af því ég vissi ekki alveg hvað ég ætti að gera þegar allt lokaðist,“ sagði Ýr um af hverju hún fór að prjóna grímur með tungum á. „Ég fór eiginlega bara að gera þessar grímur af því mér datt það í hug. Allt í einu varð það að einhverjum veruleika að vera með grímur á andlitinu.“

Hönnuðurinn Ýr Jóhannsdóttir með tungugrímu sem hún prjónaði.
Hönnuðurinn Ýr Jóhannsdóttir með tungugrímu sem hún prjónaði. AFP

Óhugnanlegar grímur

Grímurnar eru með munnum á og þær nýjustu með mörgum tungum. Ýr segir grímurnar ekki vera hugsaðar til þess að vera öruggar. „Ég er ekki að fara með þær út í Bónus eða neitt. Hugmyndin var að þær væru óhugnanlegar svo fólk myndi halda fjarlægðinni sem er líka mikilvægt.“

Eftir því sem á leið urðu grímurnar flóknari og flóknari. Það má túlka grímurnar þannig að þær hafi orðið flóknari samhliða flóknari heimsmynd en ástæðan er þó frekar sú að Ýr fór að verja meiri tíma á vinnustofunni og heima hjá sér.

Ýr með andlitsgrímu sem hún gerði og peysu.
Ýr með andlitsgrímu sem hún gerði og peysu. AFP

Vogue hafði samband

„Ég hef fengið ótrúlega mikil viðbrögð. Ég fór í viðtal við Vogue, ég bjóst til dæmis ekki við því að vera komin þangað. Þannig að þetta er búið að vera mjög óvænt en líka gaman hvað það tengja allir við þetta, þetta er að skemmta fólki úti um allan heim. Það er gaman að geta setið heima og prjónað en fengið fólk úti um allan heim til að hlæja með sér.“

Er það toppurinn að komast í Vogue?

„Ég myndi halda það. Ég hafði ekki endilega planað að fara í viðtal við Vogue. Það er líka meira svona tískublað. Það vita allir hvað það er og eitthvað sem maður elst upp við. Það er ákveðinn stimpill og gaman að fá athygli frá þeim og þau vilji hafa mann á sinni síðu.“

Umfjöllun Vogue er langt því frá eina erlenda umfjöllunin sem Ýr hefur fengið. Fjöldi erlendra miðla greip viðtal Vogue og birti á miðlum sínum. Alþjóðlega fréttaveitan AFP hefur fjallað um verk Ýrar og þegar blaðamaður Smartlands náði í hana var hún nýkomin úr Skype-viðtali við hollenskan miðil. 

Vinsældir Ýrar eða Ýrúrarí hafa einnig vakið mikla athygli á samfélagsmiðlum. Hún segir að allt í einu sé fullt af fólki sem fylgist með hvað hún er með á prjónunum. Það eru söfn í Bandaríkjunum og Hollandi sem vilja fá grímur Ýrar. Hún er núna að reyna að ákveða hvaða tilboði hún vill taka. 

Fyrstu grímurnar voru einfaldar eins og þessi sem hér má …
Fyrstu grímurnar voru einfaldar eins og þessi sem hér má sjá. AFP

Margir vilja kaupa grímurnar

Ýr stundar meistaranám í listkennsludeild við Listaháskóla Íslands og hafa óvæntar vinsældir hönnunar hennar truflað aðeins lokin á önninni. Hún segir það fylgja því töluvert áreiti að svara fólki sem nánast heimtar að kaupa af henni grímur en Ýr stendur ekki í fjöldaframleiðslu. 

„Ég er ekki að fjöldaframleiða. Það er búið að vera rosalegt áreiti af fólki sem er kannski komið í það að heimta af mér grímur af því það heldur að það sé eitthvað geggjað ef það vill kaupa eitthvað af mér. Það er eiginlega búið að vera mesta álagið að díla við næstum því neikvæð viðbrögð þegar fólk verður móðgað þegar ég ætla ekki að eyða tímanum mínum í að búa eitthvað til handa þeim.“

Ýr segir að mikið af fyrirspurnunum komi frá Ameríku. Hún ímyndar sér að þetta sé aðallega fólk sem vill setja grímurnar á andlitið á sér, taka myndir af sér og birta á samfélagsmiðlum sínum.

Þann 24. júní hefst Hönnunarmars og þá verður hægt að sjá hönnun Ýrar í Rauða kross-búðinni við Hlemm. 

View this post on Instagram

Mother mouth and her sprouts 🌱 swipe for details 👀 #mask #fashionforbankrobbers #fiberart #growth

A post shared by Ýrúrarí (@yrurari) on Apr 25, 2020 at 9:16am PDT

Ýr Jóhannsdóttir að störfum.
Ýr Jóhannsdóttir að störfum. AFP
mbl.is