Slegin út af laginu

Kjartan Stefánsson Þjálfari Fylkis
Kjartan Stefánsson Þjálfari Fylkis Eggert Jóhannesson

„Við byrjum á að fá á okkur tvö mörk á fyrstu sjö mínútunum og Blikar settu góða pressu á okkur svo við vorum slegin út af laginu,“ sagði Kjartan Stefánsson þjálfari nýliða Fylkiskvenna sem töpuðu 5:1 fyrir Blikum í Árbænum en náðu samt 6. sæti efstu deildar kvenna í knattspyrnu, Pepsi-deildarinnar.

Blikakonur byrjuðu með látum og þjálfarinn sagði sitt lið ekki alveg viðbúið. „Við vitum að Blikakonur voru mjög góðar og ætluðu sér sigur hérna í dag, freistuðu þess að Keflavík ætti góðan leik gegn Val en ég held að leikurinn hafi verið vel upp settur hjá Blikum á meðan við vorum svolítið sofandi.“

„Ég er gríðarlega sáttur við sumarið í heild sinni, við héldum okkur uppi sem var fyrsta markmið okkar og gerðum síðan betur en búist var við af okkur, “  hélt Kjartan áfram.   „Við erum ungt lið, nýkomið upp í efstu deild og það þarf að standa það.   Hvað stigatöluna varðar er ég sáttur við sjötta sætið, helst er ég ósáttur við að við náðum góðu flugi en náðum ekki að tengja við og töpum fjórum síðustu leikjum okkar og ég hefði viljað fá fleiri stig þar.   Annars hefur þetta verið gott sumar, margar hafa slípast til og eflaust er þetta líka lífsreynsla.“

mbl.is