Ef maður heldur aftur af sér er manni refsað

Jóhannes Karl Guðjónsson þjálfari ÍA.
Jóhannes Karl Guðjónsson þjálfari ÍA.

„Ég held því miður að við höfum haldið að þetta yrði of auðvelt en það er bara enginn fótboltaleikur auðveldur, það þarf að leggja sig fram og ef maður heldur aftur af sér er manni refsað og okkur var refsað í dag,“  sagði Jóhannes Karl Guðjónsson, þjálfari ÍA, sem varð að sjá á eftir tveimur stigum þegar Grindavík jafnaði í lokin er liðin mættust á Skipaskaga í dag og leikið var í 20. umferð efstu deildar karla í fótbolta. 

„Við náðum forystu í þessum leik og mér fannst það verðskuldað en það er mjög svekkjandi að eiga góðan fyrri hálfleik gegn grimmu Grindavíkurliði, sem spilar boltanum hátt og langt fram með öfluga menn þar.  Við höndluðum það vel í fyrri hálfleik en það var allt annað upp á teningnum í seinni hálfleiknum þegar við héldum of mikið aftur af okkur í varnarleiknum en líka í sóknarleiknum.“

ÍA, eins og flest liðin í deildinni getur þrátt fyrir jafntefli í dag komist í Evrópukeppnina en þjálfarinn er með sín markmið.  „Það hefur verið rætt um Evrópukeppni og mjög mörg lið í sumar en við erum bara með okkar markmið varðandi stigafjölda, erum ekki búnir að ná þeim en á góðri leið með það.  Við ætlum okkur lengra, það eru þrjú stig í boði í Kórnum næst og ég held að við mætum töluvert grimmari í báða hálfleikina í þeim leik, ég er nokkuð viss um það.“

mbl.is