Naflaskoðun og allsherjar yfirhalning

Srdjan Tufegdzic þjálfari Grindvíkinga.
Srdjan Tufegdzic þjálfari Grindvíkinga. Eggert Jóhannesson

„Við gjörsamlega leggjum allt að veði ef það eru tvær leiðir til að falla þá og við gerum það þó með sæmd en þetta er grátlegt, stundum er það bara ekki nóg og ótrúlega erfitt að sætta sig við það þótt það hafi legið fyrir í nokkurn tíma,“ sagði Gunnar Þorsteinsson fyrirliði Grindvíkinga eftir 2:2-jafntefli við Val þegar leikið var suður með sjó í 21. og næstsíðustu umferð efstu deildar karla í fótbolta. Eitt stig dugði Grindvíkingum ekki og fall úr deildinni er staðreynd.    

„Sumarið hefur allt verið svona hjá okkur, stöngin út, og í þessum leik var það einmitt svo tvisvar sinnum og landsliðsmarkvörður Vals átti svo frábæra markvörslu í lokin.“

Fyrirliðinn sagði að nú lægi fyrir naflaskoðun og uppbygging. „Þetta er hluti af stærra dæmi, sem er niðursveifla hjá öllu félaginu. Kvennaliðið hefur fallið niður um tvær deildir á tveimur árum og við núna. Reksturinn á félaginu hefur verið erfiður og ég vil ekki bara benda á það en allir innan liðsins hjá okkur, hvort sem er þjálfarar eða aðrir, hafa gert allt sem í þeirra valdi stendur til að bjarga því sem bjargað verður en því miður dugði það ekki til,“ sagði Gunnar og vill naflaskoðun og allsherjar yfirhalningu.

„Því miður er starfið ekki nógu sterkt hjá félaginu eins og staðan er núna, við erum ekki að búa til nógu mikið af ungum leikmönnum og komið að þeim tímapunkti að fara í naflaskoðun og ráðast í allsherjar yfirhalningu á öllu starfinu. Alveg frá sjöunda flokki og upp úr. Fyrsta skrefið hefur verið stigið með því að fá Benóný Þórhallsson til að þjálfa yngri flokkana og ég bind vonir við það beri ávöxt næstu fimm eða tíu árin.“

Er til í að leiða Grindavík aftur í efstu deild

„Við höfum gert okkar besta í allt sumar en stundum dugar það ekki,“ sagði Srdjan Tufegdzic þjálfari Grindvíkinga eftir leikinn. „Við vorum einbeittir í að vinna þennan leik og gerðum allt til þess, fengum fullt af færum til þess, fimm dauðafæri í lokin, en Valur skorar tvö mörk úr þremur skotum. Það er því ekki hægt að kvarta yfir vilja og vinnusemi og baráttu hjá okkur en þetta hefur einmitt verið saga sumarsins; við gefum allt í leikina en það er ekki nóg og ástæðan fyrir því að við erum að falla.“

Þjálfarinn er til í að halda áfram með liðið til að komast aftur upp í efstu deild. „Ég er með samning sem er uppsegjanlegur af beggja hálfu og það verður bara að setjast niður og tala vel saman um hvað við viljum gera sem klúbbur. Ef klúbburinn vill að við komumst aftur í efstu deild er ég fyrsti maður til að vilja leiða hann þangað.“

mbl.is