Þú færð reynslu með því að spila og gera mistök

Arnar Gunnlaugsson þjálfari Víkinga.
Arnar Gunnlaugsson þjálfari Víkinga.

„Mér fannst við vera með tögl og hagldir frá fyrstu mínútu,“  sagði Arnar Gunnlaugsson, þjálfari Víkinga, eftir 5:1 sigur á ÍA á Akranesi í dag þegar 22. og síðast umferð efstu deildar karla í fótbolta fór fram, Pepsi-deildin. 

Mark ÍA snemma í leiknum sló Víkinga ekki út af laginu.  „Þeir skora svolítið gegn gangi leiksins en við héldum bara okkar plani, voru ekkert að fara á taugum og náðum að herja mikið á þeirra veikleika, mér fannst við bara vel stemmdir og langaði að klára mótið með sæmd því það hefði verið svolítið fúlt að taka bikartitil og tapa síðan þremur síðustu leikjum í deildinni.  Ekki að leikirnir við Fylki og KA hafi ekki verið flottir en stundum tapar maður bara fótboltaleikjum.  Við vorum virkilega flottir í dag.“

Arnar þjálfari var sáttur við sumarið, hvernig blanda af reynsluboltum og ungum mönnum hafi gengið upp.  „Mér finnst gott spil hafa verið til staðar frá fyrstu mínútu í fyrsta leik en málið er að með því að spila og spila þá gerir þú færri mistök.  Það hafa strákarnir lært í dag – það er ákvarðanataka.  Hvenær á að gefa boltann, hvenær að spila með boltann, hvenær á að halda honum og hvenær á að loka leikjum en við sáum einmitt í dag hvernig við lokuðum leiknum á fagmannlega hátt.  Við gerðum það sama í undanúrslitaleiknum og úrslitaleiknum í bikarnum.  Þegar þú ert ungur leikmaður kemur það með reynslunni og reynsluna færð þú bara með að spila og gera mistök.  Við erum með unga stráka í liðinu.  Æfingar okkar eru hraðar og þegar þessir strákar spila með reyndari leikmönnum eins og Kára, Sölva, Halldóri og Davíð þá læra þeir eitthvað.  Þá fá þeir góða samkeppni um að komast í lið og úr verður hörkulið,“  bætti Arnar við og verður áfram með liðið. 

„Við erum með tvo leikmenn í láni, annars erum við með okkar hóp og ætlum að bæta í hann svo við verðum sterkir á næsta ári.“ 

mbl.is