Getum ekkert farið framúr sjálfum okkur

Þorsteinn Halldórsson þjálfari Breiðabliks
Þorsteinn Halldórsson þjálfari Breiðabliks

„Ég er bara sáttur, við spiluðum vel, sköpuðum fullt af færum og skoruðum tvö mörk,“  sagði Þorsteinn Halldórsson þjálfari Blikakvenna eftir 2:0 sigur á Stjörnunni í dag, þegar fram fór 15. umferð efstu deildar kvenna í knattspyrnu, Pepsi-deildinni.  

„Þær voru hættulegar í byrjun en sköpuðu sér svo ekki neitt en að öðrum leiti er ég sáttur við leikinn, heild yfir vel spilaður en áttum að setja fleiri mörk.“

Breiðablik er tveimur stigum á eftir Val um efsta sæti deildarinnar en liðin mætast í 17. umferð.  Þjálfarinn var samt ekkert að láta það trufla sig.  „Við getum ekkert farið framúr sjálfum okkur,  verðum að vera mjög einbeitt á hverju verkefni fyrir sig.  Við nálgumst því hvern leik þannig og komum vel stemmd inní þennan leikinn.  Fyrir okkur snýst þetta um að koma í hvern leik fyrir sig til að gera sitt besta og vinna leikinn.   Við eigum eftir að spila marga leiki þar til kemur að leiknum við Val í deildinni, það er nóg eftir af verkefnum og þýðir ekkert að spá Valsleikinn núna.“

mbl.is