Sanngjarn sigur KR-inga sem bíða spenntir

Hörður Ingi Gunnarsson og Óskar Örn Hauksson í baráttunni á …
Hörður Ingi Gunnarsson og Óskar Örn Hauksson í baráttunni á Meistaravöllum í dag. mbl.is/Eggert

KR vann ÍA 2:0 í Pepsi Max-deild karla í knattspyrnu í Vesturbænum í dag og hefur 10 stiga forskot á Breiðablik í 2. sætinu þegar KR á þrjá leiki eftir en Blikar fjóra. Tapi Breiðablik gegn Fylki í kvöld verður KR Íslandsmeistari. Óskar Örn Hauksson skoraði fyrir KR í fyrri hálfleik og Kristinn Jónsson innsiglaði sigurinn með skoti í slá og inn á 87. mínútu.

KR-ingar stýrðu leiknum frá A-Ö í fyrri hálfleik, héldu boltanum miklu betur og sköpuðu sér nokkur hálffæri á meðan Skagamenn héldu sig við sitt hefðbundna leikplan; að sækja hratt og treysta á hraða og leikna sóknarmenn sína. 

Á 35. mínútu kom Óskar Örn Hauksson KR yfir með glæsilegu skoti eftir undirbúning frá Pálma Rafni Pálmasyni, sem rúllaði knettinum til hliðar úr aukaspyrnu á Óskar sem þrumaði knettinum niðri í nærhornið, 1:0.

Skagamenn komust líklegast næst því að skora mark í fyrri hálfleik á 44. mínútu er Tryggvi Hrafn Haraldsson tók aukaspyrnu af nokkuð löngu færi en skot hans fór rétt framhjá, staðan 1:0 í hálfleik.

Skagamenn lágu afar aftarlega í byrjun fyrri hálfleiks og rönkuðu í raun ekki við sér fyrr en við tvær skiptingar á 65. mínútu. Þá komu þeir Bjarki Steinn Bjarkason og Steinar Þorsteinsson inn á, fækkað var í vörninni og Skagamenn reyndu fyrst að sækja af alvöru.

Á 74. mínútu komust Skagamenn afar nærri því að skora í tvígang. Beitir Ólafsson í marki KR varði hins vegar naumlega eftir skalla frá Marcus Johansen en Bjarki Steinn náði frákastinu. Þá var það Finnur Tómas Pálmason sem varði á marklínu.

Á 87. mínútu fékk KR hornspyrnu. Skagamenn skölluðu frá en Kristinn Jónsson beið fyrir utan teiginn, náði í knöttinn, og negldi honum utan teigs í slá og inn, 2:0. Urðu það lokatölur.

ÍA hefur 25 stig í 8. sæti.

KR 2:0 ÍA opna loka
90. mín. Fjórar mínútur í uppbótartíma.
mbl.is